Meðferð stjórnvalda og aðgerðarleysi ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur í máli Khedr-fjölskyldunnar egypsku voru dropinn sem fyllti mælinn og varð til þess að Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði sig úr Vinstri grænum. „Þegar við erum farin að vísa úr landi barnafjölskyldu með fjórum börnum, þar af þremur sem hafa gengið í skóla á Íslandi, lært íslensku og myndað tengsl, þá erum við verulega á rangri braut.“
Rósa Björk segir þó að fleiri ástæður hafi leitt til þess að hún tók ákvörðun um að yfirgefa Vinstrihreyfinguna-grænt framboð. Rósa Björk studdi ekki stjórnarmyndun Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2017, líkt og Andrés Ingi Jónsson, sem sagði sig úr flokknum í nóvember á síðasta ári.
Í viðtali við Stundina segir Rósa Björk að málefni flóttafólks og hælisleitenda, ekki bara Khedr-fjölskyldunnar, séu í gíslingu Sjálfstæðisflokksins og meðferð þeirra sé komin langt frá hennar eigin sannfæringu, sem og frá þeim prinsippum sem Vinstri græn hafi haft í heiðri. „Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að taka í handbremsuna, loka, setja í lás og henda lyklunum, að það sé mjög á skjön við það sem við í Vinstri grænum töluðum um í stjórnarandstöðu og það sem við í Vinstri grænum töluðum um og lögðum áherslu á fyrir kosningar.“
„Ég var í raun og veru á móti því að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda“
Þá hafi aðgerðarleysi í loftslags- og umhverfismálum sömuleiðis valdið því að Rósa Björk taldi sig ekki lengur eiga samleið með Vinstri grænum. Hún nefnir einnig fleiri mál, þar á meðal uppbyggingu á varnarsvæðinu í Keflavík, sem ekki sé beinlínis í anda Vinstri grænna. „Sömuleiðis finnst mér að stjórnmálin hafi kannski ekki tekið risastór mál, eins og Samherjamálið, nógu föstum tökum.“
Hvað var það sem fékk þig til að yfirgefa Vinstri Græna?
„Ég hef náttúrulega sagt frá því að þetta mál með Kedhr fjölskylduna hafi verið dropinn sem fyllti mælinn hjá mér persónulega. Málefni flóttamanna og hælisleitenda hafa verið mér mjög hugleikinn og mér hefur ekki þótt, á þessu kjörtímabili, nógu vel verið haldið utan um þau mál. Við munum eftir því að skömmu fyrir Covid var í farvatninu brottvísun á barnafjölskyldu til Grikklands í óboðlegar aðstæður, á sama tíma og ákall um aðstoð í málefnum flóttamanna var að berast frá grískum stjórnvöldum. Það voru gerðar breytingar á reglugerð þá, sem komu í veg fyrir þá brottvísun. En í raun og veru frá því í febrúar síðastliðinn og þangað til núna þá hefur ekkert verið gert í þessum málaflokki. Ekki bara á því tímabili, heldur líka síðastliðin þrjú ár. Þegar við erum farin að vísa úr landi barnafjölskyldu með fjórum börnum, þar af þremur sem hafa gengið í skóla á Íslandi, lært íslensku og myndað tengsl, þá erum við verulega á rangri braut.“
Hvaða önnur mál voru það sem voru einnig að fylla mælinn hjá þér?
„Það hafa verið mál sem sérstaklega tengjast loftslagsmálunum og umhverfismálunum sem ég hef viljað að Vinstri græn hefðu tekið mun fastari tökum og tekið róttækari og djarfari ákvarðanir nú á þessum tímum sem við lifum. Ég hefði viljað sjá róttækari aðgerðaráætlun og meiri fjármuni setta í þennan málaflokk og víðtækari grænar aðgerðir, líka þegar kemur að fjármálunum, fjármálakerfinu og efnahagslífinu. Það er málaflokkur sem ég hef talað fyrir inn á þingi sem ég hefði viljað sjá miklu meira afgerandi og róttækari aðgerðir í, á tímum þegar Vinstri grænir eru í ríkisstjórn. Síðan eru náttúrulega mál sem ég hef verið mjög gagnrýnin á inn á þinginu þegar kemur að uppbyggingu á varnarsvæðinu, sem eru ekki beint í anda Vinstri hreyfingar - Græns framboðs. Sömuleiðis finnst mér að stjórnmálin hafi kannski ekki tekið risastór mál, eins og Samherjamálið, nógu föstum tökum. Þar þurfa stjórnmálin að stíga inn í og gefa svolítið skýr skilaboð um hvernig við eigum að fara inn í svoleiðis mál.“
Þú varst að sjálfsögðu ekki sátt þegar stjórnarsamstarfið var kynnt til að byrja með?
„Nei, við vorum tveir þingmenn sem að kusum gegn því stjórnarsamstarfi. Mín afstaða þá var einmitt sú að ég var í raun og veru á móti því að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda og ég líka óttaðist það mjög að með þessu ríkisstjórnarsamstarfi þá myndu Vinstri Græn þurfa að kyngja ansi erfiðum málum. Auðvitað var erfitt að mynda annarskonar stjórnarsamstarf á þeim tíma, það var samt möguleiki þótt það hefði verið erfitt, það var naumur meirihluti. Það hefði verið framúrstefnulegri pólitík sem ég hefði þá stutt af heilum hug.
„Ég tel að hlutverk VG hefði átt að vera að sækja fram og krefjast þess að róttækari hlutir myndu gerast“
Síðan hefur það komið í ljós að á þessu kjörtímabili að Vinstri græn hafa kannski ekki alveg náð fram eins mörgu og maður hefði vonast eftir. En ég lýsti líka yfir því á þeim tíma að þrátt fyrir að ég hafi greitt atkvæði gegn ríkisstjórnarsamstarfinu, þá virti ég lýðræðislega niðurstöðu flokksráðsins og studdi ráðherra Vinstri Grænna, en svo er bara komið að því að einhvers staðar er komið nóg. “
Hvernig telur þú að stemningin sé innan grasrótar Vinstri Grænna?
„Það er kannski vert að rifja það upp að þetta ríkisstjórnarsamstarf var félögum og kjósendum VG ekkert auðvelt að sætta sig við á sínum tíma. Það voru 200 manns sem sögðu sig úr VG og það hefur verið sagt frá því. Tuttugu prósent flokksráðsins samþykktu ekki þetta ríkisstjórnarsamstarf og tuttugu prósent af þingflokknum samþykktu ekki þetta ríkisstjórnarsamstarf. Þannig þetta var alls ekki auðvelt ákvörðun fyrir bæði kjörna fulltrúa í VG, trúnaðarfólk, kjósendur og félaga. En það má líka segja að þarna hafi kjósendagrunnur VG og breyst. En síðan líka í velferðarmálunum og umhverfismálunum hefur verið kallað eftir, að hálfu baklandsins í VG, skýrari aðgerðum. Þegar flokkar fara í ríkisstjórnarsamstarf þá á ekki, að mínu viti, að verja eitthvað heldur að sækja fram. Það eru margir sem hafa litið á veru VG í þessari ríkisstjórn sem einhverskonar varnarhlutverk, að verjast því að einhverjir verri hlutir gerist, á meðan að ég tel að hlutverk VG hefði átt að vera að sækja fram og krefjast þess að róttækari hlutir myndu gerast.“
Telurðu að eitthvað af helstu áhersluatriðum Vinstri Grænna hafi í raun og veru náð í gegn eins og Vinstri Grænir lögðu upp með í kosningabaráttunni sinni?
„Ég held að ráðherrar í Vinstri hreyfingar græns framboðs hafi í ríkisstjórninni viljað vel, meint vel og reynt að koma ákveðnum hlutum í gegn. Það hafa til dæmis tekist ákveðnir hlutir í forsætisráðuneytinu sem eru þokkalega róttækir þegar kemur að kynrænu sjálfræði. Sömuleiðis frumvarp um þungunarrofið, ég held að þessi tvö mál séu eitthvað sem Katrín og Svandís geta verið mjög ánægðar með.
„Það voru 200 manns sem sögðu sig úr VG“
Aðgerðaráætlun í loftlagsmálum kom fram, þó að ég og nokkrir aðrir hefðu auðvitað vilja sjá miklu afdráttarlausari og róttækari aðgerðir þar kynntar. Það eru ýmis atriði sem er hægt að sætta sig við, en eins og ég segi það er kannski munurinn á mér og einhverjum öðrum að ég hefði kannski viljað sjá meiri sókn og meiri djörfung, hug og þor. Vegna þess að það þarf líka pólitískt þor til að taka ákveðna slagi.“
Eru Vinstri græn aðeins að missa prinsippið fyrir hvað þau í raun og veru standa fyrir?
„Ég tel til dæmis að í málefnum flóttafólks og hælisleitenda að þá hafi þessir atburðir undanfarna daga, þar sem það er algjörlega ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að taka í handbremsuna, loka, setja í lás og henda lyklunum, að það sé mjög á skjön við það sem við í Vinstri grænum töluðum um í stjórnarandstöðu og það sem við í Vinstri grænum töluðum um og lögðum áherslu á fyrir kosningar. Það er meiri segja í andstöðu við það sem þó er kveðið á um í stjórnarsáttmálanum þegar kemur að móttöku flóttamanna. Þarna erum komin á mikið hála braut myndi ég segja og langt frá prinsippum.“
Eru prinsippin svolítið að hverfa úr stjórnmálum?
„Sumir segja það að prinsippin séu að hverfa og þetta snúist allt um hrossakaup og snúist allt um samninga. Það á náttúrulega að mínu viti ekki að vera þannig, það er ástæða fyrir því af hverju maður er kosinn inn á þing eða inn í borgarstjórn eða sveitarstjórnir, það er vegna þess að maður stendur fyrir eitthvað og trúir á eitthvað og af því maður hefur einhverja réttlætiskennd eða hefur trú á einhverjum ákveðnum lausnum samfélaginu til heilla. Þannig að ég held að við þurfum svolítið að passa upp á það að við séum ekki bara orðin einhver flatneskja sem eru að vinna fyrir einhver hagsmunasamtök eða kjördæmapoti eða hvað það er, heldur að við sem erum að taka þátt í stjórnmálum séum þarna út af ástæðu. Ekki út af hagsmunum einhverra, heldur vegna þess að við höfum ákveðnar skoðanir og stöndum fyrir ákveðnar skoðanir. Almenningur og kjósendur sem kýs okkur, það er væntanlega ástæða fyrir því af hverju viðkomandi kýs okkur vegna þess að það trúir því að viðkomandi manneskja standi fyrir þessi sjónarmið.“
Finnst þér það vanta í íslensk stjórnmál?
„Já mér finnst það stundum vanta og ég held að það mættu alveg fleiri íhuga oftar: “Af hverju er ég í pólitík, af hverju er ég í stjórnmálum?” Er það vegna þess að það eru einhverjir hagsmunir sem ég ætla að vinna fyrir? Eða er það vegna þess að ég trúi á eitthvað eða hef hugsjónir?“
Ef þú hefðir verið formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, hver hefði verið þín áhersla í þessu stjórnarsamstarfi?
„Ég held að það hefði verið gott að krefjast meir þegar kemur að umhverfis- og loflagsmálunum. Sömuleiðis þegar kemur að þessum mannréttindamálum þá held ég að það sé eitthvað sem að hefði þurft að vera svolítið skýr ástæða fyrir svona umdeildu stjórnarsamstarfi. Þannig að ég held að það hefði alveg verið svigrúm fyrir Vinstri Græna að reisa flaggið svolítið hátt og krefjast svolítið mikið af hlutum. “
Hvernig sérðu fyrir þér þetta ár sem eftir er að þinni þingmennsku? Hvað munt þú leggja áherslu á?
„Þetta er allt saman svolítið öðruvísi en maður hugsaði sér í byrjun, en ég mun alveg halda áfram að tala fyrir þeim málum sem að ég hef gert hingað til og mun reyna vinna að heilindum inn á þingi fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef talað fyrir kosningar og í stjórnaraðstöðu og svo framvegis, þá mun ég halda áfram að gera það.
„Í mínu tilfelli er þetta mjög persónuleg ákvörðun“
Ég mun alveg halda áfram að vinna að góðum málum sem tengjast loflagsmálunum og mannréttindamálunum. Ég er varaformaður flóttamannanefndar Evrópuþingsins og er búin að vera í þeirri nefnd í þrjú ár. Ég er einnig formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, það er ein mikilvægasta stofnunin þegar kemur að mannréttindum, lýðræði og lögum. Þetta er mér hugleikið allt saman og ég held - ég bara held ekki, ég er bara sannfærð um að ég muni enn starfa að þeim málum.“
Telur þú að þú hafir minni völd eða meiri völd nú þegar þú ert komin út úr Vinstri Grænum?
„Lýðræðislega kerfið okkar er byggt þannig upp að það eru flokkarnir sem hafa völdin inn á þingi, þannig það gefur augaleið að það er ekki alveg sama staða þegar maður er utan þingflokka. En maður getur samt sem áður látið rödd sína heyrast og barist fyrir og stutt góð mál. Það má alveg halda því til haga að ég studdi öll góð mál sem komið hafa frá þessari ríkisstjórn og líka öðrum, og mun gera það og óska að sjálfsögðu mínum fyrrum félögum í VG alls hins besta.“
Er auðveldara að vera þingmaður án þingflokks?
„Það er ákveðið frelsi sem fylgir því, en að sama skapi er þetta ekki léttvæg ákvörðun. Þetta er erfið ákvörðun. Erfitt að skilja við félaga og fara úr stjórnmálahreyfingu sem maður er búin að gegna trúnaðarstörfum fyrir í mörg ár. Það er ekki léttvægt og það er ekki eitthvað eins og að hrista ryk af öxlinni.“
Þegar þú ert að taka þessa ákvörðun, hvernig er þankagangurinn hjá þér?
„Ég held að svona ákvarðanir séu alltaf mjög persónulegar. Í mínu tilfelli er þetta mjög persónuleg ákvörðun. Ég var ekkert að taka hana út af einhverjum öðrum, maður finnur það bara hjá sjálfum sér.“
Er erfitt að kveðja alla?
„Að sjálfsögðu er það erfitt, maður hefur eignast vini og félaga í gegnum tíðina. Ég var oddviti VG í í suðvesturkjördæmi, sem er fjölmennasta kjördæmið og ég tek þá stöðu mjög alvarlega. Ég vildi líka sýna ábyrgð gagnvart mínum kjósendum og félögum þar. En síðan kemur bara að því að maður hlusti á sína innri rödd.“
Hefurðu verið að fá stuðning frá þínum kjósendum vegna þessarar ákvörðunar þinna?
„Mjög mikinn, mjög mikinn stuðning og sá stuðningur er kannski ekki síður fólgin í því að bæði er það stuðningur vegna ástæðurnar sem ég gaf upp, sem er börn á flótta og brottvísun á barnafjölskyldum og börnum, sem er greinilegt að er mjög erfitt fyrir fólk og almenning. En svo fannst fólki það líka gott ef fólk stendur við sannfæringuna sína, það var ágætt að finna fyrir því.“
Myndir þú lýsa sjálfri þér sem prinsipp manneskju?
„Já, en á maður ekki alltaf að láta annað fólk lýsa sjálfum sér? En eigum við ekki að segja það bara.“
Athugasemdir