Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Takk fyrir landkynninguna

Takk fyrir landkynninguna

Það var að renna upp fyrir mér núna áðan að Björk Guðmundsdóttir er frægasta íslenska konan.

Og þetta er frægasti íslenski karlmaðurinn.

Það rann upp fyrir mér þegar ég útskýrði fyrir japönskum kunningja að þrátt fyrir fréttir um pólitíska spillingu væri Ísland ennþá öruggt land að heimsækja. (Þú heldur að ég sé pirraður út í þig Simmi, bíddu þar til þú heyrir frá samtökum ferðaiðnaðarins).

Ég hafði líka heyrt í frönskum vinum daginn áður sem ítrekuðu spurninguna:

„Já, en í alvöru, er Ísland í alvöru svona spillt?“

Þeir áttu erfitt með að trúa því, en ímynd þeirra af landinu og kannski af mér var varanlega breytt. Það sorglega var að margir þeirra höfðu talað fjálglega um hvernig Íslendingar sögðu nei við alþjóðlega bankakerfið, og skrifuðu sína eigin stjórnarskrá, og konur stýrðu öllu landinu eftir hrunið, og landið væri það umhverfisvænasta í heimi . . .

Ég hafði verið að leiðrétta þessa litlu misskilninga. „Tja, að vísu staðfestum við aldrei þessa nýju stjórnarskrá, og bankakerfið var algerlega endurreist . . .“ án árangurs. En nú, eftir Sigmund, þá hefur loksins tekist að stimpla því rækilega inn hjá þeim að Ísland er grútspillt.

Og þetta minnir mig á það þegar ferðamenn lýsa íslenskum karlmönnum sem lubbum og lúðum, en kvenfólkinu sem einhvers konar stórfenglegum þokkagyðjum. (Sú ímynd er fengin með einhverju móti ... kannski geta íslenskir karlmenn sjálfum sér um kennt, a.m.k. að hluta til með hvernig þeir vörðu atkvæðum sínum).

Blaðakonan og rithöfundurinn Friðrika Benónýs skrifaði samt ágætis status um að þessi  ímyndarvandi sé langt frá því að vera jafn mikilvægur og allt hitt:

Þessi ímynd er að sjálfsögðu ekki aðalvandamálið. Þetta er pínu alka-syndróm, sem er svolítið sterkt í þjóðarsálinni, að vandamál eru sópuð undir gólfið þegar gestir eru í grennd. Og eiginlega engin vandamál til nema þau sem gestirnir uppgötva.

Lausnin er ekki önnur Inspired by Iceland herferð. Internetið myndi til að byrja með draga okkur sundur og saman í háði, hver einasti maður í dag getur klippt saman stutt vídjó eða myndir sem opinbera kjánalegar PR-brellur. Að svara með eldfjöllum og smáhestum væri bara hlægilegt.

Lausnin er til langframa að lofa okkur sjálfum að kjósa aldrei nokkurn tímann aftur mann eins og Sigmund.

Ekki kjósa mann sem segir hvað sem er, hvenær sem er, bara svo hann gæti orðið forsætisráðherra. Ekki kjósa framsókn. (Þið hin í flokknum gætuð kannski prufað að stofna ný hagsmunasamtök fyrir bændur ... )

Aðalatriðið, eins og Björn Ingi orðar það í frægu myndbandi, er að við þurfum að hætta að kjósa spillta pólitíkusa. Ferðafélagar Sigmundar með honum í stjórn eru engu skárri og það vitum við öll, og meira um það síðar. (Meðan ég man, sjáið bara hvernig internetið hæðist að lélegri PR-mennsku).

Takk fyrir landkynninguna Sigmundur. Svona í alvöru, takk:


P.S.
Trúir því einhver núna, sem hefur horft á viðtalið við Sigmund að hann hafi verið í doktorsnámi í Oxford? Ég veit að þessi lygi hans er hvít í samanburði við aðrar, en kræst, hvernig datt einhverjum í hug að trúa þessari steypu?

P.P.S.
Lausnin felst í því augljóslega að annað hvort gera Hönnu Birnu að forsætisráðherra svo að ímynd íslenskrar kvenþjóðar verði líka rústuð á alþjóðavettvangi, og kynjajafnrétti kemst í ímyndarmálum.

... Eða við klárum að samþykkja nýja stjórnarskrá, tvöföldum skattaeftirlit á landinu, ráðum sérstakan skattrannsóknarstjóra, og kjósum hæft fólk á þing. (Ég veit ... ég veit ... það er einfaldara þetta með Hönnu Birnu).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu