Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Afi minn og amma mín

Trausti Breið­fjörð og Hulda Jóns­dótt­ir hafa lif­að hátt í hundrað ár en eru hin hress­ustu. Þetta eru Stranda­menn, sem tóku við vita og end­uðu í borg. Jón Bjarki Magnús­son varði degi með afa og ömmu. Krist­inn Magnús­son mynd­aði.

Í einni af mínum fyrstu minningum sit ég í fanginu á afa mínum. Hann ruggar sér fram og aftur á meðan hann flytur vísur af miklum tilþrifum:

Afi minn og amma mín
úti á Bakka búa.
Þau eru bæði sæt og fín
þangað vil ég fljúga.

Í barnshuganum fjallaði vísan um afa og ömmu, þau Trausta Breiðfjörð Magnússon og Huldu Jónsdóttur. Þau bjuggu reyndar ekki á Bakka, en fyrir neðan Sauðanesvita, þar sem afi var vitavörður, var heljarinnar bakki sem lá niður í fjöru, svo þetta passaði allt saman. Í minningunni leikur pönnukökuilmur um húsið. Amma er í eldhúsinu og vitinn baular í bakgrunni. 

Hádegismatur
Hádegismatur Þrátt fyrir að þau eldi sér oftar en ekki hádegismat kemur fyrir að þau panti hann heim. Þá fá þau einn skammt fyrir sig bæði og það er meira að segja afgangur, segja þau í kór.

Í dag búa afi og amma í kjallaraíbúð sinni við Austurbrún í Reykjavík. Þrátt fyrir háan aldur, amma er 94 ára og afi að verða 97 ára, eru þau með hressasta fólki sem ég þekki. Það leikur oftar en ekki pönnukökuilmur um húsið þó að baulið í vitanum sé nú víðs fjarri. Það er fátt skemmtilegra en að sækja þau heim.

Elstu viðskiptavinirnir

Afi og amma eru nýbúin að láta skipta um eldhúsinnréttingu þegar okkur Kristinn Magnússon ljósmyndara ber að garði. Öllu því gamla hefur verið skipt út fyrir spánnýja innréttingu, ísskáp og helluborð með snertitökkum. „Þessi innrétting er smíðuð á Egilsstöðum,“ segir amma og bætir við að skipstjórinn í fjölskyldunni hafi mælt „þetta allt út“ og séð um framkvæmdir. „Þau gáfu það út að við værum elstu viðskiptavinirnir, bæði yfir nírætt,“ segir afi sem talar um heimsmet í þessu samhengi.

Þau eru ekki síður ánægð með nýja samlokugrillið sem þau fengu að gjöf frá dóttur sinni. „Mér finnst þetta nokkuð sniðugt, það er hægt að leggja kjöt og hvað sem er á milli,“ segir afi áður en amma fer að baxa við samlokugerð. „Mér þykir ágætt að slafra pítsunum í mig,“ segir afi en þau amma hafa í seinni tíð vanist á að panta sér stundum skyndibitamat. „Ég ætlaði nú aldrei að læra að borða kjúkling en það er búið að kenna mér það helvíti.“

Áður en ég veit af liggja ilmandi samlokur á borðinu. Amma bendir á að þau panti sér stundum heitan heimilis­mat í hádeginu en þá fá þau sér einn rétt í sameiningu. „Það getur bara verið ódýrara en að vera að elda eitthvað sjálf.“ Þá pantar hún stundum vörur úr búðinni Rangá í nágrenninu. „Þá hringir maður bara og hann kemur með vöruna. Við höfðum náttúrulega bíl hér áður fyrr og gátum keyrt sjálf til þess að versla, það var öðruvísi.“

Boccia og fótsnyrting

Afi og amma eru Strandamenn og stoltir sem slíkir. Á síldar­árunum bjuggu þau á Djúpavík á Ströndum en árið 1959 tók afi við starfi vitavarðar á Sauðanesi við Siglufjörð þar sem þau ólu upp sín sex börn. „Það var enginn 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár