Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Alvarlegt að ekki sé vitað hvar íslenskt plast endar

Guð­mund­ur Ingi Guð­brands­son um­hverf­is­ráð­herra svar­ar fyr­ir mis­bresti í end­ur­vinnslu plasts og glers á Ís­landi. Hann kall­ar eft­ir ít­ar­legri skoð­un á end­ur­nýt­ingu og end­ur­vinnslu plasts í kjöl­far um­fjöll­un­ar Stund­ar­inn­ar sem sýn­ir ágalla á töl­fræði um end­ur­vinnslu og vill­andi upp­lýs­ing­ar um af­drif plasts. „Ég tel að það þurfi um­bylt­ingu í úr­gangs­mál­um á Ís­landi,“ seg­ir hann.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfisráðherra vill gera byltingu í úrgangsmálum, en ráðuneytið hefur ekki staðið við hækkun skilagjalds á drykkjarumbúðum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur óskað eftir fundi með formanni og framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, til þess að ræða afdrif íslensks plasts, endurvinnslu og önnur málefni sjóðsins, í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar. Þá hefur hann ákveðið að endurskoða sérsamning við sjávarútveginn sem veitir undanþágur frá kröfum um endurvinnslu.

Hvað verður um allt plastið?

Í síðasta tölublaði Stundarinnar var fjallað um að íslensk endurvinnslufyrirtæki senda mikið magn af plasti til sænska fyrirtækisins Swerec. Það fyrirtæki hefur verið undir rannsókn hjá lögregluembættum í þremur ríkjum ásamt því að tengjast einu stærsta umhverfisslysi í sögu Lettlands þegar yfir 23 þúsund tonn af plasti brunni á ólögmætu geymslusvæði. Þá þurfti fyrirtækið einnig að greiða háar skaðabætur vegna eins stærsta svindls í sögu endurvinnslu í Svíþjóð, en fyrirtækið sagðist vera að endurvinna allt að 80% af öllu plasti sem það fékk til sín. Raunin var hins vegar allt önnur og kom í ljós eftir rannsókn norska skilakerfisins, að eingöngu um 20% af plasti sem fyrirtækið tók við var endurunnið. Hitt var sent til brennslu, meðal annars í sementsverksmiðju. Fyrirtækið sendi einnig plast frá íslenskum neytendum á geymslusvæði í Svíþjóð þar sem það er búið að standa í yfir þrjú ár og verður það plast aldrei endurunnið.

Alvarlegt að vita ekki

Blaðamaður Stundarinnar hitti Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra til að ræða við hann um stöðuna um endurvinnslu á Íslandi. Aðspurður um fyrstu viðbrögð vegna umfjöllunar Stundarinnar segir Guðmundur að það sé mjög alvarlegt að ekki sé vitað nákvæmlega hvað verður um það plast sem sent er frá Íslandi. 

„Mín viðbrögð eru þau að í fyrsta lagi þá finnst mér alvarlegast að við vitum ekki nákvæmlega hvað verður um úrganginn sem við flytjum úr landi. Það finnst mér alvarlegt og það er eitthvað sem ég hef tekið upp í ráðuneytinu að við þurfum að skoða betur. Ábyrgðin er Úrvinnslusjóðs að koma þessum hlutum til endurvinnslu eða þeirrar meðhöndlunar sem við á. Þess vegna þarf að mínu mati að skoða hvort það sé eitthvað í lagaumhverfinu sem þarf að laga til þess að hægt sé að gera þetta, eða er þetta eitthvað sem að nú í dag, eða nú þegar á að liggja ljóst fyrir. En það er alveg ljóst að það þarf að fara fram einhvers konar könnun á því í hverju og einu tilfelli, hvert hann er að fara.“

Nú sér Umhverfisstofnun um eftirlit með öllum útflutningi á úrgangi. Samkvæmt þeim geta þeir ekki í raun haft eftirlit með honum þar sem þeir fá ekki pappírana til sín fyrr en búið er að flytja úrganginn úr landi. Er það ekki ákveðið vandamál?

„Kannski bæði, hvað er verið að flytja út og ekki síður hvar endar það? Miðað við þá rannsóknarvinnu sem Stundin hefur lagt í varðandi þessar leiðir í Svíþjóð sérstaklega að þar erum við að sjá að ef þetta allt saman er rétt, sem ég er ekkert að efast um, að þá í rauninni er of lítið af plasti að fara til endurvinnslu. Í ljósi þess þarf líka að skoða, eins og maður hefur séð að hafi verið gert í Noregi og Svíþjóð, hvaða áhrif þetta er að hafa á þær tölur og tölfræði sem við höfum verið að vinna með. Það er vinna sem er í gangi núna hjá Umhverfisstofnun, að skoða þetta. Þannig að við viljum bara gera vel. Það er allavega markmið mitt og það sem ég hef lagt ríka áherslu á og hef verið að vinna að undanfarin tvö ár, að endurskoða úrgangslöggjöfina og úrgangsmálin út frá því að við séum að horfa til þess að við séum að innleiða hringrásarhagkerfi sem er rauði þráðurinn í þeirri stefnu sem ég hef lagt á áherslu á.“

Tölfræðin án stoðar

Talandi um tölfræðina. Nú sýnir hún að við séum að endurvinna ansi mikið af plasti. Þetta eru meðal annars tölur sem koma frá Úrvinnslusjóði, þar segir að við séum að endurvinna allt að 56% af plasti. Ég talaði við Umhverfisstofnun og þeir segja að þessar tölur eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Telur þú að almenningur geti treyst því að tölfræðin sé rétt varðandi hvernig okkur gengur þegar kemur að endurvinnslu?

„Traust þeirra er það allra mikilvægasta sem þarf að vera uppi í svona málum og við höfum alveg gömul dæmi um það að fólki fannst traustið brotið, traustið var brotið. Þess vegna segi ég að það er lykilatriði að vita hvert sá úrgangur fer sem fluttur er úr landi. Þannig að mínu viti þurfum við að koma þessum málum á þann stað að við getum svarað þessari spurningu. Ég get ekki svarað henni í dag hvort þetta sé rétt eða rangt. Það er sú vinna sem er í gangi núna. Ég tel hana mjög mikilvæga því þetta er lykilatriði upp á það að halda trausti eða þá að endurheimta það og ávinna sér það áfram. Þess vegna er þetta eitt af þeim málum sem við náttúrlega að sjálfsögðu erum að skoða.“

Í samtali mínu við Ólaf Kjartansson, framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, segir hann að hans eigin tölur stemmi ekki og einhver villa hljóti að vera þarna. Ef Úrvinnslusjóður er að senda frá sér í mörg ár vitlausar tölur til Umhverfisstofnunar, hvað telur þú eiginlega að sé í gangi inni í Úrvinnslusjóði? 

„Eins og ég segi, ég lít bara á þetta alvarlegum augum og þetta virðist vera mat Ólafs að svona sé og auðvitað hef ég óskað eftir fundi með formanni og framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs til að ræða þessi mál og málefni Úrvinnslusjóðs almennt. Ég get svo sem ekki úttalað mig um það núna nákvæmlega hvernig við getum leyst þetta, það þarf bara að leysa þetta mál. Það er þar sem ég hef það að markmiði að við ætlum að ná úrgangsmálunum á þann stað að þau séu okkur Íslendingum til sóma. Ég tel að það þurfi umbyltingu í úrgangsmálum á Íslandi, það er sú umbylting sem ég hef verið að vinna að á síðustu tveimur árum. Sumt af því er maður að koma til framkvæmdar, en annað er núna vonandi að fara fyrir þingið í janúar eða febrúar.“

Meirihluti stjórnar Úrvinnslusjóðs skipuð af atvinnulífinu

Í stjórn Úrvinnslusjóðs sitja sjö fulltrúar, fjórir af þessum fulltrúum koma frá atvinnulífinu en eingöngu þrír frá hinu opinbera. Það þýðir að allar tillögur frá fulltrúum hins opinbera, sem teknar eru innan sjóðsins, þurfa að vera samþykktar af fulltrúum atvinnulífsins. Sem dæmi um ákvarðanir er verðskrá sjóðsins, en sú verðskrá ákvarðar hversu mikið fyrirtæki þurfa að borga í úrvinnslugjald. Lokaákvörðun um verðskrána er tekin af fjármálaráðherra, en aldrei í sögu sjóðsins hefur ráðherra farið gegn ákvörðun stjórn sjóðsins um hversu mikil gjöldin skulu vera. Aðspurður hvort það sé skynsamlegt að atvinnulífið sé með meirihluta stjórnarmanna í sjóðnum segir Guðmundur að það megi alveg gagnrýna þetta fyrirkomulag. 

„Við getum alveg rætt það hvorum megin meirihlutinn á að liggja“

„Þetta er náttúrlega samspil af því hvað er kveðið á í um lögum, það er að segja á hvaða vörur gjald á að fara og svo framvegis. Ég tel að framleiðandaábyrgðin sé gríðarlega mikilvæg. Því ábyrgðin á ekki bara að vera á neytendum. Það tel ég mjög mikilvægt. Þess vegna er það í rauninni sú löggjöf sem við höfum sett okkur sem setur ábyrgðina á innflytjendur og framleiðendur á vörum, ekki bara plasti heldur ýmsu öðru. Ég tel hana mjög mikilvæga. Fyrirkomulagið er þannig að fjórir af sjö fulltrúum eru úr atvinnulífinu, eða frá innflytjendum, og þrír af hendi hins opinbera. Það má alveg gagnrýna það fyrirkomulag, það er alls ekki hafið yfir gagnrýni. En ég tel hins vegar mikilvægt að fulltrúar þessara aðila séu samt sem áður inni í stjórn sjóðsins, vegna þess að ábyrgðin er þeirra á þessum málum. En við getum alveg rætt það hvorum megin meirihlutinn á að liggja og þá líka ef við skoðum þá þætti hvaða árangri Úrvinnslusjóður hefur náð, ef við förum bara í gegnum það. Hann hefur náð árangri á sumum sviðum, kannski minni árangri á öðrum. Þá finnst mér að það þurfi bara að fara yfir það, ef það leiðir til þess að þetta sé ekki talið heppilegt fyrirkomulag þá þarf að ræða það.“

Ætlar að endurskoða sérsamning sjávarútvegsins

Einn af stjórnarmönnum Úrvinnslusjóðs er frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Í stað þess að sjávarútvegurinn borgi úrvinnslugjald af veiðarfærum úr plasti, gerðu samtökin sérsamning við sjóðinn um að samtökin sjálf muni bera ábyrgð á veiðarfærum úr plasti. Sá samningur var gerður árið 2005 og hefur ekkert breyst síðan þar sem SFS getur eingöngu sagt honum upp. Guðmundur segir að hann skilji ekki samninga sem séu óuppsegjanlegir. 

„Ég vil bara taka það skýrt fram að þetta með veiðarfærin er náttúrlega eitthvað sem við erum að skoða núna í endurskoðun á löggjöfinni, alveg klárlega. Það er hreinlega kveðið á um það líka í Evróputilskipun að veiðarfæri sem eru með plasti í, að þau þurfi að falla undir þetta og að það þurfi þá náttúrlega að koma gjald á það. Ég myndi svara þessari spurningu þannig að ég er að sjálfsögðu að skoða þessi mál er varða gjaldtökuna. Að mínu viti þá skil ég ekki samninga sem eru óuppsegjanlegir, eins og er í ykkar ágætu umfjöllun í Stundinni, þetta er bara eitt af þeim atriðum sem ég mun krefja Úrvinnslusjóð svara um. Því að mínu viti þá snýst þetta fyrirkomulag sem við erum með í dag um það að setja gjöld til þess að búa til hvata til þess að endurvinna. Ef að það er ekki tilfellið í einhverjum þáttum, þá er það eitthvað sem þarf að skoða sérstaklega.“

Segja meðlimum að urða veiðarfæri úr plasti

Á heimasíðu SFS eru leiðbeiningar til fyrirtækja í sjávarútvegi hvernig eigi að flokka veiðarfæraúrgang. Þar beinir SFS því til sinna fyrirtækja að urða hluta af veiðarfærum úr plasti. Blaðamaður sýndi umhverfisráðherra þessar leiðbeiningar og spurði hann hvort hann teldi að þarna væri SFS að brjóta samninginn. Sagði ráðherra að hann hafi ekki séð samninginn og ætti því erfitt með að tjá sig um það. 

„Ég hef ekki séð samninginn sjálfur, það er því erfitt að segja það hér einn, tveir og þrír. En ef það er brot á þessum samningi þá er það eitthvað sem þarf að skoða og gengur ekki upp. Því að við hljótum öll, bæði atvinnulífið og stjórnvöld, að ná árangri þegar kemur að þessum málum líkt og öðrum. Ég þekki þetta nú bara ágætlega frá því að maður var að vinna við það að, í sjálfboðavinnu, að tína upp rusl við strandir landsins, sem ég gerði talsvert af og geri nú öðru hvoru. Eitt af því sem hefur verið bætt úr eru merkingar á veiðarfærum, sem er jákvætt. En ég held að næsta skref sé klárlega að þetta komi inn í framleiðendaábyrgðina með þeim hætti að við séum að setja gjöld þar á. Þannið að það er mín skoðun.“

Markmiðum um pappír náð

Telur þú að atvinnulífið sé hæft til að stýra aðgerðum til að ná þeim markmiðum sem við höfum skuldbundið okkur að ná samkvæmt lögum, miðað við umfjöllun okkar hér á Stundinni?

„Ég vil fyrst segja það að Úrvinnslusjóður er að uppfylla markmiðin í sumum af þeim vöruflokkum sem þeir bera ábyrgð á. Þar má nefna pappír og pappa, þar sem við erum reyndar búin að ná markmiðum fyrir 2030, eins og það hefur verið sett, sem er bara mjög jákvætt. Úrsérgengin ökutæki er annað dæmi. Við getum horft síðaná  plastið sem er það sem við erum mest að ræða hér. Þar eru náttúrlega drykkjarvörurnar, við stöndum okkur ágætlega þar. Þær eru undir Endurvinnslunni hf. En við eigum erfitt með að svara spurningunni varðandi plastið. Við höfum verið yfir meðaltalinu eins og gögnin hafa verið að sýna okkur.“

En eins og Umhverfisstofnun segir þá eiga þessar tölur sér enga stoð í raunveruleikanum?

„Þess vegna er ég að segja það, við eigum í vandræðum með að geta svarað þeirri spurningu akkúrat núna. Það er þar sem við þurfum að taka okkur á og það er Úrvinnslusjóður, það er líka umhverfisráðuneytið og líka Umhverfisstofnun. Þær breytingar sem ég er að reyna að vinna að núna varðandi endurbætur á löggjöfinni vil ég meina að muni styrkja þetta. Það þarf að ríkja traust á milli hins opinbera og fulltrúa atvinnulífsins inni í stjórninni. Formaðurinn er skipaður af umhverfisráðherra og það er mjög mikilvægt. Ef við sjáum fram á það að það sé pottur brotinn, þá þarf bara að skoða þau mál. En ég get ekki sagt til um það akkúrat núna. Ég vil fyrst fá tækifæri til að hitta formann stjórnar og framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs og ræða þessi mál við þau.“

Lagaskyldu um hækkun skilagjalds ekki fylgt

Endurvinnslan ehf. er fyrirtæki sem er í meirihlutaeigu fyrirtækja sem nota langmest af plastumbúðum á Íslandi. Meirihlutaeigendur eru meðal annars Coca-Cola European Partners á Íslandi, Ölgerðin, Elkem á Íslandi og Rio Tinto Iceland. Minnihlutaeigendur eru meðal annars íslenska ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Eins og í Úrvinnslusjóði er hið opinbera með minnihluta í stjórn og getur ekki tekið neinar ákvarðanir þegar kemur að öllum drykkjarumbúðum á landinu, án stuðnings einhverra stærstu fyrirtækja landsins. 

Samkvæmt lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur er skilagjald ákvarðað. Það er á ábyrgð umhverfisráðherra að hækka skilagjald á flöskum og dósum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá síðustu hækkun skilagjaldsins. Síðasta hækkun átti sér stað þann 1. janúar 2015. Frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 16,15% og ættu því neytendur í raun að fá 18,5 krónur á hverja dós sem skilað er en ekki 16 krónur. Þegar litið er á krónumuninn þá virðist hann ekki mikill. Hins vegar þegar litið er á þær hundruð milljóna umbúða sem framleiddar eru hér á landi eða fluttar inn til landsins, þá er augljóst að framleiðendur og innflytjendur á drykkjarvörum eru búnir að spara sér mörg hundruð milljóna króna við það eitt að ráðherra sé ekki búinn að hækka skilagjald á umbúðum til neytenda, eins og lög kveða á um. Umhverfisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp þess efnis að hækka skilagjald á umbúðum, um sex árum eftir að síðasta lagabreyting átti sér stað. Guðmundur segist ekki geta útskýrt þennan seinagang innan ráðuneytisins.

„Ég er ekki ánægður með það að við séum í 0% endurvinnslu á gleri þegar við eigum að vera í 60%“

„Þetta er um 18,5 krónur sem viðmiðið er. Ég er búinn að fara í gegnum þetta með mínu fólki hér í umhverfisráðuneytinu og hækkunin verður hærri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem fór í samráðsgáttina. Þar komu meðal annars fram athugasemdir akkúrat við þetta atriði. Þarna komum við líka að glerinu sem þið hafið verið að fjalla um í Stundinni. Þar mun ég leggja til í þessu frumvarpi að við hækkum umsýslugjaldið með þeim hætti að Endurvinnslunni verði gert kleift að taka gler til endurvinnslu. Ég er ekki ánægður með það að við séum í 0% endurvinnslu á gleri þegar við eigum að vera í 60%. Ég hef því lagt áherslu á það að við lögum þetta núna í þeim undirbúningi sem hefur átt sér stað. Bæði breytingar á úrgangslöggjöfinni um úrgang, úrvinnslugjaldið og löggjöfina um drykkjarvörunar. Það er bara þannig að ég mun fara hærra með þetta gjald, þannig að við getum sett inn þá hvata sem þurfa að vera til þess að við stöndum okkur vel í þessu. Þarna er náttúrlega glerið sem æpir á mann. Það hefur verið notað til endurnýtingar, því hefur verið safnað saman í slíkt.“

Meðal annars í rottufælni á ruslahaugum sem umhverfisstofnun Noregs og Svíþjóðar töldu hæpið að gæti flokkast sem endurnýting.

„Maður rifjar upp frá æsku sinni þegar maður var að skila inn glerinu. Maður vissi að það yrði þvegið, hreinsað og notað aftur. Þessu var hætt fyrir um tíu árum eða svo. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þarna erum við ekki að uppfylla þær kröfur sem settar hafa verið fram til okkar. En ég ætla líka að bæta það.“

Þannig að þú ætlar að hækka skilgjaldið á dósum samkvæmt vísitölu neysluverðs?

„Ég á von á því að skilagjaldið fari upp í 18 krónur. Við erum enn þá að skoða þetta aðeins betur. Það er ekki talið æskilegt að maður sé með komma 5. Þannig að við þurfum að finna einhverja leið til þess að vera allavega sem næst því.“

Ég ræddi við framkvæmdastjóra Endurvinnslunnar og hann tjáði mér að það hafi verið komið samkomulag á milli ráðuneytisins og Endurvinnslunnar að hækka bara um 1 krónu, eða í 17 krónur, þrátt fyrir að lögin væru skýr að það ætti allavega að hækka upp í 18 krónur.

„Ég kannast ekki við neitt samkomulag. Þegar lagasmíði er í gangi er samráð við aðila, en það er ekki gert samkomulag, ég get ekki gert samkomulag við aðila eins og Endurvinnsluna um hvernig fyrirkomulagið á að vera. Ég legg fram frumvarp á Alþingi, það er síðan Alþingis að ákveða það endanlega með hvaða hætti það er.“

Í lögunum um skilagjald á flöskum stendur það bara skýrt að það eigi að hækka skilagjaldið samkvæmt vísitölu neysluverðs. Var einhver önnur ástæða fyrir því að í drögunum er sagt 17 krónur?

„Þegar frumvarpið kemur í mínar hendur, áður en það fer í samráðsgáttina, þá sagði ég: Látum þetta fara í samráðsgáttina, en ég vil skoða betur það sem snýr að þessum upphæðum. Þegar það kemur til baka úr samráðsgáttinni, þá tek ég þá ákvörðun að við hækkum þetta, það er það sem skiptir máli vegna þess að ég vil ná árangri í umhverfismálum.“

En þá líka tímasetningin. Nú er árið 2020. Síðasta hækkun var 2015, vísitala neysluverðs hefur hækkað á þessum árum. Það ætti að vera löngu búið að setja þessa hækkun. Samkvæmt mínum útreikningum þá er í raun og veru þeir, sem eru að skila dósum, búnir að tapað mörg hundruð milljónum króna vegna þessa. Hvernig útskýrir þú þennan seinagang innan ráðuneytisins að hafa ekki hækkað gjaldið?

„Við ætluðum að fara fram með þetta í fyrra, en það tafðist.“

„Við ætluðum að fara fram með þetta í fyrra, en það tafðist. Núna er farið fram með þetta, þannig það er í rauninni svarið sem ég hef. Því miður þá bara tafðist það. Ég ætlaði að fara fram með þetta í fyrra en það kemur núna.“

Þrátt fyrir að þetta hafi bara verið ein tala sem þurfti að breyta í lögunum?

„Já, ég bara hef ekki frekari útskýringar á því. En núna er þetta að koma og ég er bara mjög ánægður með það.“

Ekkert gler endurunnið á Íslandi í yfir 30 ár þrátt fyrir loforð

Í yfir 30 ár hefur ekkert gler verið endurunnið á Íslandi, þrátt fyrir að markmið Íslands sé að endurvinna gler. Árið 2012 sagði umhverfisráðuneytið, þá undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur, að frumvarp þess efnis að endurvinnsla á gleri myndi hefjast á Íslandi yrði lagt fram það ár. Það frumvarp var aldrei lagt fram. Blaðamaður spurði því Guðmund hvort almenningur geti treyst orðum hans um að nú, eftir 30 ára bið, muni koma fram frumvarp þess efnis að endurvinnsla á gleri muni hefjast. 

„Ég mun leggja slíkt frumvarp fram á Alþingi, já. Það er að segja frumvarp sem gerir Endurvinnslunni hf. kleift að ráðast í það. Að hún muni hafa nægilega mikið í umsýslugjald til þess að geta ráðist í það. Þannig að þess vegna, ef að frumvarpið verður samþykkt á Alþingi, þá ætti það að ganga eftir.“

Lítill hvati til endurvinnslu

Í verðskrá Úrvinnslusjóðs er lítill sem enginn hvati fyrir að úrgangur sé endurunninn á Íslandi, hvað þá plast. Á Íslandi er eitt fyrirtæki sem endurvinnur plast, það er Pure North Recycling í Hveragerði. Aðspurður hvers vegna Ísland endurvinni lítið sem ekkert af sínum eigin úrgangi segir ráðherra að áhersla hans sé að það eigi að endurvinna eins mikið og hægt sé á Íslandi.

„Þetta er bara svo miklu skynsamlegra að öllu leyti.“

„Mín áhersla er sú að við eigum að endurvinna eins mikið hér heima eins og við getum. Ég hef fullan skilning á því að við getum ekki endurunnið allt hér heima eins og staðan er núna. Það er beinlínis þannig í Evróputilskipun að það er mælst til þess að það sé endurunnið næst þeim stað þar sem úrgangurinn verður til. Ég er að vinna eftir því og þær lagabreytingar sem við erum með í gangi, eða í undirbúningi, að þar erum við akkúrat að skoða þessi atriði. Hvernig hægt er að hafa hvatana í kerfinu þannig að við gerum þetta með þessum hætti. Því þetta er bæði atvinnuskapandi, þetta býr til það sem við getum kallað græn störf. Þetta er bara svo miklu skynsamlegra að öllu leyti. Ég hef líka átt fund með Pure North Recycling í Hveragerði, ég mun óska eftir samtali við Úrvinnslusjóð til að skilja betur þeirra hlið á málinu, en sá fundur hefur ekki enn þá farið fram. Mér skilst að það hafi verið einhverjar hækkanir gerðar núna ekki fyrir svo löngu síðan hjá Úrvinnslusjóði, sem hafi ekki nýst Pure North Recycling. Þetta snýst líka um hversu mikið er borgað fyrir til dæmis heyrúlluplastið, eftir því hvar þú ert á landinu, og svo framvegis. Þetta eru bara atriði sem ég þarf að fá nánari skýringar á hjá Úrvinnslusjóði, því ég er á þeirri skoðun að við eigum að reyna nýta okkur þá hvata í kerfinu til þess að stuðla frekar að endurvinnslu hérna heima.“

Þú segir að Úrvinnslusjóður eigi að skapa hvata, fjárhagslegan hvata, til endurvinnslu. Af hverju, eftir 15 ára sögu Úrvinnslusjóðs, telur þú að þessir hvatar séu ekki til staðar? Að við séum að reyna að endurvinna plast hér á Íslandi?

