Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segist hafa töluverðar áhyggjur af smittölum síðustu daga og einkum þvíhversu margir sem greinast séu utan sóttkvíar. Fólk virðist ekki vera að passa sig nægjanlega, segir Þórólfur. Hann sagði á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag mögulegt að Covid-19 faraldurinn sé aftur á uppleið.
Þórólfur sagði að hans mat væri að við stæðum nú á ákveðnum krossgötum. Verulegt ákall væri úr samfélaginu um að slakað yrði á takmörkunum en rétt væri að minna á að sá árangur sem hefði náðst síðustu daga og vikur hefði náðst með þeim aðgerðum sem farið hefði verið í í sóttvarnarskyni. Mikilvægt væri að fólk sýndi áfram þolgæði og gætti að persónulegum sóttvörnum sínum áfram.
Þórólfur hefur skilað tillögum til heilbrigðisráðherra um breytingar á takmörkunum í sóttvarnarskyni en ekki væri tímabært að ræða innihald þeirra. Hins vegar væri mögulegt að gera þyrfti breytingar á þeim tillögum ef þróun mála yrði á þann veg að faraldurinn myndi sækja í sig veðrið á nýjan leik, eins og hann óttaðist.
Athugasemdir