Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

„Ég hélt mig vera að dauða kominn“

Leif­ur Muller var í fanga­búð­um nas­ista þar sem hver dag­ur var bar­átta upp á líf og dauða. Hung­ur, sjúk­dóm­ar, pynt­ing­ar og dauði voru dag­legt brauð. Leif­ur lifði voða­verk­in af en náði sér aldrei til fulls. Svik­ari hans var fram­seld­ur til Ís­lands.

Ungur að aldri
Ungur að aldri Eins og aðrir fangar fékk Leifur auðkennisnúmer við komuna í fangabúðirnar. Hann var handtekinn vegna fyrirætlana um að fara til heim til Íslands. Hann var 22 ára gamall.

„Í verstu hitunum á sumrin kvaldist ég svo af þorsta að ég drakk hvern vatnsdropa sem ég gat náð í því að það linaði þó hungurkvalirnar augnablik meðan það fyllti magann,“ skrifaði Leifur H. Muller um dvölina í Sachsenhausen „gereyðingarbúðum nazistanna,“ þar sem hann endaði eftir svik annars Íslendings, Ólafs Péturssonar.

Leifur var fæddur í Reykjavík árið 1920, sonur þeirra Lorentz H. Müller og Marie Bertelssen, sem ráku Verslun L. H. Müller í Austurstræti 17. Leifur gekk í Landakotsskóla og fór síðan í gagnfræðadeild Menntaskólans í Reykjavík. Þar sem honum var ætlað að taka við verslun föður síns var hann sendur utan í verslunarnám í Ósló.

Leifur var enn í Noregi þegar landið var hernumið af Þjóðverjum árið 1940. Eftir að Ísland var hernumið af Bretum leit þýska hernámsstjórnin á Íslands sem óvinaland. Lokað var á ferðir á milli þessara landa, en Leifur þráði að komast aftur heim til Íslands. Úr varð að ræðismaður Íslands í Noregi útvegaði honum skólavist í Svíþjóð og lofaði að koma honum þaðan til Bretlands. Síðan ætlaði Leifur til Íslands.

Áður en til þess kom var Leifur svikinn í hendur nasista. Við tók einhver hryllilegasta fangelsisvist sem Íslendingur hefur þurft að þola, fyrst í Grini-fangelsinu í Noregi og síðan í hinum alræmdu Sachsenhausen-fangabúðum í Þýskalandi.

Nauðungarvinna í líkkjallaranum

Í Sachsenhausen var hver dagur var barátta upp á líf og dauða undir járnhæl nasista þar sem hungur, sjúkdómar, pyntingar og dauði voru daglegt brauð. Um 200 þúsund fangar hafi fóru í gegnum fangabúðirnar, af þeim létust á milli 30-40 þúsund fangar.

Stundum voru nasistarnir að grípa í hann í gríni þarna í líkbrennslunni og segja: „Næst tökum við Muller.“

Við komuna í Sachsenhausen var Leifur auðkenndur með númerinu 68138 og merktur með rauðum þríhyrningi sem þýddi að hann var pólitískur fangi, ekki gyðingur. Var honum gert að vinna nauðungarvinnu fyrir nasistana, sem fór meðal annars fram í líkkjallarnaum þar sem hann þurfti að draga gulltennur úr líkum áður en þau voru brennd. „Stundum voru nasistarnir að grípa í hann í gríni þarna í líkbrennslunni og segja: „Næst tökum við Muller.“ Auðvitað varð hann dauðhræddur því víst er að þeir voru alveg nógu brjálaðir til að framkvæma þetta,“ segir dóttir hans, Björg Muller, í Fréttatímanum í dag, þar sem börn Leifs eru í viðtali. 

Leifur hélt dagbók í fangabúðunum og aðeins nokkrum mánuðum eftir heimkomuna hafði hann gefið út bók um dvölina þar. Bókin kom út í september 1945 og er ein fyrsta bókin sem var rituð í heiminum um Helförina.

Sömu áhöld notuð á alla
Sömu áhöld notuð á alla Færi maður í sjúkrahúsið var hinn sami smyrslaspaði notaður við alla sjúklinga, hvort heldur þeir höfðu stór sár eða lítil, hættuleg eða ekki, skrifaði Leifur.

Í fangabúðum nazista hefur nú verið endurútgefin. Við birtum brot úr bókinni:

Sjúkrahúsið

Sjúkrahúsið var yfirfullt svo að fjórir til fimm menn lágu oft í tveim kojum. Sumir voru svo veikir að þeir höfðu ekki þrek til þess að fara fram úr til þess að gera þarfir sínar svo að saur þeirra lenti í kojunum og rann úr þeim efri í hinar neðri. Í sjúkrasölunum lágu oft 70–80 menn, en matarílát voru ekki til handa fleiri en 25–30, svo að þegar svo margir voru búnir var bara hellt í handa þeim næsta án þess að nokkur þvottur færi fram á ílátunum. Þeir sem voru lítið veikir urðu þá einatt að nota sömu ílát og dauðvona menn.

Ekkert langborð var í sjúkrasalnum svo að ílátin voru látin standa á gólfinu meðan súpunni var hellt í þau, en síðan var þeim útbýtt. En meðan þau stóðu á gólfinu, hlupu menn oft fram hjá á leið fram á salernið og það kom fyrir að þeir gátu ekki haldið í sér svo að saurinn slettist um allt, jafnvel ofan í skálarnar. En hjúkrunarliðið var ekki mikið að súta það þótt fangarnir fengju slíkan ábæti.

Saur þeirra lenti í kojunum og rann úr þeim efri í hinar neðri.

Veikin breiddist ákaflega ört út í skála okkar og voru átta til tíu menn fluttir í sjúkrahúsið daglega í heila viku. Tíu þeirra dóu úr veikinni. Ég smitaðist eins og fleiri, en var þó ekki mjög þungt haldinn. Þurfti ég þó að fara fram fimm til sex sinnum á dag og lá mér ákaflega mikið á í hvert skipti.

Það var sérstaklega einn daginn sem ég var mjög slæmur. Fékk ég þá magakrampa svo að ég fór til læknisskoðunar því að ég hélt mig vera að dauða kominn. Þar var mér skipað að gefa „sýnishorn“ af saur mínum til þess að hægt væri að sjá hvort blóð væri í honum, en mér var gersamlega ómögulegt að „gera“ nokkurn skapaðan hlut eftir skipun. Sá sem átti að rannsaka mig rak á eftir mér og sagði mér að vera fljótur því að margir biðu. En ég gat ekkert og var rekinn á dyr með skömmum og svívirðingum.

„Scheiserei“ fylgdi allhár hiti og þorsti eins og ég sagði áðan, en þeim var hættast til að deyja sem gátu ekki neitað sér um að drekka.

Útbrot

Auk „Scheiserei“ voru margir illa haldnir af alls konar húðsjúkdómum og útbrotum. Ég smitaðist af útbrotum sem lýstu sér í því að smáblöðrur hlupu upp á lærum og maga og breiddust þaðan ört út um allan líkamann. Þegar blöðrurnar hjöðnuðu á einum stað komu þær bara annars staðar. Sár duttu á mig í andliti, höku og hálsi. Vildu þau ekki gróa, en ég átti bágt með að þvo mér meðan svona stóð á og gat ekki rakað mig. Þennan fjanda gekk ég með í nærri sex vikur. Læknirinn gaf mér einhver smyrsl og duft, en hvorugt kom að gagni.

 Sár duttu á mig í andliti, höku og hálsi. Vildu þau ekki gróa, en ég átti bágt með að þvo mér meðan svona stóð á.“

Slíkir sjúkdómar voru mjög algengir meðal fanganna, einnig alls konar verkir og bólgur og kýli og hefur þetta sennilega allt stafað af matnum og vatninu. Sumir fengu ljót kýli um allan líkamann og væri stungið á einu, var annað óðara komið í þess stað. Stundum var jafnvel stungið á sama kýlinu sex eða sjö sinnum og það dugði ekki.

Hinn svonefndi „Phlegmone“ var versti verkurinn sem menn fengu. Verk þennan fundu menn um allan líkamann en þó helzt í útlimum. Einn kunningi minn fann til verkjar í öðru augnalokinu. Breiddist hann brátt til sjálfs augans og missti maðurinn sjónina. Oft sást ekkert þar sem menn fundu til verkjar, og varð að gera djúpa skurði til þess að komast að meininu. Örin eftir verk þennan urðu oft svört á lit.

Sýklabæli
Sýklabæli Mikill óþrifnaður var í fangabúðunum og alls kyns pestir gengu á milli manna. Versti verkurinn kallaðist „Phlegmone“. Hann fundu menn um allan líkamann en helst í útlimum. Oft varð að gera djúpa skurði til að komast að meininu. Örin eftir verkinn urðu oft svört á lit.

Mannakjöt?

Þá var mjög mikið vatn í líkama sumra fanganna svo að fætur þeirra stokkbólgnuðu. Var þetta eðlilegt þar sem svo mikið vatn var í mat okkar og feiti fékk maður enga. Eins og ég hef þegar sagt var aðalmaturinn lapþunnt súpugutl, raunverulega lítið annað en kálvatn. Þetta fengum við næstum því á hverjum degi allan ársins hring. Einu undantekningarnar voru aðalhátíðirnar og einstakir sunnudagar og fengum við þá svonefnt „Gullasch“. Var það brún sósa með örfáum kjötbitum – gamlir Úkraínar að sögn.

„Var það brún sósa með örfáum kjötbitum – gamlir Úkraínar að sögn.“

Þótt menn væru stálhraustir þegar þeir komu í fangabúðirnar, en veiktust svo eitthvað, þá voru þeir ævinlega mjög lengi að ná sér. Var þá ekki að sökum að spyrja um þá sem veikbyggðari voru, því að þeir dóu oftast þegar skæðir sjúkdómar gengu í fangabúðunum.

Í verstu hitunum á sumrin kvaldist ég svo af þorsta að ég drakk hvern vatnsdropa sem ég gat náð í því að það linaði þó hungurkvalirnar augnablik meðan það fyllti magann. Við vorum stöðugt varaðir við að drekka ósoðið vatn, og það er hægt að svelta, en ég gat að minnsta kosti ekki gert hvort tveggja, að þjást af hungri og þorsta, svo að ég sinnti ekkert um aðvaranirnar. Ég hugsaði sem svo, annaðhvort þoli ég það eða ekki – það mun tíminn leiða í ljós. Það var líka næsta þýðingarlítið að vera gætinn og sýna varúð í slíku sýklabæli.

Sá á eftir mörgum samföngum
Sá á eftir mörgum samföngum Leifur sá á eftir mörgum samföngum sínum, sem létust annað hvort af sjúkdómum eða voru drepnir. Þeir sem veikbyggðari voru dóu oftast þegar skæðir sjúkdómar gengu í fangabúðunum.

Óþrifnaðurinn

Ábreiðurnar sem voru í fletunum okkar höfðu til dæmis ekki verið þvegnar í tíu ár, síðan fangabúðirnar voru stofnaðar. Þótt maður þvægi sér vel og vandlega, eins og maður hafði vanizt heima hjá sér áður en maður fór að sofa, þá fékk maður strax á sig einhverjar sóttkveikjur jafnskjótt og maður kom við ábreiðurnar og svo varð maður að liggja nakinn vegna hitans í þessu sóttkveikjuhreiðri. Gólfin voru aldrei þvegin. Borðið, sem við smurðum brauðið okkar á, var milli máltíða svart af flugum sem komu flestar utan af salerninu. Af því var bara þurrkað með rakri dulu, sápa var ekki til. Færi maður í sjúkrahúsið var hinn sami smyrslaspaði notaður við alla sjúklinga, hvort heldur þeir höfðu stór sár eða lítil, hættuleg eða ekki.

„Sami spegillinn var notaður við alla tannsjúklinga og aldrei þveginn á milli. 

Væri maður með tannverk var maður fyrst rannsakaður með þeim hætti að litlum spegli var stungið upp í mann til þess að svipast um eftir skemmdum. Sami spegillinn var notaður við alla tannsjúklinga og aldrei þveginn á milli. Þetta eru aðeins örfá dæmi, en nefna mætti ótal fleiri og það kom oft á daginn að þeir dóu fljótast sem ætluðu að vera gætnir og gerðu alls konar varúðarráðstafanir.

„Hann náði sér aldrei“

Leifi var bjargað úr fangabúðunum í mars 1945 og kom til Íslands 7. júlí. Hann mætti algjöru skilningsleysi þegar hann reyndi að segja frá hörmungunum sem hann upplifði í Sachsenhausen – forsal helvítis nasismans, eins og sonur hans, Sveinn Muller, orðaði það í Kiljunni á miðvikudagskvöld.

Sagði hann að faðir sinn hefði aldrei jafnað sig á dvölinni í fangabúðunum. Skömmu eftir heimkomuna greindist Leifur með berkla og alla ævi glímdi hann við ýmis vandamál. „Hann náði sér aldrei, hvorki líkamlega né andlega. Hann var að glíma við þetta alla ævi,“ sagði Sveinn. Sagði hann að faðir sinn hefði mætt mannvonsku af verstu gerð, hungri, sjúkdómum, hengingum og tilraunum á föngum.

Leifur kvæntist, eignaðist börn og tók við verslun föður síns um tíma. Hann lést 24. ágúst 1988, 67 ára að aldri.

Heimsóttu fangabúðirnar
Heimsóttu fangabúðirnar Hér eru þeir Wilhelm Frick, innanríkisráðherra Nasistaflokksins, og Heinrich Himmler, yfirmaður Gestapó og SS sveitanna, í Sachsenhausen fangabúðunum árið 1936. Eftir að stríðinu lauk var Frick dæmdur fyrir voðaverk sín en Himmler framdi sjálfsmorð.

„Íslenski böðullinn“

Maðurinn sem sveik Leif í hendur Gestapó hét Ólafur Pétursson. Hann hafði verið námsmaður í Noregi á sama tíma og Leifur, en var farinn að vinna fyrir leyniþjónustu þýsku hernámsstjórnarinnar þegar hann hafði samband við Leif og bauð honum í kaffi. Þeir þekktust ekki mikið en Ólafur virtist ákaflega forvitinn um hagi Leifs sem treysti honum fyrir því að hann ætlaði til Íslands. Talið er að Ólafur hafi sagt til Leifs sem var í kjölfarið handtekinn, yfirheyrður og færður í fangelsi.

„Ólafur var framseldur til Íslands og sat hann því aðeins í fangelsi í 72 daga.“

Í viðtali við Fréttatímann segir Sveinn: „Ólafur Pétursson var seinna kallaður „íslenski böðullinn“ því tugir manna enduðu í fangabúðum vegna hans og fjöldi þeirra lést.

Ólafur var dæmdur í 20 ára fangelsi í Noregi eftir stríðið sem þótti mjög þungur dómur. Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, beitti sér síðan fyrir því að Ólafur var framseldur til Íslands og sat hann því aðeins í fangelsi í 72 daga. Mér finnst það hreinlega til skammar.“ 

Sá Ólaf á Íslandi 

Árið 1988 skrifaði Garðar Sverrisson bókina Býr Íslendingur hér? „Þetta er ævisaga hans sem hefst í vernduðu umhverfi góðborgara vestur á Stýrimannastíg þar sem Leifur er einn af þeim piltum sem engum kom til hugar að þyrfti nokkurn tíma að hafa fyrir lífi sínu,“  útskýrði Garðar í viðtali við DV þegar bókin kom út.

Í bókinni sagði Leifur frá áhrifum voðaverkanna á allt hans líf. Hann þjáðist af fangabúðareinkennum, svefntruflunum og sálrænum einkennum. „Í fangabúðunum skemmdist maginn líka varanlega þótt ekki sé vitað hvort því olli viðvarandi hungur eða óttinn sem menn bjuggu stöðugt við.“

„Hann reyndi að leiða hjá sér allt sem minnti á nasismann og gömlu martröðina.“

Þar kom fram að Leifur bæri ekki hefndarhug til nasistanna en gæti aldrei fyrirgefið þeim. Það væri svo margt sem gerðist sem hann gæti hvorki gleymt né fyrirgefið.

Hann hefði alltaf ásakað sjálfan sig fyrir örlög sín, því hann hefði trúað öðrum fyrir áætlunum sínum um að fara til Íslands. Hann hefði einu sinni séð Ólaf eftir stríðið en komið sér hjá því að hitta hann. „Honum þótti óþægilegt að hitta menn af þessu tagi. Hann reyndi að leiða hjá sér allt sem minnti á nasismann og gömlu martröðina.“

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár