Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Segðu af þér

Segðu af þér

Ég trúi því ekki að við eigum eftir að þurfa aðra búsáhaldabyltingu. Ég bara trúi ekki að fólk eigi eftir að þurfa að hanga fyrir utan alþingi næstu daga og nætur til að fólk geri það sem er sjálfsagt og augljósast í stöðunni.

Sigmundur Davíð ætti að segja af sér þó ekki væri nema til að spara peninginn sem felst í því að þrífa skyr úr löggubúningum, fyrir utan þá tillitsemi sem felst í því að þurfa ekki að kalla út öryggissveitir, reisa risavaxið grindverk.

Þetta endar eflaust piparúða framan í einhvern. Gott ef ekki handtökum og handleggsbrotum eins og síðast.

Er ekki bara hægt að sleppa þessu í þetta sinn?

Hvort viljum við að BBC, Guardian og allir þessir alþjóðafjölmiðlar skrifi eftirfarandi fyrirsögn:

„Iceland PM resigns.“

eða

„Iceland PM finally resigns after month of internal turmoil, and clashes on the street.“

Fyrir utan allt hitt. Vanhæfið, vantraustið . . . grun um hrein og bein lögbrot.

Sendið út fréttatilkynningu strax í fyrramálið að forsætisráðherra hafi sagt af sér, Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal og Illugi Gunnarsson dragi sig í hlé (Illugi, við munum alveg ennþá eftir þínum skandal), og gengið verði til kosninga.

Skipið utanþingsstjórn sem sér um ríkisreksturinn næstu mánuði. Klárum að kjósa um nýju stjórnarskrána, alþingi og forsetann í einum stórum kosningum.

Það er besta leiðin framundan.

Eiginlega sú eina.

En fyrst þarftu, kæri forsætisráðherra að segja af þér.

Segðu af þér plís, ef þér er annt um íslensku þjóðina, ef þú einhvern tímann meintir eitthvað af því sem þú sagðir einhvern tímann.

Ég verð að játa að ég er orðinn býsna þreyttur á þessu.

 

P.S.
Ég veit ekki hver á heiðurinn af þessari mynd. Takk samt fyrir að gera hana.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu