Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Ólafur getur tapað

Ég er pínu hissa á núsitjandi forseta að taka þennan sjéns. Eftir tuttugu ára valdasetu myndi maður ekki vilja enda sem eini forsetinn sem tapaði kosningu.

Hann gæti tapað. Ég er ekki að segja að það sé auðvelt eða sennilegt. En ég segi ykkur fullum fetum, í fyrsta sinn í sögu Íslands er möguleiki á því að sitjandi forseti tapi.

Gamlir stjórnmálaspekúlantar munu segja ykkur að enginn verði forseti án stuðnings eða blessunar framsóknar og vísa þar til Kristján Eldjárns og Ásgeir Ásgeirssonar, líkt og árið sé 1968. Fjölmennasta kynslóð Íslendinga hefur þó vaxið úr grasi síðan þá og stefnir rakleiðis á elliheimilin. Það er ekki árið 1968.

Núsitjandi forseti þekkir þessa kynslóð vel, hann tók þátt í að ala hana upp, fyrst sem ungur spyrill í sjónvarpi, síðan sem háskólaprófessor. Hann tilheyrir sjálfur annarri kynslóð, fæddur 1943. (Það er eitthvað merkilegt við þessa tölu, að Ísland skyldi ekki enn hafa átt forseta sem er fæddur á lýðveldistímanum).

Núsitjandi forseti þekkir hinsvegar ekki kynslóðirnar sem komu á eftir eins vel. Hann óttast breytingar og talar um nauðsyn á festu og stöðugleika. Skilur hann unga fólkið á internetinu og hvað það ætlast til af stjórnmálafólki varðandi gagnsæi og heiðarleika?

Fólk hefur aldrei verið minna að kalla eftir festu. Enda fastir liðir eins og vanalega komnir út í hafsauga (til Tortóla og Seychelles). Fólk vill gjarnan sjá nýja stjórnarskrá sem tekur fast á ákveðnum hlutum:

Hvernig þjóðin geti sjálf virkjað málskotsréttinn án manna með litla öryggisventla.

Hagsmunaskráningu valdamanna. (Grein 50 í nýju stjórnarskránni er mjög fín, og kemur í veg fyrir að hvert og eitt þing breyti reglum um hagsmunaskráningu þingmanna, að fenginni reynslu er ágætt að hafa smá festu í því).

Að lokum eru góð ákvæði um auðlindir í þjóðareign, skýr mörk milli þingræðis og framkvæmdarvalds . . . og reglur sem tryggja að forseti þurfi meirihluta atkvæða til að vinna kosningar.

En þarf stuðning framsóknar til að vinna? Ég er nú ekki viss um að það sé sá stuðningur sem ég myndi sækjast eftir í framboði. Ólafur nýtur hans, fulls stuðnings frá forsætisráðherra sem nýtur fulls stuðnings 5% þjóðarinnar.

Traust til Ólafs er hátt, yfir 50%, en allir málsvarar hans koma úr röðum óvinsælustu og vantreystustu stjórnmála-afla landsins um þessar mundir. Hann er forseti núsitjandi ríkisstjórnar sem er sú óvinsælasta í sögu lýðveldisins frá ekki bara sjálfstæði, 1944, heldur fullveldi 1918. Meira að segja Ólafur man ekki svona langt.

Er víst að hann átti sig á hversu gríðarlega stóra áhættu hann hefur tekið með pólitíska arfleifð sína? Snjall mótframbjóðandi þarf bara að mála hann sem guðföður Sigmundar Davíðs og besta vin fjármálaelítunnar.

Sem hann er.

Þetta er ekki einu sinni kjördæmaleikur þar sem tryggt er að Skagafjörður og Egilsstaðir skili inn föstum þingmönnum. Eitt atkvæði er eitt atkvæði og hver næsti forseti er ræðst allt eins í sendiráðum erlendis og það gerir út á landi. (Eru ekki brottfluttir Íslendingar fjölmennasta kjördæmið?) 

Sennilega ráðast kosningarnar þó í Grafarvoginum.

P.S.

Ég er ekki að segja að tap Ólafs sé líklegt. En það er ekki ómögulegt. Ekki örvænta strax. Ykkar atkvæði skiptir máli, þið þurfið bara að nota það.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni