Faraldurinn vegna kórónaveirunnar SARS-CoV-2 og COVID-19 sjúkdómsins sem hún getur valdið hefur verið fordæmalaust áfall fyrir heimshagkerfið á friðartímum. Það er helst að heimsstyrjaldirnar tvær eða kreppan á fjórða áratug síðustu aldar hafi valdið ámóta röskun á efnahagslífi heimsins en þó með allt öðrum hætti. Sérstaklega hafa ýmsar aðgerðir sem beitt hefur verið til að reyna að hefta útbreiðslu faraldursins raskað gangi efnahagslífsins. Heilu atvinnugreinunum hefur nánast verið lokað og viðskipti með margs konar vörur og þjónustu verið gerð illmöguleg eða jafnvel bönnuð. Bæði framboðs- og eftirspurnarhliðar hagkerfisins hafa því orðið fyrir þungu höggi og framleiðsla dregist mjög skarpt saman.
Í reynd er það ekki faraldurinn sem er fordæmalaus, heldur miklu frekar viðbrögðin við honum. Mannkynssagan á fjölmörg dæmi um veirufaraldra sem hafa verið jafnhættulegir og þessi og hafa valdið miklu meira manntjóni en aldrei áður hefur verið brugðist við með sambærilegum hætti á heimsvísu. Sérstaklega má nefna víðtækar lokanir fyrirtækja og svæða, samkomubönn, jafnvel útgöngubönn, einangrun og sóttkví.
Áður hefur þó verið gripið til lokunar svæða til að reyna að hemja útbreiðslu faraldra. Má sem dæmi nefna að þannig var komið í veg fyrir að hin svokallaða spænska veiki 1918 næði til Norðurlands og Austurlands, sem án efa bjargaði fjölda mannslífa. Hún lék hins vegar aðra hluta landsins grátt með miklu mannfalli. Þær lokanir sem nú er beitt eru hins vegar miklu víðtækari en áður eru dæmi um þótt þær séu mjög mismunandi milli landa eða svæða.
Framboð og eftirspurn
Hagræn áhrif þessa eru veruleg. Nákvæmar tölur um hve djúpur samdráttur efnahagsstarfsemi er þegar orðinn liggja ekki fyrir en ljóst er að hann er mjög mikill í fjölda landa. Frá sjónarhóli hagfræðinnar er bæði um verulega minnkun framboðs á ýmiss konar vörum og þjónustu að ræða vegna vandræða framleiðenda, verksmiðjur eru lokaðar eða aðfangakeðjur rofnar. Jafnframt hefur eftirspurn eftir fjölda gæða snarminnkað þannig að viðskipti eru lítil þótt framboð sé nægt og sölustaðir opnir. Til að bæta gráu ofan á svart er ekki hægt að eiga í viðskiptum með ýmsar vörur eða þjónustu vegna þess að markaðir með þær eru lokaðir, viðskiptavinir komast ekki á sölustaði eða seljendur koma ekki vörum eða þjónustu á sölustaði. Lokanir á verslunum hafa augljósa keðjuverkan, birgjar verslananna sjá sölu hrynja og draga úr framleiðslu, það kemur niður á birgjum þeirra o.s.frv. Sem dæmi um hve harkaleg áhrifin eru má nefna að í Bretlandi dróst sala á nýjum fólksbílum í apríl 2020 saman um 97% miðað við sama mánuð árið áður enda bílasölur lokaðar. Sölutölurnar á meginlandinu voru litlu skárri, jafnvel sjónarmun verri á Ítalíu.
Þótt sums staðar hafi nú verið tekin skref til að draga úr hömlum á viðskiptum eða samgöngum af hinu opinbera þá halda margir neytendur að sér höndum áfram og viðskipti með annað en helstu nauðsynjar líða fyrir vikið. Þetta á sér væntanlega bæði þá skýringu að fólk óttast sýkingu og situr því heima sé þess kostur og að fólk hefur annað hvort misst tekjur eða óttast að gera það.
Á Íslandi vegur þyngst að erlendir ferðamenn komast ekki til landsins. Það leiðir vitaskuld til þess að ekki er hægt að selja þeim þjónustu eða vörur eins og mat, eldsneyti og minjagripi. Það hefur síðan ýmsar afleiðingar fyrir birgja ferðaþjónustunnar og jafnvel greinar eins og byggingariðnað vegna samdráttar framkvæmda, t.d. við hótelbyggingar. Fjölmargar smærri atvinnugreinar hafa einnig orðið fyrir búsifjum. Má þar nefna ýmsar greinar sem falla undir persónulega þjónustu sem var lokað um skeið vegna hættu á smiti á sölustöðum. Samdráttur í ýmiss konar verslun hefur orðið vegna þess að neytendur halda að sér höndum. Nokkrar greinar halda þó vel sjó eða merkja jafnvel aukningu í veltu, sérstaklega þær sem selja nauðþurftir eins og matvæli og aðra dagvöru auk lyfja. Góður gangur í sumum kemur raunar nokkuð á óvart, t.d. metsala á reiðhjólum og bökunarvörum.
Misskipt áfall
Hve mikill samdrátturinn vegna faraldursins verður í einstaka löndum fer m.a. eftir samsetningu efnahagslífsins í hverju landi. Í löndum þar sem atvinnugreinar vega þungt sem verða fyrir þungu höggi ætti heildarhöggið og þar með samdráttur efnahagslífsins að öðru jöfnu að verða meira en annars staðar. Samdráttur þjónustu við erlenda ferðamenn vegur þannig þungt á Íslandi og kemur auk þess misilla við einstaka landshluta eftir vægi greinarinnar á hverjum stað. Það þýðir jafnframt að faraldurinn leikur fjárhag sveitarfélaga misharkalega.
Eitt af því sem reynt hefur verið til að draga úr tjóni vegna lokunar vinnustaða er að beina starfsmönnum í fjarvinnu. Talsvert misjafnt er milli landa hve stórt hlutfall starfa er hægt að vinna heima enda munur milli atvinnugreina og eðlis starfa. Almennt er auðveldara að koma því t.d. við í skrifstofustörfum en við ýmiss konar framleiðslustörf eða verslun. Fá láglaunastörf eru þess eðlis að þau henta vel í fjarvinnu, t.d. ekki störf í verksmiðjum eða byggingariðnaði, ýmiss konar afgreiðslustörf í verslunum eða veitingahúsum eða þrif. Það sama gildir um nánast öll störf iðnaðarmanna.
Þetta getur leitt til þess að atvinnumissir eða a.m.k. tekjutap verður meira hjá láglaunahópum en hálaunahópum. Þeir tekjuhærri eru líklegri til að geta sinnt sínum störfum í fjarvinnu. Þá býr láglaunafólk almennt þrengra en þeir sem hafa hærri tekjur sem getur bæði aukið líkur á smiti og gert erfiðara að einangra þá sem eru smitaðir eða grunaðir um smit frá sambýlisfólki og nágrönnum.
Á Íslandi verður m.a. mjög athyglisvert hver þróun verður í lykilstærðum eins og atvinnuleysi meðal annars vegar innfæddra og hins vegar innflytjenda. Þótt skýrar tölur liggi ekki fyrir eru nokkrar vísbendingar um að innflytjendur verði hlutfallslega margir meðal atvinnulausra nú. Það á sér ýmsar skýringar, m.a. hve stórt hlutverk þeir hafa leikið í ferðaþjónustu en einnig kemur samdráttur í verklegum framkvæmdum væntanlega sérstaklega illa niður á þeim hópi.
Ljós við gangamunnann
Eins og aðrir faraldrar mun þessi ganga yfir. Þar með verður hægt að vinda ofan af öllum þeim takmörkunum á efnahagsstarfsemi sem beitt hefur verið. Þá liggur jafnframt fyrir að faraldurinn hefur ekki valdið neinu umtalsverðu tjóni á fjármunum eða náttúruauðlindum og að mannfall er ekki slíkt að það valdi verulegum breytingum á framboði vinnuafls. Ýmiss konar tækni sem nýtt er við framleiðslu hefur heldur ekki farið aftur. Við fyrstu sýn kann því að virðast sem allir helstu framleiðsluþættir ættu að koma að mestu óskaddaðir undan faraldrinum og að það gefi von um að hagkerfi geti fljótlega náð sambærilegri framleiðslu á gæðum og fyrir faraldur.
Það er þó engan veginn víst að það verði niðurstaðan. Skýringin liggur í framleiðsluþáttum sem eru afar mikilvægir en snúið að mæla. Þá vantar gjarnan í forsendur hagfræðilegra útreikninga. Þetta á t.d. við um fyrirtæki og samninga, flest það sem stendur í efnahagsreikningum annað en fjármuni og fjölmarga lítt áþreifanlega þætti eins og traust og væntingar. Helsta hættan á langvarandi samdrætti hagkerfisins vegna faraldursins er einmitt að slíkir þættir skaddist og taka muni langan tíma að greiða úr þeirri flækju. Fyrir vikið gæti samdráttur efnahagslífsins orðið langvarandi.
Grunnvandinn eftir faraldur gæti því verið að þótt framleiðslutækni, starfsfólk og fjármunir séu til staðar þá verður umgjörðin sem fær þetta þrennt til að vinna saman og búa til verðmæti mjög löskuð. Fyrirtæki vart starfhæf, aðfangakeðjur rofnar, dreifileiðir í molum. Fólk sem kann til verka situr heima aðgerðalaust. Úr öllu þessu er hægt að leysa en það gerist ekki á einni nóttu. Samningagerð er tímafrek og leit að réttu birgjunum, starfsmönnum o.fl. tekur líka tíma. Það sama má segja um markaðssetningu ef hana þarf að vinna frá grunni.
Við höfum ekki mjög góð fordæmi til að áætla þann tíma. Þó má e.t.v. horfa til samdráttarskeiðsins sem hófst 2008. Sum einkenni þess voru svipuð og vænta má nú, m.a. þurftu mörg fyrirtæki að fara í gegnum einhvers konar fjárhagslega endurskipulagningu og sum enduðu með nýja eigendur og stjórnendur. Þá varð atvinnuleysi einnig töluvert þannig að bæði þurftu starfsmenn að leita sér að nýrri vinnu og fyrirtæki að nýjum starfsmönnum. Þá byrjaði hagkerfið að vaxa aftur eftir um tvö ár, þ.e. undir lok árs 2010. Það tók síðan fjögur ár til viðbótar að ná aftur sömu vergu landsframleiðslu og hún varð hæst fyrir fjármálakrísuna. Það gerðist undir lok ársins 2014. Það var þó ekki fyrr en 2016 sem verg landsframleiðsla á mann varð hærri en hún hafði orðið hæst fyrir krísu.
Í fjármálakrísunni varð samdrátturinn mestur í öðrum geirum en nú, sérstaklega drógust þá verklegar framkvæmdir saman en einnig féll velta mikið í ýmsum innflutningi, t.d. á bílum. Nú verður væntanlega líka samdráttur í þessum geirum en mestur verður hann þó fyrirsjáanlega í ferðaþjónustu. Það er athyglisvert að þótt mikið rót hafi orðið í bæði verktakageiranum og hjá bílaumboðum í fjármálakrísunni, fyrirtæki t.d. farið á hausinn, fengið nýja eigendur, samið um skuldir, sameinast o.s.frv. þá var hvorugur geirinn í nokkrum vandræðum með að mæta aukinni eftirspurn þegar hún tók að glæðast. Jafnvel þótt vinnuvélar hafi verið seldar úr landi og hluti erlends starfsfólks í verktakageira farið líka þá var hægt að auka verklegar framkvæmdir mjög hratt þegar versta krísan var afstaðin.
Sem dæmi má nefna að árið 2011 var einungis lokið við 565 íbúðir á landinu skv. tölum Hagstofunnar en þá hófst ör vöxtur þannig að árið 2018 var lokið við 2.303 íbúðir, ferfalt fleiri en þegar minnst var. Geirinn var þá farinn að afkasta álíka miklu, raunar ívið meiru, en hann hafði gert fyrir bóluárin 2005–2008. Geta hagkerfisins til að búa til fjármuni hafði því greinilega lifað af hinn snarpa samdrátt eftir 2008.
Svipað má segja um bílainnflutning. Árið 2010 voru nýskráningar fólksbíla einungis 3.353 en fjórum árum síðar hafði fjöldinn ferfaldast og náði að áttfaldast á sjö árum, áður en aftur tók að hægjast um eftir 2017. Geirinn lifði því augljóslega af þótt einstök fyrirtæki hafi ekki gert það eða a.m.k. þurft fjárhagslega endurskipulagningu og jafnvel nýja eigendur eða stjórnendur.
Þótt þetta geti gefið einhverjar vísbendingu um hve lengi hagkerfið er að jafna sig eftir þungt högg sem kallar á verulega uppstökkun fyrirtækjageirans þá er þó margt ansi frábrugðið nú. Miðað við reynsluna frá fjármálakrísunni ættu þó margar atvinnugreinar að jafna sig hratt og geta náð fyrri afköstum, t.d. verklegar framkvæmdir og innflutningsverslun.
Koma ferðamenn?
Framtíðarvandi ferðaþjónustunnar er fyrst og fremst eftirspurnarmegin. Gera verður ráð fyrir að hægt verði að auka framboð á ferðaþjónustu mjög hratt að faraldri loknum en engan veginn er sjálfgefið að eftirspurnin verði fljótlega orðin svipuð og áður. Að sönnu er líklegt að einhver, jafnvel mörg, fyrirtæki heltist úr lestinni, en þá standa eftir hótelbyggingar, floti af bílaleigubílum og hópferðabílum, veitingahús með öllum útbúnaði og leyfum o.s.frv. Vitaskuld eru svo líka almennir innviðir enn til staðar, vegir, flugstöðvar, hafnir o.s.frv. Það ætti að vera hægt að koma þeim fjármunum aftur í notkun og ráða aftur starfsfólk sem kann til verka – ef eftirspurn er næg.
Hér vantar aftur góð fordæmi en einhver eru þó til. Ferðaþjónusta í heiminum öllum hefur aldrei dregist saman með sambærilegum hætti og nú, a.m.k. ekki á friðartímum. Ferðaþjónusta með þeim umsvifum sem nú þekkjast er raunar tiltölulega nýlegt fyrirbrigði í mannkynssögunni. Hún varð smám saman til á síðari hluta síðustu aldar. Vöxtur ferðaþjónustu hefur ekki einungis verið mikill á Íslandi, það er alþjóðleg þróun. Árið 2018 voru flugfarþegar t.d. meira en tífalt fleiri en 1973. Meðalfjölgun á ári í heiminum öllum það tímabil var 5,4%. Þótt fjöldi flugfarþega sé ekki einhlítur mælikvarði á umsvif í ferðaþjónustu er þetta ágætur mælikvarði til að horfa á fyrir Ísland því að hingað koma menn ekki landleiðina og mun fleiri með flugi en skipum.
Vöxtur ferðaþjónustu á heimsvísu hefur jafnframt verið furðustöðugur og nánast engin veruleg samdráttartímabil til þessa – fyrr en í ár. Mesti samdrátturinn var árin 2000 til 2002 og þó ekki nema tæp 3%. Þá glímdi heimurinn einnig við veirur en fleira skipti máli, m.a. hryðjuverkaárásir og netbóla sem sprakk.
Í grundvallaratriðum virðist engin sérstök ástæða til annars en að vöxtur ferðaþjónustu í heiminum muni fyrr eða síðar ná fyrri hæðum og líklega vaxa svo enn frekar. Langtímaleitnin er skýr og engin augljós ástæða til þess að tímabundið áfall breyti henni verulega.
Það er þó ekki þar með sagt að fjöldi ferðamanna til Íslands hljóti að fara vaxandi og ná fljótt aftur fyrri hæðum. Þar skiptir m.a. máli að vöxturinn á Íslandi var óvenjumikill árin fyrir faraldur. Ef við horfum allt aftur til 1973 sker vöxturinn á Íslandi sig ekki úr, var að jafnaði 5,9% á ári. Sé rýnt nánar í gögnin sést hins vegar að vöxturinn á Íslandi var hægur (2,3% á ári) frá 1973 til 2009 og undir heimsmeðaltali (4,9%). Frá 2009 til 2018 var vöxturinn hins vegar ótrúlegur hér (21,4% á ári) og langt yfir heimsmeðaltali (7,3%).
Veislan búin fyrir faraldur?
Stóra spurningin – og hún snýst um mörg hundruð milljarða króna tekjur á ári – er hvort það hafi verið einhvers konar bóla eða tískusveifla sem komi ekki aftur eða grunnur til að byggja á þegar flugsamgöngur komast aftur í eðlilegt horf. Það veit enginn á þessu stigi og sjálfsagt ómögulegt að vita það með vissu fyrr en eftir á. Við vitum þó nú að hægt hafði mjög á vextinum og jafnvel farið að gæta einhvers samdráttar í fjölda ferðamanna nokkru fyrir faraldur. Ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fækkaði þannig úr 2,3 milljónum í 2,0 milljónir milli áranna 2018 og 2019. Það þýddi líka að í janúar á þessu ári, áður en áhrifa faraldursins tók að gæta að einhverju marki á Íslandi, hafði „fjölda launþega í einkennandi greinum ferðaþjónustu“ að mati Hagstofunnar þegar fækkað um 10% frá sama tíma árið áður. Velta skv. virðisaukaskattsskýrslum í sömu atvinnugreinum hafði sömuleiðis í árslok 2019 dregist saman um 10% að nafnvirði í krónum frá því sem hún hafði verið mest áður. Hér skipti vitaskuld ýmislegt máli, m.a. fall flugfélagsins WOW. Það eykur e.t.v. ekki bjartsýni fyrir því að hægt verði að auka hratt fjölda ferðamanna upp í fyrri hæðir eftir faraldur. Það er svo allt annað mál hvort það væri æskilegt, ör vöxtur ferðaþjónustu hafði bæði kosti og galla. Meðal gallanna vógu umhverfisáhrif þungt en fleira mætti nefna.
Velta í ferðaþjónustu var skv. mati Hagstofunnar 616 milljarðar króna í fyrra. Framlag til vergrar landsframleiðslu var þó talsvert lægra, enda byggir það á virðisauka en ekki veltu. Þær greinar sem helst gætu talist til ferðaþjónustu skiluðu þó 9,3% af landsframleiðslu í fyrra og 10,0% árið 2018. Hagstofan birtir líka tölur um útflutning á þjónustu sem varpa ljósi á mikilvægi ferðaþjónustu. Í fyrra nam útflutningur á ferðaþjónustu 470 milljörðum króna. Innflutningur á ferðaþjónustu nam 215 milljörðum króna sama ár. Algjör lokun landamæra ætti skv. því að minnka hreinan útflutning á ferðaþjónustu um 255 milljarða króna á ári.
Hagstofan hefur líka birt áætlun fyrir „einkaneysluútgjöld“ erlendra ferðamanna á Íslandi árið 2019. Voru þau áætluð 284 milljarðar króna. Eins og vænta má vega hótel og veitingastaðir þyngst (38,4% eða 109 milljarðar). Einkaneysluútgjöld erlendra ferðamanna voru 21,4% af heildar einkaneyslu á Íslandi. Skv. sömu flokkun námu einkaneysluútgjöld Íslendinga erlendis 181 milljarði króna. Ef hluti þeirrar neyslu flyst „heim“ vegur það upp á móti færri ferðamönnum hérlendis og heildar einkaneysla á Íslandi eðli máls minnkar minna en ella fyrir vikið.
Þegar reynt er að spá fyrir árið 2020 er líka rétt að hafa í huga að árið byrjaði nokkuð eðlilega og því skiluðu ferðamenn sér til Íslands fyrstu mánuði ársins. Samdrátturinn varð ekki harkalegur fyrr en í mars og þó sérstaklega apríl. Þá er rétt að hafa í huga að ætlunin er að opna landið að einhverju marki fyrir erlendum ferðamönnum frá og með 15. júní. Ógjörningur er að meta nú hvernig það mun ganga en samdrátturinn verður a.m.k. eitthvað minni eftir opnun en í apríl þegar hann var nánast 100%.
Rétt er líka að hafa í huga að ferðaþjónustan notar heilmikið af innfluttum vörum, t.d. flugvélar og bíla og eldsneyti, innflutt matvæli o.fl. og eitthvað af erlendri þjónustu. Þeir sem sitja heima vegna lokunar landamæra neyta raunar á móti einhvers af innfluttum vörum á meðan, í stað neyslu á ferðalögum erlendis. Það vegur þó vart mjög þungt. Höggið fyrir viðskiptajöfnuð er því talsvert minna en ella en vitaskuld töluvert.
Mat og spár fyrir samdrátt hagkerfisins vegna faraldursins byggja m.a. á greiningu á þessum tölum. Til viðbótar þarf svo að spá fyrir um samdrátt í öðrum geirum hagkerfisins. Tölur um veltu eftir geirum eða atvinnuleysi liggja ekki fyrir nú en þó liggur fyrir að nokkrum atvinnugreinum var beinlínis lokað um skeið. Lokunin stóð þó ekki í mjög langan tíma og þar eð óvenjumikið var að gera fyrst eftir að opnað var að nýju hefur væntanlega náðst að vinna samdráttinn vegna lokunar að einhverjum hluta upp aftur. Ekki er þó hægt að fullyrða hve mikið fyrr en uppgjör fyrir lengra tímabil liggur fyrir. Þá varð menningargeirinn mjög illa fyrir barðinu á því að nánast allar sýningar féllu niður um hríð og alls konar skemmtanir féllu niður. Þar hafa verulegar tekjur tapast. Sama má segja um íþróttageirann. Kappleikir og æfingar féllu niður og með því tekjur og útlit fyrir að löng bið geti orðið eftir því að hægt verði að fylla stúkur aftur. Aðrir geirar urðu fyrir tjóni þótt engin kvöð væri um lokun, t.d. margir geirar verslunar sem höfðu opið en nær engir komu að versla. Hér gildir sem fyrr að illmögulegt er að meta samdráttinn fyrr en eftir á.
Annars konar tjón
Enn erfiðara kann að vera að meta tjón þar sem fyrirtæki eða stofnanir héldu úti fullri starfsemi en afköst voru minni en ella vegna ráðstafana sem grípa þurfti til vegna veiruvarna. Hér má sérstaklega horfa á skólakerfið. Það starfaði en nemendur voru heima eða með skerta skólasókn og áttu að stunda fjarnám. Það er illmögulegt að meta hvernig tókst til nú, hve mikið nemendur lærðu og t.d. hvort brottfall jókst. Það þarf að kanna síðar ef vel á að vera. Tjónið kemur þá ekki fram í lækkaðri landsframleiðslu nú, eins og hún er mæld, heldur í minni mannauði síðar og jafnvel félagslegum vandamálum og öðru, sem rúmast illa innan flestra hagmælinga og -líkana.
Þótt ekki liggi fyrir nú hve mikið tjón verður vegna faraldursins og viðbragða við honum er bæði ljóst að það verður mikið og að það mun skiptast mjög ójafnt. Hluti þjóðarinnar, nær örugglega mikill meiri hluti, mun ekki missa vinnuna og ekki lækka mikið, ef nokkuð í tekjum. Það á þannig við um þá sem vinna í atvinnugreinum í einkageira sem verða ekki fyrir miklum áhrifum, eða a.m.k. ekki það miklum að þeir þurfi að segja upp starfsfólki. Þetta á bæði við um stórar útflutningsgreinar, þ.á m. sjávarútveg og orkufrekan iðnað, og margar greinar sem einkum selja innanlands, t.d. matvöruverslun og landbúnað. Það á jafnframt við um starfsmenn hins opinbera. Launþegar í þessum geirum lækka a.m.k. vart í launum í krónum talið en gætu orðið fyrir einhverri kaupmáttarskerðingu vegna veikingar krónunnar (það á þó ekki við þá sem eru í raun með laun í erlendri mynt, sérstaklega sjómenn á fiskiskipum).
Aðrir hópar verða fyrir talsverðum skelli, m.a. missa fjölmargir vinnuna. Þetta á m.a. við um talsverðan hluta þeirra sem vinna við ferðaþjónustu. Það gæti jafnframt tekið talsverðan tíma að fá aftur vinnu ef langt líður uns ferðaþjónusta nær aftur flugi. Enn aðrir missa tekjur í einhverjar vikur eða mánuði, t.d. þeir sem starfa í atvinnugreinum sem var í raun lokað tímabundið til að hefta útbreiðslu veirunnar.
Að nokkru leyti eru þegar til kerfi sem dreifa svona áfalli á samfélagið allt, sérstaklega atvinnuleysistryggingar. Þær milda höggið fyrir þá sem missa vinnuna og kostnaðinum er dreift á alla launþega og fyrirtæki í gegnum tryggingagjald. Ein af aðgerðum ríkisins til að sporna gegn samdrætti nú er útvíkkun þessa kerfis með svokallaðri hlutabótaleið. Hún felur í sér að launþegar geta farið í lágt starfshlutfall og talist atvinnulausir á móti og fengið atvinnuleysisbætur hlutfallslega.
Frá sjónarhóli hagfræðinnar má jafnframt líta á slík kerfi sem hluta af sjálfvirkum sveiflujöfnurum hagkerfisins. Þau hækka ráðstöfunartekjur almennings umfram það sem þær hefðu ella orðið í niðursveiflu í hagkerfinu með því að auka ríkisútgjöld. Sjálfvirkir sveiflujafnarar eru jafnframt tekjumegin í ríkisrekstrinum því að skatttekjur minnka yfirleitt þegar niðursveifla er í hagkerfinu. Hvort tveggja, þ.e. hærri ríkisútgjöld og lægri skattheimta, örvar að öðru jöfnu eftirspurn í hagkerfinu og vinnur þannig gegn samdrætti. Sjálfvirkir sveiflujafnarar ríkisfjármála þýða jafnframt að hluti áfallsins kemur beint niður á fjárhag ríkisins (og raunar á sambærilegan hátt á fjárhag sveitarfélaga, þótt það vegi mun minna frá þjóðhagslegum sjónarhól). Tjón sem lendir á ríkissjóði lendir vitaskuld á samfélaginu sem heild að einhverju marki. Hvernig það dreifist um samfélagið fer þó eftir því hvaða pólitísku ákvarðanir verða teknar í kjölfarið, um hugsanlega tekjuöflun og/eða niðurskurð. Meira um það síðar.
Velferðarkerfið fyrir almenning er viðamikið og hefur veruleg áhrif á efnahagslegar afleiðingar faraldursins. Hins vegar er ekki til sambærilegt velferðarkerfi fyrir fyrirtæki. Sveiflujöfnunin gagnvart fyrirtækjageiranum er miklu minni en gagnvart einstaklingum. Þó lækka t.d. tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja þegar efnahagslífið dregst saman. Í því felst einhver sveiflujöfnun. Alla jafna kemur hún þó ekki fram fyrr en með nokkurri töf, m.a. vegna þess að tekjuskattar fyrirtækja eru greiddir eftir á og raunar getur tap á tilteknu tímabili lækkað skattgreiðslur í mörg ár á eftir, þ.e. ef fyrirtæki flytja uppsafnað tap skv. skilningi skattalaga með sér á milli ára. Raunar vegur tekjuskattur fyrirtækja hvorki þungt í rekstri þeirra flestra, né í rekstri ríkisins. Þannig skilaði skattur á tekjur og hagnað lögaðila einungis 7,3% af tekjum ríkisins árið 2019. Skattur á tekjur og hagnað einstaklinga skilaði nær þrisvar sinnum meiru. Óbeinir skattar, sérstaklega virðisaukaskattur, skiluðu talsvert meiru.
Mörg hundruð milljarðar tapast
Þótt ekki liggi fyrir nú hve mikill samdráttur efnahagslífsins verður er ljóst að hann verður verulegur. AGS spáir þannig 7,2% samdrætti VLF í ár á Íslandi en hagvexti á næsta ári. Skv. því ættu rúm 8% af vergi landsframleiðslu að tapast (m.v. engan vöxt sem grunnviðmið). Það gerir um 280 milljarða lækkun á virði vöru og þjónustu sem framleidd er. Seðlabankinn spáði í maí örlítið meiri samdrætti en þetta eða 8%. Hagdeild Landsbankans var öllu svartsýnni og spáði 9% samdrætti í ár og síðan 5% hagvexti 2021 og 3% árið 2022. Það samsvarar um 450 milljarða tjóni á þennan mælikvarða. Greining Íslandsbanka spáði mjög svipaðri þróun og félagar þeirra hjá Landsbankanum, 9,2% samdrætti í ár og síðan 4,7% hagvexti 2021 og 4,5% 2022. Það gerir um 425 milljarða tjón. Viðskiptaráð setti fram þrjár sviðsmyndir þar sem samdráttur vergrar landsframleiðslu var frá 8 og upp í 18% í ár.