„Þú verður að spyrja Úrvinnslusjóð að því. Það er sama spurning og ég hef fyrir þau. En við skulum bara spyrja að því hvort við getum ekki lagað það kerfi, því ég tel það mjög mikilvægt. Úrvinnslufyrirtæki á Íslandi hafa alveg verið nokkur í gegnum tíðina, hafa svolítið komið og farið. En bara með tilliti til hringrásarhagkerfisins og innleiðingu þess, þá er þetta bara atriði sem ég legg áherslu á.“

Telur þú að plast, sem er erfitt að endurvinna, eigi heima í hringrásarhagkerfinu, þar sem mikið af því fer í brennslu?

„Hringrásarhagkerfið gengur náttúrlega ekki síst út á það að draga úr notkun. Það er alveg lykilatriði þar. Við eigum stefnu frá 2016 sem var sett í tíð hennar Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra, sem heitir „saman gegn sóun“, sem kveður á um með hvaða hætti eigi að draga úr myndun úrgangs. Það eru áhersluatriði á tveggja ára fresti. Það sem ég hef gert varðandi stefnuna saman gegn sóun, er að taka þessa þætti sem hafa verið til áherslu, það er matarsóun, það er plast og núna er fyrsta árið í textíl. Það dýpkar í rauninni umfjöllunina um það hvernig við tökumst á við þessa þætti þegar kemur að því að draga úr, auka endurvinnslu og svo framvegis. Ég hef sett fram plastaðgerðaráætlun, sem er fjármögnuð. Matarsóunaráætlun sem er á lokastigum, búin að fara í samráð. Hún verður líka fjármögnuð. Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum er líka fjármögnuð. Það sem ég er að reyna að segja er að þær áætlanir sem eru settar í minni tíð að þeim fylgi fjármagn og alvara. Það er náttúrlega stór hluti af hringrásarhagkerfinu að reyna að draga úr myndun úrgangs, alveg lykilatriði. Að því leytinu til fellur plast þar undir, að sjálfsögðu, líkt og önnur vara. Ég hef líka tekið skref í þá átt að draga úr notkun einnota plasts á Íslandi, með því að fá samþykkt lög á þingi. Bæði til þess að banna burðarplastpoka og markaðssetningu á ýmissi einnota vöru. Þetta er eitthvað sem verið er að gera annars staðar í Evrópusambandinu. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að við þurfum að skoða miklu fleiri þætti einnota plasts en þarna er komið. En einhvers staðar verður maður að byrja og þetta eru skref sem tekin hafa verið í þessa átt. Ég tel að það sé betra að plastið sé hluti af hringrásarhagkerfinu heldur en að það verði utan þess, en það er kannski ekki spurningin þín. Við þurfum að draga úr myndun þess og við þurfum að passa upp á það að sem allra mest af plastinu, sem verður að úrgangi, fari þá í réttar leiðir. Sérstaklega endurvinnslu, en svo er náttúrlega plast misgott til endurvinnslu eins og við þekkjum.“

Talandi um að fara rétta leið. Nú hafa íslensk endurvinnslufyrirtæki sent ítrekað plast á fyrirtæki sem heitir Swerec. Það hefur verið undir lögreglurannsókn í þremur ríkjum. Það hefur fundist íslenskt plast í sænskum sveitum og er tengt einu stærsta umhverfisslysi í sögu Lettlands. Framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs vissi af því að þeir hefðu tekið þátt í einu stærsta endurvinnslusvindli í sögu Svíþjóðar, en Úrvinnslusjóður leyfir íslenskum fyrirtækjum samt áfram að senda plast á þá. Hvað finnst þér um að íslensk fyrirtæki séu að senda plast á þetta fyrirtæki?

„Ég mundi viljat að við tækjum ekki þátt í svona löguðu. Ég las í þinni ágætu umfjöllun í Stundinni að það var leið sem bæði Svíar og Norðmenn fóru. Norðmenn fóru meira að segja þá leið að athuga með þá aftur, hvort þetta hafi orðið betra, en voru ekki ánægðir. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem ég mun taka upp, það er alveg á hreinu.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár