Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Og gleymum ekki heldur Nagasaki

Og gleymum ekki heldur Nagasaki

Það eru núna sjötíu ár síðan kjarnorkusprengjum var í fyrsta og vonandi seinasta sinn varpað á almenning. Þann 9. Ágúst 1945 var seinni sprengjunni sleppt fyrir ofan norðurbæ Nagasaki en það var í raun röð tilviljana sem ollu því að sú borg varð fyrir þeirri ógæfu. 

Sprengjuárásinni var flýtt um fimm daga því veðurspá var óhagstæð. Miklir stormar voru í vændum og mikið lá á að sýna vald Bandaríkjanna að mati forsetans, en líkast til hefði Japan gefist upp ef beðið hefði verið örlítið lengur. Skotmarkið var bærinn Kokura.

Já, Kokura. (Hafiði ekki heyrt um Kokura? Ekki ég heldur fyrr en ég fletti þessu upp og þó hef ég gráðu í Japönsku). Flugvélin með sprengjunni Fat Man flaug yfir bæjinn en sá hann ekki fyrir þoku svo ákveðið var að stefna á vara-skotmarkið: Nagasaki.

Það var því gráglettni örlaganna eða veðurguðanna eða bara bölvuð óheppni sem gereyddi norðurhluta Nagasaki. Eitthvað hefur stjórnendum Kokura grunað að væri í vændum því þeir brenndu mikið af kolum einmitt í þeim tilgangi að auka á þokuna. Flugvélin fór þrisvar yfir sjálfan bæjinn en sá ekki verksmiðjurnar og sneri því við í suðurátt. Það var mjög skýjað og það leit allt út fyrir að Nagasaki hefði sloppið ef ekki hefði verið fyrir að einmitt klukkan 11 um morguninn þennan dag, rétt áður en flugvélin þurfti að snúa aftur sökum bensínskorts, sem því miður birti til. Og með skotmarkið í augnsýn var lúgan opnuð og sprengjunni sleppt.

Sem betur fer er borgin í miklu fjalllendi og þar sem sprengjan lenti í Urakami-dalnum slapp miðbær Nagasaki að mestu við sprenginguna. (En þó ekki geislunina). Mitsubishi-vopnaframleiðslan var eydd, en það kostaði eitthvað á bilinu 22 til 75 þúsund dauðdaga. (Tölurnar eru enn umdeildar). 

Nagasaki er einn fallegasti staður sem ég hef heimsótt og ég þyrfti að skrifa um borgina af einhverju skemmtilegra tilefni á þetta blogg. Í gamla miðbænum eru ótrúlegar raðir af búddískum hofum, sjarmerandi steinbrýr, gamalt hollenskt og kínverskt hverfi, en Nagasaki var í þrjúhundruð ár eina borg Japans þar sem útlendingar voru leyfðir. Íbúar Urakami höfðu meira að segja tekið upp kristna trú þegar portúgalskir kaupmenn komu þangað á sextándu öld og haldið henni leyndri (og þolað ofsóknir) þar til hún var leyfð aftur 1873. Þá reistu þeir stærstu kirkju í Asíu þess tíma, þar til hún hrundi í sprengingunni. 

Frá miðbænum upp í fjöllin er sporvagnslína og ég elska allar borgir sem hafa sporvagna undantekningalaust. En sporvagnalínan endar upp í Urakami-dal og það verður alltaf pínu þungbært að hugleiða hvað gerðist þar þegar maður stendur í grænu grasi minningargarðsins og horfir í átt að kaþólsku kirkjunni sem þrátt fyrir allt var endurreist. Vonandi ber okkur gæfa til þess að kjarnorkusprengja verði aldrei aftur sprengd og ef einhver einhvern tímann ætlar sér að fljúga með eina af stað megi hann þá villast í þokunni og stranda bensínlaus langt frá byggð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni