Í ljósaskiptunum, tímanum milli hunds og úlfs, ganga Parísarbúar út á svalir eða taka sér stöðu við opinn glugga og klappa ákaft; sumir berja á bjöllur eða einhverja aðra hluti úr málmi. Þannig vilja þeir votta læknum og hjúkrunarfólki aðdáun fyrir það starf sem nú er unnið í baráttunni við Corona-veiruna sem herjar nú grimmt á Frakka.
En fleira býr þó undir, klappinu er líka ætlað að draga athyglina að því hve mikill vanbúnaður var í landinu að takast á við vandann eftir margra ára frjálshyggjustefnu, fjársvelti og lokun sjúkrahúsa, fækkun starfsfólks og einkavæðingar, svo og þá stefnu að stýra heilbrigðisgeiranum eins og fyrirtækjum, setja stjórnunarfræðinga yfir spítala undir titlinum „bed manager“. Og leitast var við að koma á „samkeppni“ í hvaða skúmaskoti sem var.
Niðurstaða af niðurskurði
Áður en faraldurinn hófst var bágborið ástand sjúkrahúsa mjög á dagskrá, það voru sífellt mótmælaaðgerðir, mótmælagöngur, hópuppsagnir, yfirlýsingar lækna og opin bréf til heilbrigðisyfirvalda, – sem svöruðu með því að segja að peningar dyttu ekki niður úr himnum.
Nú verða læknar og hjúkrunarfólk að reyna að bregðast við vandanum eftir fremsta mætti, leggja á sig margfalda vinnu og fara úr öðrum störfum þangað sem þörfin er meiri – fresta læknisaðgerðum sem ekki var brýn nauðsyn á.
Það hefur jafnvel þurft að flytja franska sjúklinga á sjúkrahús í nágrannalöndunum, Sviss, Þýskalandi og Lúxemborg. Og allt í einu eru til peningar. En þetta er ekki allt og sumt. Ef það gengur eftir sem framsýnir mannþekkjarar spá að nokkur aukning verði á barnsfæðingum um það leyti sem árið er að líða í aldanna skaut, munu menn súpa seyðið af þeirri markvissu stefnu yfirvalda undanfarin ár að loka fæðingarheimilum í minni bæjum – þvinga konur semsé til að eignast börn úti á hraðbrautum: fæðingarstaður hraðbraut A1.
Nýjar dyggðir Macrons
Víða eru nú orð uppi um það að eftir þessa kreppu sé þörf á róttækri stefnubreytingu, ljóst sé að ekki verði haldið áfram á sömu braut og áður, hvorki í þjóðfélagsmálum né efnahagsmálum, – skipbrot kapítalisma frjálshyggjunnar blasi við. Og þær raddir heyrast jafnvel þar sem enginn hafði við þeim búist. Í sjónvarpsræðu þar sem hann boðaði útgöngubann í landinu fór Macron forseti allt í einu að tala um dyggðir samstöðu og samhjálpar – þar sem hann hafði áður lofsungið „einstaklingshyggju“ og „samkeppni“ – og klykkti út með því að velferðarþjóðfélagið hefði haft sína kosti. Kannske hafa einhverjir hlaupið út að þvo sér um eyrun. En þetta árétti forsetinn með því að segja að ekki yrði haldið áfram í bili með hin mjög svo umdeildu lög um eftirlaun, og frekari „umbótum“ yrði slegið á frest.
Þessu tóku reyndar margir með miklum fyrirvara, þeir minntu á að í kreppunni 2008 hefðu slíkar yfirlýsingar heyrst og enn háværari – t.d. með þeim orðum að nú væri ljóst að Hayek hefði haft rangt fyrir sér en Keynes lög að mæla – en ekkert hefði svo orðið úr framkvæmdum, frjálshyggjumenn hefðu kannske skriðið niður í holurnar smástund, en svo komið upp úr þeim enn illvígari en áður og tekið til óspilltra málanna á ný. Í útvarpinu orða hagfræðingar þetta svo að menn hefðu „vanrækt að draga lærdóm af hruninu“.
Reagan - Thatcher - Macron
Mér virtist munurinn vera sá einn að minna var vitnað í Hayek en áður, hann var gengisfelldur, en andi hans sveif áfram yfir vötnum og þurrlendi. En bjartsýnismenn segja að staðan sé orðin þannig að ekki sé lengur hægt að halda fyrri stefnu Macrons og sálufélaga hans til streitu, það hljóti að verða farið inn á aðrar brautir. Fyrri umferð bæjarstjórnarkosninganna sýndi einnig að þessi stefna nýtur nú ekki mikils fylgis (seinni umferðinni hefur verið frestað um óákveðinn tíma).
Staðan er því tvísýn í þessa orðs fyllstu merkingu, dómur sögunnar yfir henni og sú merking sem í hana verður síðan lögð fer í einu og öllu eftir því sem nánasta framtíð kann að bera í skauti sér. Verður Macron lítt merkur endapunktur á því ferli sem farið hefur fram síðan Reagan og Járnlafðin komust til valda ósællar minningar, eða verður hann hlekkur í áframhaldandi þróun sem leiðir þangað sem enginn veit nema Almættið? Hvort heldur sem er finnst mér þarflegt, nú á þessari örlagastund, að velta dálítið fyrir sér því sögulega fyrirbæri sem Macron hefur verið undanfarin ár og er hluti af hans kraftbirtingu, hvernig sem hún kann að verða skilgreind síðar.
Frjálshyggjuumbætur
Þegar Macron bauð sig fram til forseta 2017, nánast óþekkktur maður, boðaði hann öllum heyrendum að hann væri hvorki til hægri né vinstri, eða þá kannske hvort tveggja í senn, hann ætlaði einungis að framkvæma nauðsynlegar „umbætur“ – „umbætur“ sem hefðu verið vanræktar allt of lengi. En þetta orð er einhvers konar kóðaorð yfir umbyltingar í anda frjálshyggju. Á þeim tíma voru þeir þó ennþá margir sem tóku það á nafnverði.
En fljótt kom í ljós hvers eðlis var, og voru það kannske ekki fyrst og fremst gerðir hans sem drógu huluna frá, heldur þeir orðskviðir sem upp úr honum hrutu, nánast ósjálfrátt að því er virtist, – það var þegar hann sagði atvinnuleysingja að hann þyrfti ekki annað en fara yfir götuna til að fá vinnu, eða þegar hann sagði um mótmælaaðgerðir hóps manna sem misst höfði atvinnuna á einu bretti: „Af hverju fara þessir menn ekki að leita sér að vinnu í staðinn fyrir að láta svona?“, eða þá þegar hann talaði um þá „geðveikislegu fúlgur sem færu í fátækrahjálp“. Svo rifjuðu menn gjarnan upp orðaskipti hans við verkamann:
„Ég vildi gjarnan eiga svona fín föt og þú gengur í“, sagði verkamaðurinn.
„Til þess þarftu bara að vinna, góðurinn minn“, sagði forsetinn.
„Ég byrjaði nú að vinna þegar ég var sextán ára“, sagði verkamaðurinn.
Og það er ekki síst fleygt þegar hann tók upp hanskann fyrir auðmenn með samlíkingu úr fjallgöngu og sagði að menn mættu ekki lasta þá sem væru fyrstir í öryggislínunni, þeir drægju alla aðra upp á við.
Tilvistarleysi atvinnuleysis
En hvað sýnir nú þetta? Eins og stóð í sérhverju æviágripi forsetans hafði hann fengið sína menntun í þeim tveimur skólum sem útunga franskri stjórnmálaelítu, „Stjórnmálafræðaskólanum“ og „Stjórnsýsluskólanum“, þar sem menn fá fræðin vel melt í fyrirlestrum og fjölritum. Ljóst var nú að þar hafði honum verið kennt „Say-lögmálið“, svo rækilega að það var honum runnið í merg og bein. Þetta lögmál er kennt við franska hagfræðinginn Jean-Baptiste Say sem uppi var í byrjun 19. aldar og byggist á flóknum kenningum um eðli peninga og annað slíkt, en niðurstaðan er einföld: Það getur aldrei orðið atvinnuleysi, því þegar störf tapast á einu sviði myndast um leið ný störf á öðru sviði. Sama máli gildir reyndar um framleiðslu: Það getur aldrei orðið nein „offramleiðsla“, það opnast ævinlega markaðir.
Á þessum tíma höfðu frumkvöðlar klassísku hagfræðinnar í Englandi skömm á frönskum hagfræðingum og töldu kenningar þeirra lítils virði, en þó gerðu þeir eina undantekningu, og hún var „Say-lögmálið“, því tóku þeir fagnandi og innlimuðu það í sínar eigin kenningar. Ástæðan var kannske sú að þetta lögmál renndi að þeirra dómi tryggum stoðum undir það sem var þeirra innsta sannfæring: Að það væru engir „atvinnuleysingjar“ til – þar sem „atvinnuleysi“ ætti sér aldrei stað – ef menn hefðu enga vinnu með höndum væri það einungis af því að þeir væru svo latir, þeir nenntu ekki að vinna. Ill kjör alþýðu væru semsé ekkert annað en – leti. Þetta samræmdist líka kenningu þeirra um manninn, hominem oeconomicum, sem hagfræði þeirra byggðist á að mestu leyti: hann er í eðli sínu blóðlatur og gerir allt sem hann getur til að komast hjá vinnu af hvaða tagi sem er. Þetta hefur nú verið einn grundvallarþátturinn í dogmatík frjálshyggjumanna hvar á landi sem er æ síðan og birtist í fjölmörgum myndum.
Þau lötu og þau duglegu
Ein þeirra er sú að atvinnuleysisbætur séu af hinu illa, það séu þær sem skapi atvinnuleysið, eða magni það að minnsta kosti upp, og sama máli gildi reyndar um fátækrahjálp af hvaða tagi – þetta séu allt „geðveikislegar fúlgur“ sem færu til einskis og réttast væri að spara. Ef ekki væri hægt, af pólitískum ástæðum, að afnema atvinnuleysisbætur þyrfti að minnsta kosti að draga sem mest úr þeim og helst fara illa með þessa svokölluðu „atvinnuleysingja“, láta þá kenna á hörðu, til að berja úr þeim letina. Macron hefur sýnt rösklega tilburði til hvors tveggja. Jafnframt leiðir af þessari kenningu að rétt sé að hygla þeim duglegu sem allra mest, þeim sem nenni að vinna, semsé auðkýfingana, þeir dragi alla aðra upp á við – það megi ekki láta sama ganga yfir „skapara“ og „afætur“. Þess vegna byrjaði Macron sinn forsetaferil á því að gefa auðkýfingum mjög verulegar skattaívilnanir.
„Say-lögmálið“ byggist semsé á flóknum kenningum um eðli peninga og annað slíkt, en með öllu er óþarft og tímasóun að fara út í þá sálma, lögmálið er augljóslega rangt. Það verður atvinnuleysi, það koma tímar þegar fólk sem hefur verið rekið út úr verksmiðjum fer í göngur og heimtar atvinnu eða að minnsta kosti aðstoð sem geri því kleift að lifa af. Og svo koma aðrir tímar þegar atvinna er næg.
Ef einhver minnsti fótur væri fyrir kenningunni yrði maður að álykta að einhver smitandi farsótt leti gengi yfir öðru hverju og legði menn í deyfð og dvala, – árið 1929 hefði slík sótt gengið nánast yfir heim allan og smitað milljónir, líkt og einhver illvíg Corona-veira. Þetta lögmál gildir kannske í Hagfræðilandinu sem Hagmennið byggir en í Mannheimum er það út í hött.
Afsönnun á stefnu Macrons
Það ástand sem menn hafa nú fyrir augum er eins og kaldranaleg afsönnun á allri stefnu Macrons. Hverjir eru það sem halda Frakklandi núna uppi á þessum þrengingatímum? Eru það þeir sem eru „fyrstir í öryggislínunni“? Nei, sú trausta prívatlína þeirra sjálfra hefur dregið þá inn í náðuga daga í sínum lúxusíbúðum. Nú hvílir lífið hins vegar á flutningabílstjórum, lestarstarfsmönnum, verslunarmönnum, götusópurum, kassadömum, handlöngurum, og öðrum slíkum – semsé þeim sem fylltu hópa „gulstakka“. Það verður ekki séð að þeir nenni ekki að vinna, jafnvel ekki í miklu öryggisleysi – það eru ekki einu sinni til hlífðargrímur handa þeim.
Óvíst er að hann hafi nokkurn tíma séð venjulegt fólk nema kannske í bíó.
Nú er líklegt að vanur stjórnmálamaður sem hefði að vísu lagt einhvern trúnað á Say-lögmálið hefði jafnframt séð af hyggjuviti sínu að varasamt væri að framkvæma það um of, og kannske betra að láta það vera. En Macron var nú alls ekki vanur stjórnmálamaður, – varla einu sinni stjórnmálamaður. Eftir að hafa skriðið upp úr sínum skólum hafði hann ekki unnið neins staðar nema í toppstöðu í banka, og síðan sem ráðgjafi Hollande forseta. Óvíst er að hann hafi nokkurn tíma séð venjulegt fólk nema kannske í bíó. Eins og unglingar sem halda að þeir viti allt um leið og þeir eru búnir að ljúka sínu lokaprófi, var hann einmitt rétti maðurinn til að móta sína stefnu eftir Say-lögmálinu í einhverri gerð. Og sennilega hafa þeir sem stóðu á bak við framboð hans og síðan forsetakjör vitað það og ætlast til þess.
En hvað kann að hafa vakað fyrir þeim? Þetta kveikir aðra spurningu sem er mun mikilvægari og þarft væri að hugleiða mun meir en gert er. Hún snertir þá sem véfengja með öllu að lífinu á jarðarhnettinum stafi nokkur ógn af loftslagsbreytingum og öðrum umhverfisspjöllum og halda uppi hörðum áróðri um það, – trúa þeir í rauninni sjálfir því sem þeir segja? Það veit sá einn sem rannsakar hjörtun og nýrun, en leyfilegt er að setja fram ýmsar hugmyndir.
Hagsmunirnir að baki dreifingu skoðana
Það má svo sem ganga út frá því að þeir sem hæst láta í fjölmiðlum og breiða sig út á netinu séu einlægir og trúi sínum eigin orðum í einu og öllu, þeir eru hvort sem er aldir upp í þeirri sannfæringu að allt sem komi frá „vinstri mönnum“, og þá einkum og sér í lagi „vinstri menntamönnum“, sé ekki aðeins hreinn uppspuni og þvættingur heldur líka liður í einhverju gruggugu samsæri. Þeir leggja heldur lítið annað til málanna sjálfir en fúkyrðin.
Allt öðru máli gegnir hins vegar um þá sem standa á bak við, þá sem fjármagna rannsóknir til að reyna að afsanna með einhverju móti það sem umhverfisverndarsinnar halda fram og semja rökin fyrir netverja. Flest bendir til þess að þeir hafi aðra sýn.
Ein vísbending þess er að þeir hafa í rauninni engar skýrar kenningar, allur þeirra framburður miðast að því einu að ráðast á niðurstöður vísindamanna hverju sinni með öllu því sem tiltækt er og skiptir þá ekki máli fyrir þá þótt boðskapur þeirra taki kúvendingum og hvað stangist á við annað. Þetta hafa menn getað séð gegnum tíðina. Einu sinni var því haldið fram að enginn fótur væri fyrir neinum loftslagsbreytingum og lagðar fram tölur sem áttu að sanna það. Svo var sagt að loftslagsbreytingarnar – sem nú voru viðurkenndar – stöfuðu af sólblettum, og þannig áfram.
Vegið að manneskjunum
Síðasta stigið í áróðrinum hingað til er að sleppa því með öllu að tala um loftslagsvá og umhverfisspjöll heldur ráðast á þá sem vilja bregðast á einhvern hátt við þeim með því að reyna að gera þá tortryggilega, með persónulegum svívirðingum ef ekki dugir annað. Jafnframt má öðru hverju heyra röksemdir sem fara yfir öll mörk fáránleikans og þó er haldið fram í fúlustu alvöru.
Ein af þeim er nafn okkar næsta nágranna: Sýnir nafnið Grænland – „landið græna“ – ekki augljóslega að þessi mikla eyja hafi verið þakin gróðri á miðöldum og þó voru þá engir bílar og engin olíubrennsla, – og ekki verður séð að mönnum hafi orðið meint af þessum hita? Þessu hélt frægur franskur heimspekingur fram í dagblaðinu „Le Figaro“, og það virðist hafa náð eitthvað út til almennings. Sagt er að þessa kenningu sé að finna í „röksemdalista“ á netinu ætluðum þeim sem vilja berja á umhverfisverndarsinnum. (Innan sviga: mér ofbauð þetta svo að ég skrifaði blaðinu bréf, en það var ekki birt og ég fékk ekki nein viðbrögð. Nú er þessi sami heimspekingur einna fremstur í flokki þeirra sem reyna með öllu móti að gera þá sem eru á öðru máli sem tortryggilegasta, eftir að hafa í leiðinni ausið úr skálum reiði sinnar yfir Gretu Thunberg).
Fyrirséðar afleiðingar
Eftir þessu að dæma hafa þeir sem véfengja loftslagsbreytingar ekki neinar kenningar og enga stefnu aðra en þá að reyna að koma í veg fyrir að rökin fyrir loftslagsvá nái til almennings. Þeir beita sömu aðferðum og tóbaksframleiðendur á sínum tíma og með sama markmiði.
Nú er víst að tóbaksframleiðendur vissu allt um skaðsemi tóbaks, en gróðafíknin var látin ráða, og sama máli virðist gegna um þá sem standa á bak við herferðir gegn umhverfisverndarsinnum: þeir sem hafa rannsakað sögu þessara deilna segja að þeir hafi fyrir löngu haft í höndum skýrslur sem sýndu það sem vofði yfir. En þetta hlýtur að vekja nokkra furðu, eru þessir menn ekki undir sömu sökina settir og aðrir menn, stafar þeim ekki jafnmikil hætta af loftslagsvánni og öllum öðrum? Hvað stýrir þá gerðum þeirra?
Svarið við því er reyndar komið fyrir löngu og hefur verið rakið vendilega í tímaritum eins og „The New Yorker“: Ofurauðkýfingar og ólígarkar heims eru að segja sig úr lögum við aðra menn, þeir ætla að bjarga sínu eigin skinni meðan aðrir verða að sitja í súpunni. Þetta hefur komið fram með ýmsum hætti. Um skeið keyptu ýmsir forsprakkar í Silikon-dalnum búgarða og lendur á Nýja-Sjálandi, kannske einkum með það í huga að vera sem lengst frá þeim sem vildu draga þá til ábyrgðar. En svo fór að lokum að stjórn landsins sagði stopp. Aðrir festu kaup á kjarnorkuvarnarbyrgjum og öðrum slíkum vel vörðum bústöðum. Samkvæmt nýjustu fréttum eru bandarískir auðkýfingar farnir að kaupa upp jarðir í Norður-Svíþjóð þar sem líklegt er að hitun andrúmsloftsins gæti minna. En fleiri staðir gætu komið til greina, svo sem Vopnafjörður, en af þeim hef ég engar spurnir. Loks hefur komið fram hugmynd sem margir taka af dauðans alvöru og trompar allt: hún er sú að koma upp auðkýfingabyggð á tunglinu. Til þess er öll tækni þegar fyrir hendi.
Salan á innviðum
En meðan beðið er eftir lúðurhljómnum er þó annað ofar á blaði: að búa í haginn fyrir þá stöðu sem í vændum er, koma á réttu kerfi og þó fyrst og fremst láta greipar sópa yfir allt sem fast og lauslegt er. Ekki er eftir neinu að bíða, þetta er alveg splunkuný útgáfa af orðskviðnum „Take the money and run“.
Og þá koma til sögunnar stjórnmálamenn sem hafa ekki annan sjóndeildarhring en Say-lögmálið. Þeir eiga að gangast fyrir því að einkavæða allt sem hugsanlegt er, koma því í krumlurnar á þeim sem eru „fyrstir í öryggislínunni“, og jafnframt hirða af almenningi öll þau réttindi og kjarabætur sem hann hefur áunnið sér með áratuga baráttu, – til þess að hann sé ekki með neitt múður og meira verði til skiptanna handa auðkýfingum. Á þessum sviðum hefur Macron gengið rösklega fram, nú síðast með nýskipan eftirlauna og áætlun um að einkavæða flugvelli Parísarborgar, koma þeim í hendur ákveðinna auðhringa. Enginn sá nokkur minnstu rök til þess og mikill meirihluti var því andvígur – rúm miljón manna setti nafn sitt á undirskriftalista til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa umfangsmiklu einkavæðingu. En hvoru tveggja hefur nú verið slegið á frest.
Milli vonar og ótta
Framtíðarsýnin var óneitanlega glæsileg: ofurauðkýfingarnir í mestu makindum í sínum hátimbruðu höllum í Mare Serenitatis á mánanum, þeir virða fyrir sér jörðina sem þeir eiga að mestu leyti, þar geta þeir stjórnað öllu, kannske með vélmenni fyrir verkstjóra, og haft strangt eftirlit með þeim sem lifa þar enn og strita fyrir þá með þeirri haglegu tækni sem Kínverjar hafa nú hannað, snjáldurskynjurum og orðljótum drónum. Vafalaust sigla þangað í sífellu geimferjur drekkhlaðnar gulli, eins og í sögu Ayn Rand, og í gleði sinni teikna tunglbyggjar dollaramerkið út í loftið eins og þegar sama skáldverk nær sínum ódauðlega hápunkti. Og svo kom þessi helvítis veira.
Og svo kom þessi helvítis veira.
Á meðan bíða Parísarbúar milli vonar og ótta og reyna að þrauka af sem best þeir geta. Í tölvupósti fékk ég fregnir af vinkonu minni einni. Hún hafði heyrt Dalai Lama segja að til þess að öðlast sálarfrið þyrftu menn að gæta þess jafnan að ljúka öllu því sem þeir tækju sér fyrir hendur, skilja aldrei neitt eftir óklárað. Því fór hún á stúfana að svipast um eftir öllu sem var ólokið í íbúðinni, og á því var svo sem enginn hörgull, þarna var hálfkláruð rauðvínsflaska, hvítvínsflaska í sama ástandi, konjaksflaska sem ekki var komið nema lítið borð á, og sitthvað fleira af sama tagi. Hún tók nú strax til óspilltra málanna að ljúka öllum þessum ókláruðu verkum. „Og þú getur ekki ímyndað þér hvað ég öðlaðist mikinn sálarfrið.“
Athugasemdir