Mesta hræsni allra tíma?

Lof mér að segja ykkur sögu tveggja kvenna.
Ein konan studdi stríð byggt á lygum. Þótt ég væri einungis unglingur á Íslandi var lygafnykurinn af fullyrðingum Bush og Blair augljós, það voru engin gereyðingarvopn í Írak og það vissu allir. Þar með talið þessi kona sem þá var fyrrverandi forsetafrú, nýorðin öldungardeildarþingmaður.
Önnur kona fór að berjast í þessu stríði. Hún hafði ekki val um það, hún fór engu að síður en blöskraði lygarnar og blekkingarleikinn í kringum stríðið. Á endanum opinberaði hún stríðsglæpi sinnar eigin þjóðar, myndbönd þar sem skotið var á óbreytta borgara sem komu til að hjúkra fórnarlömbum úr skotárás. Nokkrir Íslendingar eins og Birgitta Jónsdóttir, Kristinn Hrafnsson og fleiri tengdir Wikileaks áttu þátt í að opinbera þennan leka fyrir almenningi og eiga þakkir skilið fyrir það.
Chelsea Manning fékk þó engar þakkir. Hún fór í fangelsi, margra mánaða einangrun þar sem níðst var á henni og hún niðurlægð á kerfisbundin hátt. Henni var haldið í einangrun í 10 mánuði þrátt fyrir að hafa komið upp um yfirhilmingu á stríðsglæpum og fjöldamorðum.
Á sama tíma var Hillary Clinton orðin utanríkisráðherra. Hún notaði einkatölvupóst fyrir leynileg-skjöl sem var að mati FBI vítavert gáleysi með leynilegt efni. Manning var ákærð einmitt fyrir það, auk 20 annarra atriða. En Clinton var ekki kærð, þrátt fyrir að hún stundaði þetta til að hylma yfir vafasöm samskipti við styrktaraðila. Um það leyti sem Chelsea Manning reyndi að fremja sjálfsmorð í fangaklefa sínum og Bandaríska ríkið neitaði lögfræðingi hennar um að komast í samband við hana, þá var Hillary Clinton að tryggja sér stöðu sína sem forsetaframbjóðandi Demókrata og FBI tilkynnti að hún yrði ekki kærð fyrir hvernig hún fór með leyniskjöl.
Ríkisvaldið í Washington hefur á undanförnum árum refsað af mikilli hörku þeim sem verða uppvísir að upplýsingaleka, hvort sem það er vísvitandi eða óvart. En þrátt fyrir að rúmenskir hakkarar hafi komist í póst hennar frá tíma sínum sem utanríkisráðherra verður Clinton ekki kærð.
En hvers vegna notaði Clinton ekki opinbera póstfangið og kom sér í þessa stöðu? Það er erfitt að segja til um það því aðstoðarmenn hennar eyðilögðu gagnageymsluna með tölvupóstum frá tíma hennar sem ráðherra. Við munum aldrei vita algerlega hvaða samskiptum hún átti í og hvort hún notaði embætti sitt til pólitískra greiða. (Fyrir utan það sem stendur í hinum póstunum sem urðu eftir).
Hillary Clinton verður sennilega næsti forseti Bandaríkjana en Chelsea Manning verður sennilega í fangelsi næstu 30 ár. Er þetta mesta hræsni sögunnar?
Við verðum að gera allt sem við getum til að náða hana. Ég bind ekki miklar vonir við að Obama eða Clinton geri það, en það má setja pressu á það. Íslenskir þingmenn og ráðherrar mættu vera vinir sem til vamms segja og benda fólki í svipuðum stöðum í Bandaríkjunum á að til lengdar borgar svona hræsni sig ekki.
Athugasemdir