Það var á venjulegum vinnudegi sem Brynhildur Karlsdóttir var að bora gat í gegnum bensíntank og klippa hvarfakúta þegar augu hennar staðnæmdust á olíupolli sem myndaðist á gólfinu. Olían var svo þykk að hún rembdist við að komast í gegnum rimla skítuga niðurfallsins; áferðin var mjúk og kolsvört og heimurinn speglaðist í ófullkominni mynd. Þetta sumar vann hún í förgun hjá Vöku og sá oft svona polla myndast og í hvert skiptið varð hún jafn hugfangin.
Það eru fjögur ár síðan hún vann á verkstæðinu og líf hennar hefur tekið miklum breytingum, en hún segir að hún sé ennþá heilluð af svona sjónum. „Þegar olía blandast við vatn úti á götu býr það til brenglaða endurspeglun sem er í öllum regnbogans litum. Á sama tíma og maður er meðvitaður um hversu mikil náttúruspjöll þetta eru, þá finnst mér ótrúlega töfrandi þessi fegurð sem skapast í ljótleikanum; fantasían er svo fögur …
Athugasemdir