Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Fæðingarsaga bókaknippisins míns – gjöf til góðra lesenda

Fæðingarsaga bókaknippisins míns – gjöf til góðra lesenda

Allir lesendur vita hversu mikilvægt það er að eiga aðra góða lesendur að vinum. Til að geta rabbað við þá um bækur, sögur, hugmyndir. Til að fá frá þeim ábendingar, meðmæli. Til að njóta félagskapar annarrar manneskju sem les mikið – forvitins og frjós huga.

Amma mín var einn slíkur, og sannarlega einn af mínum albestu vinum. Hún lést fyrr á þessu ári, í mars. Við vorum vön að skrifast á þegar ég var fjarri góðu gamni (búsettur erlendis) og ræða endalaust saman yfir neskaffi þegar ég var á Íslandi. Um lífið og tilveruna – en einkum þó um bækur.

Eftir að hún kvaddi okkur fór mig að langa til að senda henni einhvers konar þakkarkveðju. Góðir lesendur vita að dauðinn er ekkert til að óttast. Allt er breyting hvort sem er; umskipti. Amma, sem hét Margrét Norland, býr ennþá innra með mér. Vinátta okkar – og röddin, svipbrigðin, taktarnir. Ég var leiður, en líka glaður yfir því sem við höfðum deilt hvort með öðru.

Fyrst fékk ég þá hugmynd að gefa út, í afar takmörkuðu magni, litla bók tileinkaða ömmu. Upplagið yrði einungis 88 eintök – eitt fyrir hvert ár sem hún lifði. 

Ein bók, hugsaði ég. Hmm. Það nægir samt varla. Hún var svo mikill lestrarhestur, vön að spæna sig í gegnum bók á hverjum degi.

Svo að ég hugsaði – hvers vegna ekki að gefa út fleiri en eina bók? Þrjár bækur?

Eða jafnvel ... fimm

Og það varð úr. Fimm bækur. Allar seldar saman í einni samloku.

Eftir því sem það komst mynd á bækurnar og ljóst var að þær yrðu afar fallegar, stækkaði upplagið og fór langt fram úr upprunalegum áformum. Þannig eiga draumarnir líka að þróast. Þeir stækka upp úr öllu valdi.

Hvert knippi er hnýtt saman með snæri – lítill böggull til að opna – og gjöf til bókarinnar sem efnislegs fyrirbæris, til góðra lesenda á borð við ömmu.

Ég hef hitt býsna marga rithöfunda. Þeir eru flestir yndislegir. En upp á síðkastið vekja þeir æ minni áhuga hjá mér. Það eru lesendurnir sem mig langar að hitta. Og þá er ég að tala um alvöru lesendur – fólk sem les mikið. Því góðir lesendur eins og amma eru ekki aðeins jafn mikilvægir og góðir rithöfundar – þeir eru ennþá mikilvægari. 

Hér má lesa sér frekar til um bókaknippin. Hinir alhuguðustu geta meira að segja pantað sér eitt slíkt og fengið heimsent.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni