Ég hélt það yrði ekkert mál að svara spurningunni um hvað ég hefði lært árið 2019. Fyrst kom mér reyndar til hugar indverski osturinn sem ég lærði að gera með því að blanda sítrónusafa út í heita mjólk, en svo fannst mér það ekki nógu bitastætt svar, eitt og sér.
Korter í jól með fimm börn er streituglasið nokkurn veginn yfirfullt, svo ég varð fegin þegar álitlegu svari skaut upp í kollinn á mér milli vinnupósta og jólagjafainnkaupa. Það var háfleygt og innblásið af Gretu Thunberg, um mikilvægi þess að næra vonina í heimi þar sem hamfarahlýnun er vísindaleg staðreynd. Ef við missum vonina er hætt við því að sannfæringin um að við séum öll á þráðbeinni leið til helvítis skjóti rótum og að það skipti engu máli hvort við flokkum ruslið okkar, fljúgum ótt og títt eða étum nautasteik í hvert mál. Hendir ekki McDonalds fjórum tonnum af mat á dag, hvort eð er? Á hinn bóginn er fárviðrið sem nýverið olli rafmagnsleysi á Norður- og Norðausturlandi bara byrjunin á því sem koma skal ef Golfstraumurinn breytir um stefnu. Nei, okkur ber skylda til að rækta vonina og umbreyta henni í aðgerðir. Fjölskyldan mín er lifandi dæmi um þetta, en ég þorði að vona að tvíburarnir mínir myndu lifa af þótt læknavísindin hefðu afskrifað þá á sínum tíma. „Jæja,“ hugsaði ég eftir að hafa troðið öðrum stubbnum í kuldaskó þrátt fyrir hetjulega mótspyrnu, „þá get ég strikað svarið um lærdóm ársins 2019 af listanum. Tékk.“
En einhvers staðar milli vinnuferðarinnar til Helsinki og uppsetningarinnar á jólatrénu (sem þarfnast endurlífgunar á hverjum degi vegna eins árs tvíbura) tók efasemdamanneskjan í mér við að afbyggja hugmyndina um vonina sem jákvætt afl. Hvað með fólk sem veslast upp í mannskemmandi hjónaböndum eða vinnustöðum því vonin um betri tíð blindar þeim sýn? Hvað með heilu þjóðirnar, sem ár eftir ár vona að kosningaloforðin hafi ekki verið orðin tóm, og að nýja náttúruverndarstefnan eða stjórnarskráin sé handan við hornið? Vonin getur breytt hreyfingu í stöðnun, skynsemi í afneitun. „Nei, fjandinn hafi það,“ hugsaði ég í miðri pelagjöf, „ég byggi svarið á því hvað uppgjöf er vanmetið fyrirbæri. Að gefast upp er stundum eina leiðin út úr öngstrætinu. Get tekið fullt af dæmum um þetta, bæði úr vinnu og einkalífi. Tékk.“
„Von í bland við uppgjöf eru lífsnauðsynlegar breytur fyrir mannkyn sem er að fást við stærstu áskoranir sínar til þessa“
En uppgjöf reyndist ekki kitla skriftaugina í mér. Kannski tók hún þessu viðfangsefni of bókstaflega því ég gafst upp eftir að hafa starað á blikkandi bendil í tómu skjali í rúman hálftíma. Þrjátíu og tvær mínútur sem ég hefði getað notað í að brjóta saman þvott, svara uppsöfnuðum skilaboðum frá samstarfsaðilum og skipta um ljósaperu inni á baði áður en ég þarf að vera mætt á leikskólann til að sækja örverpin.
Von í bland við uppgjöf eru lífsnauðsynlegar breytur fyrir mannkyn sem er að fást við stærstu áskoranir sínar til þessa. Við verðum að halda í vonina um að hver einasta ferð sem við förum fótgangandi í stað þess að keyra skipti máli, jafnvel þótt helvítis leikskólinn sé efst í brattri brekku. Uppgjöf er jafn lífsnauðsynleg þegar við komumst að því að lausnirnar eða einstaklingarnir sem við bundum vonir okkar við stóðust ekki væntingar. Þá þarf að skunda að teikniborðinu og bretta upp ermarnar aftur, af sömu bjartsýni og tvíburaforeldri sem skreytir jólatréð sitt í fimmtánda sinn. Lausnin við loftslagsvandanum er ekki fólgin í því að útvaldir aðilar geri allt á fullkominn hátt – lausnin felst í því að milljarðar einstaklinga leggi sitt af mörkum þótt það sé ófullkomið, svo að við getum sagt að við reyndum allavega. Á sama hátt kenndi árið 2019 mér að ég má gera mér vonir um að hver nýr dagur geti rúmað allt á listanum mínum, svo fremi sem ég leyfi mér að gefast auðmjúklega upp á hverju kvöldi. Ég reyndi allavega. Indverski osturinn er líka fínn, áhugasamir geta gúglað uppskriftir að paneer. Og snilldarleg lausn til að vernda jólatré frá áköfum barnshöndum er að loka það inni í leikgrindinni. Tékk.
Athugasemdir