Árið 2019 var árið sem ég lærði hvað hismið getur stundum líkst kjarnanum. Hvað það getur verið einfalt og þægilegt að sjá ekki stóru myndina og horfa frekar á aukaatriðin; rammann kannski bara.
Ég hafði heyrt um spillingu og lesið um mútur. Ég hafði meira að segja áður fjallað um mál sem mér finnst vera borðleggjandi spillingarmál. Eða skipulögð glæpastarfsemi. Á Íslandi snýst þetta hins vegar yfirleitt um að einhver sem á nóg fær aðeins meira og á kostnað einhvers sem líður samt tæplega skort. Til dæmis eins og bílaleigan sem svindlaði á þeim sem þó höfðu efni á að kaupa sér nokkurra milljóna farartæki. Eða ráðherrann sem forðaði sér frá gjaldþroti og bauð svo bjargvættinum með sér í opinbera heimsókn.
Og þannig leið mér gagnvart spillingu, mútum og skattsvikum. Það er skrýtið en ég hafði ekki mótaða afstöðu eða í raun sérstaka skoðun á svona brotum. Aðra en að það er auðvitað rangt að brjóta lög og það er ósanngjarnt að ná forskoti með því að svindla. Lengra náði það ekki.
Það er ekki auðvelt að færa í orð hvernig það slær mann kylliflatan að sjá raunverulegar afleiðingar spillingar. Allar tilraunir verða hálf kjánalegar og klisjukenndar. Það nær engin samlíking eða myndlíking yfir ömurðina sem fylgir brotnu samfélagi sem hefur verið rænt. Mér hefur einna helst tekist að líkja þessu við að stíga inn í auglýsingu frá UNICEF um barnafátækt og heilsa og spjalla við fólk sem tekst á við vandamál sem eru óyfirstíganleg þar sem þau eru en eru einfalt úrlausnarefni þar sem ég er. Að sjá systkini bera á milli sín skítuga tunnu langa leið til að sækja smá vatn. Að fylgjast með systrum grafa í gegnum mannaskít og rusl til að leita að einhverju sem gæti reynst verðmætt. Að mæta verkakonu með hálfa búslóðina á höfðinu, sem hún ferjar til og frá vinnu, margra kílómetra leið í kofann sinn. Flestum þætti líklega gengið of langt að sýna svona aðstæður í sjónvarpsauglýsingu fyrir hjálparstarf. Þetta væri eiginlega of mikið. Hálf óþægilegt bara.
„Spillingin í Namibíu snýst um að stela arðinum af auðlindum heillar þjóðar og halda henni í fátækt og eymd“
Spilling og arðrán auðlinda í landi eins og Namibíu snýst hins vegar um þetta og raunveruleikinn er miklu ömurlegri en maður er tilbúinn að trúa. Spillingin snýst ekki um óeðlilegt samkeppnisforskot á meðal stórfyrirtækja eða að stytta biðina í röðinni; að komast í opinbera heimsókn og næla sér í viðskiptasambönd eða að selja bíl á aðeins hærri prís en tilefni er til. Það er bara hismið.
Spillingin í Namibíu snýst um að stela arðinum af auðlindum heillar þjóðar og halda henni í fátækt og eymd. Hún snýst um að örfáir fái að taka til sín það sem allir eiga. Að koma peningum út úr fátækasta heimshlutanum og færa til þess ríkasta. Að kaupa og stækka. Án nokkurs tillits til þeirra sem tekið var frá. Í Namibíu sést þetta í hverfum eins og Katutura, þar sem um helmingur íbúa höfuðborgarinnar býr í kofum. Ekkert vatn. Stundum rafmagn. Aldrei klósett. Þetta er ekki einu sinni fátækrahverfi, bara verkamannahverfi. Fátækrahverfin eru enn verri. Og þarna er aragrúi af börnum sem leikur sér innan um rusl og drasl og mannaskít og rottur. Það er ekki eitt fyrirtæki eða tveir stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á því að svona sé þetta. En, hvert og eitt þessara fyrirtækja og hver og einn þessara stjórnmálamanna sjá til þess að þetta haldi áfram.
Sem betur fer var þetta ekki það eina sem ég lærði eða sem breytti mér á árinu. Þetta er þó líklega erfiðasti lærdómurinn. Það var nefnilega óþægilegt og vandræðalegt að átta sig á því að hafa ekki fattað þetta fyrr en í ár; að hafa ekki skilið fyrr en núna um hvað spilling snýst í raun.
Athugasemdir