Þegar fjárlög fyrir árið 2020 voru samþykkt var gert ráð fyrir um tíu milljarða króna halla. Það mun vitaskuld ekki ganga eftir en hve mikill hallinn verður er óljóst. Það mun m.a. fara eftir því hve vel tekst til við að halda faraldrinum í skefjum og koma svo hagkerfinu aftur á skrið í kjölfarið. Fjármála- og efnahagsráðherra lét hafa eftir sér í tengslum við kynningu á öðrum aðgerðapakka ríkisins að hallinn gæti orðið 250 milljarðar í ár. Seðlabankinn gerði í maíspá sinni ráð fyrir að hallinn yrði um 12% af landsframleiðslu eða um 350 milljarðar. Í grunnsviðsmynd Viðskiptaráðs var áætlað að höggið fyrir ríkissjóð yrði 330 milljarðar króna.
Heyrst hafa raddir í þá veru að slíkur hallarekstur í ár – og væntanlega einnig einhver hallarekstur fyrst eftir faraldur, a.m.k. árið 2021 – hljóti að kalla á verulegan niðurskurð í rekstri hins opinbera í kjölfarið. Það er engan veginn rétt.
Ef landsframleiðsla og tekjustofnar hins opinbera dragast saman varanlega þá þarf vitaskuld að bregðast við því með því að stilla útgjöld og tekjur hins opinbera af miðað við þann veruleika. Það er þó erfitt að sjá neina ástæðu fyrir því að það gerist. Sem fyrr segir verður framleiðslugeta hagkerfisins ekki fyrir neinu varanlegu höggi vegna faraldursins. M.ö.o. geta þess til að framleiða vörur og þjónustu, hvort heldur er til einkaneyslu, samneyslu, fjárfestingar eða útflutnings, ætti að jafna sig fyrr eða síðar, þótt ekki sé augljóst nú hve langan tíma það mun taka. Hægt er að spá með ýmsum bókstöfum lögun samdráttarins, V eða U, eða jafnvel W eða eða L en hér verður ekki gerð tilraun til þess. Það sem skiptir mestu í þessu samhengi er að í grundvallaratriðum ætti hagkerfið að geta staðið undir sömu samneyslu og einkaneyslu og fyrir faraldur með svipaðri skattheimtu og þá.
Ekki varanlegt áfall
Einskiptis högg upp á e.t.v. 300 milljarða króna kallar ekki á neinar róttækar breytingar í ríkisfjármálum til frambúðar. Hér skiptir m.a. máli að vegna þess hve lágir vextir bjóðast ríkissjóði er tiltölulega auðvelt að dreifa slíku höggi á langan tíma án þess að þurfa að gera róttækar breytingar á tekjuöflun eða útgjöldum ríkissjóðs.
Um þessar mundir eru raunvextir á verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs í krónum u.þ.b. 0% og langtímaleitnin er niður á við. Þetta þýðir að ríkissjóður getur velt á undan sér lánum sem hann kann að taka vegna faraldurins án þess að það hafi nein teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Tekjur ríkissjóðs árin 2018 og 2019 voru rétt rúmir 870 milljarðar hvort ár. Ef lán upp á 300 milljarða króna væri greitt upp jafnt og þétt á 25 árum með 0% raunvöxtum þyrfti ríkissjóður að leggja til hliðar vegna þess 12 milljarða króna á ári. Væri skuldin greidd niður á 50 árum þyrfti 6 milljarða á ári.
Ef við miðum t.d. við 25 ár þá þyrfti að afla fjár, með niðurskurði og/eða skattahækkunum eða auðlindagjaldi sem myndi bæta afkomu ríkissjóðs um sem samsvarar u.þ.b. 1,4% af heildartekjum. Væri miðað við 50 ár væri sama tala um 0,7%. Hvort sem miðað er við 25 eða 50 ár væri tekjuöflunin og/eða niðurskurðurinn nánast innan skekkjumarka og hefði sáralítil áhrif á einstaka málaflokka eða skattgreiðendur ef henni væri dreift tiltölulega jafnt.
Athugasemdir