Enn eitt þetta-var-nú-meira árið liðið! Ég reyni að muna hvað er minnisstæðast á hlaupum á milli upplestra og það sem helst kemur upp í hugann er ekki ný pæling en kannski pæling sem hefur ágerst eftir að ég flutti heim frá útlöndum fyrir tveimur og hálfu ári. Nefnilega kvik nálægð valdaafla og samspil þeirra í fámennu samfélagi.
Hér eru allir ofan í öllum, eins og við vitum öll, í samfélagi þar sem virðist alltaf eitthvað drastískt vera að gerast. Nú síðast Samherjamálið í Namibíu sem fékk mig til að borða gapandi með munninn fullan af rjómaköku þar sem ég horfði á Kveik á tölvuskjá í afmælisboði vinkonu minnar. Eftir þáttinn spurði vinkonan: Og hvað?
Og bara, sagði ég, ef þetta er rétt, þá er þetta rosalegra en bæði hrunið og Panamaskjala-málið. Þetta er svo kaldrifjað.
Þannig blasti það við á skjánum; íslenskt stórfyrirtæki, rótgróið í samfélaginu, að mylja undir sig auðlindir fátækra barna í landi þar sem Ísland hafði staðið að þróunarhjálp.
Ísland er allt að því dúkkulegt samfélag í smæð sinni og stundum virðist samfélagið, þrátt fyrir allt, ennþá vera svo saklaust. Víða lúrir innbyggður vilji til að trúa því besta um innviðina en svoleiðis sakleysi getur orðið okkur sjálfum hættulegt, svo ekki sé minnst á þegar það er farið að ógna tilverugrundvelli barna í útlöndum.
„Ísland er allt að því dúkkulegt samfélag í smæð sinni“
RÚV og Stundin leiddu þetta mál fram í dagsljósið, ásamt erlendum samstarfsaðilum; enn eitt þungavigtarmálið sem íslenskir fjölmiðlar hafa borið á borð fyrir okkur, þannig að við stöndum andspænis þeirri áskorun að taka sem réttast á því, nokkuð sem getur reynt á fámennt samfélag þar sem allir tengjast öllum, einhvern veginn, allavega í gegnum Íslendingabók.
Þetta mál leiddi hugann að íslenskum fjölmiðlum. Í hvert skipti sem fjölmiðlar, sérstaklega þá RUV og sjálfstæðu einkareknu miðlarnir Stundin og Kjarninn, eiga þátt í einhvers konar afhjúpunum er viðbúið að þeir verði talaðir harkalega niður í kreðsum þeirra sem hafa sérhagsmuna að gæta og fólksins í kringum þá aðila.
Og þá að fjölmiðlafrumvarpinu. Á öllum hlaupunum fylgdist ég ekki alltaf nóg vel með umræðunni um það síðustu vikur en núna, þegar mér er fengið að velta fyrir mér hvað standi upp úr á árinu, finnst mér það mikilvægasta mál ársins. Hvernig við ætlum og viljum standa að fjölmiðlum.
Af og til heyrir maður fréttaflutning af afdrifum – eða öllu heldur hugsanlegum – afdrifum þessa frumvarps, stöðugt að lesa allt á hlaupum í eilífri síbylju samfélagsins. En þessar fréttir eru ekki hvaða fréttir sem eru, hverjar hinar endanlegu fréttir af frumvarpinu verða getur haft afgerandi áhrif á íslenskt samfélag.
Í þessu kvika fámenni okkar þurfum við að geta sett traust okkar á fjölmiðla. Til að sjá okkur sjálf og skilgreina, skilja samfélagið okkar jafnt sem umheiminn en líka til að hafa traustan grundvöll að byggja á djúpa samfélagsræðu og stuðla að virkni frjálslynds lýðræðis. Einhvern tímann, fyrir löngu, rámar mig í að hafa lesið viðtal við Umberto Eco í flugvélablaði þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að eignarhald hins auðuga valds væri það sem ógnaði helst virku lýðræði. Þessi orð hafa setið í mér síðan.
„Góðir fjölmiðlar eru heilsugæsla samfélagsins, þeir sjá um að taka það í tékk og lýsa upp hvers konar óheilbrigði“
Eignarhaldið á stærstu prentfjölmiðlunum hér á landi hefur tengst ákveðnum valdaöflum, þótt ólík séu, og það er í sjálfu sér ákveðinn raunveruleiki, ef svo má segja, sem heldur utan um sjálfan sig, í
einhvers konar lögmáladansi. Þess utan er ákveðin áskorun að verkferlar á ritstjórnum þurfi ekki að líða fyrir nálægðina sem fylgir fámenninu, þar sem vinir og kunningjar skrifa um frændur og frænkur eða fólk sem það á jafnvel átakasögu með. Gagnsæið þarf að fá að þrífast á miðlum sem eru oft fámennir vegna þessara flóknu rekstrarskilyrða sem fylgja því að reka þá á fámennu málsvæði.
Sjálfstæðir einkareknir fjölmiðlar verða að fá að þrífast í þessum erfiðu rekstrarskilyrðum sem eru til staðar hér á landi fyrir þá sem hætta sér út í slíkan hugsjónarekstur. Ólíkir fjölmiðar verða að fá að dafna hér, fjölmiðlar sem hafa ritstjórnir með reynslu, þekkingu og burði til að starfa eftir siðferðisviðmiðum fagsins, og þeir verða að búa við skilyrði sem leyfa þeim að dafna. Góðir fjölmiðlar eru heilsugæsla samfélagsins, þeir sjá um að taka það í tékk og lýsa upp hvers konar óheilbrigði.
Ég ætla ekki að vera langmál, í eins konar jólahugvekju sem á að vera stutt. En af því þetta er jólakveðja er ekki úr vegi að segja:
Fjölmiðlar eru kirkjan mín. Eitthvað æðra mér, afl sem ég get verið ósátt við og gagnrýnt en líka tekið þátt í að vera hluti af, meðvituð um að tilurð góðra fjölmiðla er björgun, það sem frelsar okkur undan því að verða samdauna breyskleikum okkar. Í augnablikinu má segja að hugmyndin um trausta fjölmiðlun sé í raun trúarbrögðin mín. Ég trúi á samtal, upplýsingu, samfélagslega fræðslu, rökræðu og frelsið til að segja hið óvinsæla – og takast á um það til að mjakast áfram í skilningi.
Amen!
Og gleðileg jól!
Athugasemdir