Útlendingastofnun leitar nú að nýjum samstarfsaðila til að framkvæma aldursgreiningar á tönnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, en háskólaráð Háskóla Ísland ákvað á fundi sínum á föstudaginn að framlengja ekki samning skólans við Útlendingastofnun um slíkar greiningar.
Tilkynnt var á vefsíðu Háskóla Íslands í dag að samningurinn yrði ekki framlengdur. Þar segir meðal annars að þegar hann var undirritaður í mars í fyrra hafi HÍ komið ábendingum til dómsmálaráðherra um að í bókun barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna komi meðal annars fram að ríki skuli notast við fjölþætt mat á líkamlegum og andlegum þroska barna og að forðast eigi að notast við klínískar aldursgreiningar á tönnum.
HÍ hafi komið sömu sjónarmiðum á framfæri í athugasemdum við frumvarp um breytingu á útlendingalögum síðastliðið haust. Í skriflegu svari til Stundarinnar segir Þórhildur Líndal, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, að þessum ábendingum háskólans hafi verið komið á framfæri við dómsmálaráðherra og því geti stofnunin ekki svarað því hvernig brugðist var við þeim.
Tanngreiningin í samræmi við lög
Umræddur samningur gildir til 25. mars næstkomandi. Í tilkynningu á vefsíðu Útlendingastofnunar segir að stofnunin vilji árétta að verklag hennar við ákvörðun á aldri, sem byggi á „heildstæðu mati á aðstæðum einstaklings, frásögn hans, framlögðum gögnum og eftir atvikum aldursgreiningu á tönnum, sé í fullu samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerðar um útlendinga,“ eins og segir í tilkynningunni.
Athugasemdir