Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Fyrsta ástarjátning mín til bókarinnar

Ég gef alltaf lifað svolítið fyrir bækur: sögur, hugmyndir, orð. Fyrsta ljóðið mitt orti ég (er mér sagt) fimm ára gamall. Það var vitaskuld ort undir hexametri, forngrískum bragarhætti. Ellefu ára var ég svo kominn í bissness og framleiddi sjálfur heimagerðar bækur í jólagjafir. Ég valdi þetta hlutskipti ekki beint en að sama skapi hefur mér aldrei fundist ég eiga að gera nokkuð annað. Þetta er á vissan hátt fötlun.

En ég fagna þessari fötlun. Ég held að með því að lesa og skrifa bækur (NB: góðar bækur) lærum við að sjá heiminn. Ólíkt því sem gerist á interneti samtímans, þar sem við erum alltaf skráð inn undir eigin nafni sem notendur – og neytendur –, tekst okkur að flýja eigið sjálf eitt andartak á meðan við lesum (og skrifum). Sá sem les bók heitir ekkert á meðan. Lesandinn er nafnlaus og gott ef ekki kynlaus líka. Fyrir vikið stækkar sjálfið og styrkist: það hleypir að sér nýjum röddum, hugmyndum, reynslu. Þetta þekkir hver lesandi (og rithöfundur). Og bækur eru ekki ávanabindandi á neikvæðan hátt, eins og til dæmis samfélagsmiðlarnir. Þær eru vissulega ávanabindandi, en ekki þannig að þær skerði athyglisgáfuna. Þær efla hana. Stækka heiminn okkar.

Þetta er það öfugsnúna við „upplýsingabyltinguna“ svokölluðu: á vissan hátt hefur hún smækkað veröld okkar. Aftengt okkur – bæði frá náttúrunni og hverju öðru. Hún breytir öllu í síma – myndir – og öllum í sömu manneskjuna. Upplýsingaflóðið hneppir okkur inn í veröld sem virðist vera óendanlega flókin og margbrotin, en er það í rauninni ekki. Það er veröldin allt í kringum okkur, utan skjásins, sem er miklu flóknari og ríkari af upplýsingum.

Bækur koma okkur aftur í samband við okkur sjálf, og annað fólk. Og þær eru enn fremur vistvænasti orkugjafi samtímans. Þegar ég er þreyttur eftir að hafa verið önnum kafinn við eitt og annað, tek ég mér við alltaf fyrsta tækifæri kærkomna pásu, skil símann og önnur raftæki eftir heima og sest einn á kaffihús með ekkert nema bók, minniskompu og penna. Samstundis hleðst ég aftur upp af orku. Ég hitti aftur fyrir sjálfan mig. Hugmyndirnar taka aftur að suða í kollinum. Heimurinn stækkar að nýju. Og ég byrja aftur að skrifa…

Um nokkurt skeið hef ég verið að brjóta heilann um hvað ég gæti gert til að hampa bókinni aðeins. Mér leiðist stundum hvernig fjallað er um bækur í samtímanum. Ritdómum fækkar og fjölmiðlar fjalla mest um þær sem markaðsvöru (Arnaldur Indriðason hefur nú selt svona mörg eintök á Spáni og svo framvegis.). En það er ekki umfjöllun um bókmenntir, heldur markaðinn. Hver ætlar að tala um inntak bókanna? Hver ætlar að bera bókina inn í framtíðina?

Ég, og vonandi fleiri.

Niðurstaðan hjá mér í þetta skiptið var á þessa lund: Ég ákvað að gefa í haust út fimm bækur á einu bretti. Þær heita Erfðaskrá á útdauðu tungumáli, Heimafólk, Hið agalausa tívólí, Manneskjusafnið og Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst. Þær eru seldar saman í samloku á markaðsverði einnar nýrrar íslenskrar skáldsögu. Þetta er ástarjátning til bókarinnar, tungumálsins, hugmyndanna. Þetta er ekki markaðsaðgerð, heldur lofgjörð til bókarinnar sem efnislegs fyrirbæris. Eftir því sem ég kemst næst er þetta fyrsta bókasamlokan í sögu íslenskra bókmennta. (Megi þær verða fleiri.)

Ég mun segja aðeins betur frá bókunum hér, næstu daga. Ekki líta á þetta sem auglýsingu fyrir bækurnar – og þó: þú mátt að sjálfsögðu panta þær – heldur frekar hugleiðingar höfundar til hugsanlegra lesenda. Það er jafnan þannig þegar ég lýk við að skrifa bók að það er margt, sem tengist tilurð þeirra, sem brennur á mér. Og gengur lífið ekki út á þetta: að tjá það sem maður er að hugsa til þeirra sem vilja hlusta?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu