Þótt dæmi sé um að hátt í fimmti hver kjósandi hafi strikað yfir nafn oddvita í nýyfirstöðnum alþingiskosningunum hefur það engin áhrif.
Reglur um útstrikanir eru flóknar í núverandi kosningakerfi og þarf mismargar útstrikanir til að lækka frambjóðanda um sæti, eftir því í hvaða listasæti hann er og hversu margir frambjóðendur ná inn á þing af listanum.
Í drögum að nýrri stjórnarskrá, sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012, er kveðið á um aukið vægi kjósenda í uppröðun á lista, með svokölluðu persónukjöri. Þannig gætu kjósendur valið sér frambjóðendur af mismunandi listum, í stað þess að einskorða sig við einn stjórnmálaflokk óbreyttan: „Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt.“
Svo vill til að 9 af þeim 12 sem flestar útstrikanir fengu í liðnum alþingiskosningum eru andvígir innleiðingu nýrrar stjórnarskrár. Þá er ekki á dagskrá stjórnarskrárnefndar Alþingis, sem hefur unnið með afmarkaðar breytingatillögur á núverandi stjórnarskrá, að innleiða persónukjör.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk langflestar útstrikanir, eða tæplega 18%, en 20% hefðu þurft að strika út Sigmund Davíð til að færa hann niður um sæti á listanum. Ef Sigmundur hefði einn náð kjöri fyrir flokkinn í kjördæminu hefðu útstrikanir þurft að vera 25%, samkvæmt flóknu útstrikanakerfi.
1. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Framsóknarflokki
Norðausturkjördæmi
Útstrikanir: 17,99%, 817 talsins
Sigmundur Davíð hafði sagt af sér sem forsætisráðherra og var felldur sem formaður Framsóknarflokksins í kjölfar Wintris-málsins svokallaða, þar sem leki úr panamísku lögmannstofunni Mossack Fonseca leiddi í ljós að Sigmundur hafði átt leynilegt aflandsfélag ásamt eiginkonu sinni, sem hafði kröfur upp á hálfan milljarð króna gagnvart þrotabúum Landsbankans. Samkvæmt siðareglum ráðherra, sem forsætisráðherra á að framfylgja, ber að greina frá hagsmunaárekstrum sem þessum opinberlega. Þrátt fyrir metfjölda útstrikana lýsti Sigmundur því yfir að hann hefði fengið 19% fylgi ef hann hefði leitt Framsóknarflokkinn frekar en Sigurður Ingi Jóhannsson, en flokkurinn fékk 11,5% á landsvísu og missti 13% og 11 þingmenn frá síðustu kosningum.
2. Gunnar Bragi Sveinsson
Framsóknarflokki
Norðvesturkjördæmi
Útstrikanir: 10,65%, 371 talsins
Gunnar Bragi Sveinsson byrjaði ráðherraferil sinn í utanríkisráðuneytinu með látum þegar hann boðaði, þvert á kosningaloforð sjálfstæðismanna og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, að hann myndi slíta viðræðum við Evrópusambandið án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um málið. Gunnar Bragi hefur einnig vakið athygli þegar hann flutti strandveiðikvóta í eigið kjördæmi, þegar hann gagnrýndi val á ritstjóra staðreyndavaktar Vísindavefsins, þegar hann veitti kunningja sínum úr Skagafirði þrjár milljónir króna í styrk af skúffufé utanríkisráðuneytisins til að gera heimildarmynd og þegar hann lagði niður Þróunarsamvinnustofnun og færði verkefni hennar undir ráðuneytið, svo eitthvað sé nefnt.
3. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Viðreisn
Útstrikanir: 8,21%, 563 talsins
Suðvesturkjördæmi
Þorgerður Katrín sneri aftur í stjórnmál eftir að hafa verið ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn og varaformaður flokksins þegar bankahrunið varð. Þorgerður bauð sig óvænt fram fyrir Viðreisn, eftir að hafa verið í viðræðum við Bjarna Benediktsson um framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þorgerður missti trúverðugleika eftir bankahrunið þegar í ljós kom að eiginmaður hennar hafði fengið lán upp á 1,7 milljarða króna, meðal annars kúlulán til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, þar sem hann starfaði. Þorgerður lét ekki í ljós þessa miklu einkahagsmuni. Á sama tíma og hún hafði gríðarlega hagsmuni tengda íslensku bönkunum varði hún bankakerfið opinberlega og var meðal annars sitjandi forsætisráðherra þegar hún sagði Richard Thomas, gagnrýnanda ríkisstjórnarinnar og bankakerfisins, eiga að sækja sér endurmenntun og sakaði hann um annarlega hagsmuni. Þá hafði hún sjálf hins vegar persónulega hagsmuni sem hún greindi engum frá, sem hefði brotið alvarlega gegn siðareglum ráðherra ef þær hefðu þá verið innleiddar.
4. Eygló Harðardóttir
Framsóknarflokki
Útstrikanir: 4,35%, 172 talsins
Suðvesturkjördæmi
Sem ráðherra félags- og húsnæðismála hefur fallið á borð Eyglóar Harðardóttur að útfæra sum stærstu kosningaloforð Framsóknarflokksins, meðal annars afnám verðtryggingar og endurbætur á húsnæðislánakerfinu. Eygló vakti athygli þegar hún neitaði að samþykkja ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Illa hefur gengið að leysa húsnæðisvanda ungs fólks og vakti Eygló athygli þegar hún hvatti ungmenni til að búa einfaldlega lengur hjá foreldrum sínum. Reiknivilla Eyglóar vakti einnig mikla athygli. Eftir fund með helstu hagsmunaaðilum á húsnæðismarkaði hélt hún því fram að ef 10 til 15 aðilar sem kæmu að húsbyggingu myndu allir lækka kostnað sinn um 1% myndi samanlagður sparnaður vera 10 til 15%. Þetta er hugsanavilla, því hlutfallið myndi ná jafnt yfir alla og samanlagður sparnaður verða 1%.
5. Steingrímur J. Sigfússon
Vinstri grænir
Útstrikanir: 3,41%, 155 talsins
NorðvesturkjördæmiEftir að hafa leitt gríðarlega óvinsæla vinstri stjórn með Jóhönnu Sigurðardóttur er Steingrímur J. einn umdeildasti stjórnmálamaður landsins. Meðal óvinsælla ákvarðana hans er að sækja um aðild að Evrópusambandinu, eftir að hafa neitað fyrir kosningarnar 2013 að það myndi gerast, að bjarga Sparisjóði Keflavíkur með 25 milljarða króna kostnaði fyrir ríkið og að skipa pólitískan samherja, Svavar Gestsson, yfir samninganefnd Icesave.
6. Birgitta Jónsdóttir
Pírötum
Reykjavík norður
Útstrikanir: 2,98%, 198 talsins
Birgitta Jónsdóttir er fyrirferðarmesti Píratinn. Deilur innan Pírata fyrr á árinu snerust að hluta um persónu hennar. Kosningaloforð um stytt kjörtímabil, sem hún knúði í gegn, hefur verið umdeilt, en Píratar féllu fljótlega frá því. Birgitta hefur meðal annars beðið Skagfirðinga afsökunar fyrir ummæli sín um mafíu þar. Frammistaða hennar í kosningaþætti RÚV daginn fyrir kosningar var einnig umdeild, þar sem hún sýndi óhefðbundna hegðun, greip fram í, gantaðist og veifaði spjaldi.
7. Björn Valur Gíslason
Vinstri grænum, Norðausturkjördæmi, 2,8%, 127
Björn Valur hefur oft vakið athygli fyrir stórar yfirlýsingar. Hann var þingmaður í vinstri stjórninni og studdi sem slíkur Icesave-samkomulagið. Þá er dæmi um að vandræði hans í viðskiptum hafi komið niður á öðrum fyrir þingmannsferil hans.
8. Ásmundur Friðriksson
Sjálfstæðisflokki, Suðurkjördæmi, 1,97%, 168
Ásmundur, sem er varaformaður Oddfellow á Íslandi, hefur varað við múslimum og lagt til að þeir verði rannsakaðir sérstaklega út frá því hvort þeir séu hryðjuverkamenn. Þá hefur hann verið í forystu fyrir gagnrýni á útgjöld til hjálpar flóttamönnum.
9. Guðlaugur Þór Þórðarson
Sjálfstæðisflokki, Reykjavík norður, 1,89%, 161
Guðlaugur Þór missti trúverðugleika eftir styrkjamálið svokallaða. Árin 2009 og 2010 kom í ljós að hann hafði átt milligöngu um að útvega 30 milljóna króna styrk frá FL Group og 25 milljóna styrk frá Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins árið 2006 án þess að þeir væru gefnir upp. Um svipað leyti var unnið að tilfærslu orkuauðlinda til einkafyrirtækisins Reykjavík Energy Invest. Guðlaugur sjálfur var styrkjakóngur meðal stjórnmálamanna og þáði 25 milljónir króna frá Baugi, FL Group, Fons og fleiri fyrirtækjum. Hann féll niður um sæti vegna útstrikana í kosningunum árið 2009.
10. Bjarni Benediktsson
Sjálfstæðisflokki, Suðvesturkjördæmi, 1,52%, 274
Bjarni hefur sem formaður Sjálfstæðisflokksins og þátttakandi í viðskiptum verið viðloðandi fjölda umdeildra mála. Hann lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-málið, en stóð ekki við það. Þá er honum kennt um að ættingjar hans hafi fengið að kaupa Borgun af ríkisbankanum Landsbankanum, sem heyrir undir hann, og hagnast þannig verulega. Fjölmargt fleira í viðskiptafortíð Bjarna, eins og Vafningsmálið og milljarðaafskriftir félaga sem hann tengdist, hefur vakið tortryggni. Þá kom í ljós, eftir Panamalekann, að Bjarni hafði átt 40 milljónir króna í aflandsfélagi, þrátt fyrir að hafa áður sagt að hann hefði ekki átt félag á aflandssvæðum.
11. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Sjálfstæðisflokki, Reykjavík norður, 1,44%, 123
Áslaug, sem er 25 ára, hefur risið hratt í stjórnmálum eftir að hún varð fyrir aðkasti opinberlega í kjölfar stuðnings síns við frumvarp um sölu áfengis í verslunum, þar sem hún sagðist treysta því að Sjálfstæðisflokkurinn gerði fólki kleift að kaupa hvítvín með humrinum hvenær sem er. Áslaug sagði síðan í skilaboðum til barna fyrir kosningar að þau ættu að vera minna í skólanum, því heimurinn væru „fullur af peningum“.
12. Ólöf Nordal
Sjálfstæðisflokki, Reykjavík suður, 1,24%, 111
Ólöf hefur verið í eldlínunni vegna brottflutnings hælisleitenda. Þá var hún í Panamaskjölunum. Þar kom í ljós að hún hafði prókúru fyrir aflandsfélag eiginmanns síns. Hún segir félagið samt hafa verið sér óviðkomandi.
Athugasemdir