Jakkafötin á Bessastöðum
Ég verð að koma út úr skápnum og játa að mér finnst íslenska forsetaembættið kjánalegt og íslenska stjórnarskráin alltof óskýr um eðli þessa embættis. Og reyndar frekar léleg, enda hafði engin hana í hávegum fyrr en búið var að gera drög að nýrri með ákvæði sem tryggir að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot einkaaðila af náttúruauðlindum. (Andstaðan við frumvarp stjórnlagaráðs snýst fyrst og fremst um að tryggja að Íslendingar fái ekki sinn skerf af sölu á orku og kvóta).
En um þessa hluti er ekki verið að kjósa í forsetakosningum. Þessar forsetakosningar snúast um hver hefur hugrekkið til að kjósa Elísabetu Jökulsdóttur og hverjir vilja halda sig við mennina í jakkafötum. (Ef einhver finnst ég sniðganga Höllu með þessum orðum, þá má hafa í huga að konur eru líka menn og dragt er líka jakkaföt).
Ég hef engan sérstakan áhuga á að níða skóinn af einhverjum jakkafataframbjóðandanum. Enda er ég hallur undir flest það sem Andri Snær segir, ég kann vel við Guðna, og þótt Halla hafi myllustein viðskiptaráðs um hálsinn þá er hún að segja hluti sem ég get tekið undir: Já, ný gildi, já, þjóðfundur, já, upplýst umræða fyrir þjóðaratkvæði. Já! Já! Já!
Margir hafa sagt að því miður snúist kosningarnar ekki nóg um hugmyndir eða hugmyndafræði. Þetta mætti reyndar yfirfæra á nærri allar kosningar. Snerust t.d. síðustu alþingiskosningar um framtíðarsýn og góðar hugmyndir, eða snerust þær um fortíðina og meint landráð? Það má reyndar alltaf treysta á flipp-framboðið framsókn að brjóta kosningar upp með loforðum eins og sundlaugagarð (já, actual Björn Inga-loforð), skuldaniðurfellingar, nýja stjórnarskrá (já, actual SDG-loforð), hvítabjörn í húsdýragarðinn og ókeypis handklæði, fíkniefnalaust Ísland og 100% húsnæðislán. Í samanburði er loforð Elísabetar um glimmerregn af himnum ofan og bjölluhljóm frekar hófsamt. En nóg um það.
Mér finnst framboð Elísabetar spyrja einu spurningarinnar sem mér finnst þess vert að spyrja í þessum kosningum: Þurfum við jakkaföt á Bessastöðum eða ættum við kannski að hafa fjós, lýðveldisskóla og 18 konur með kústa?
Er þetta grín-framboð spyrja sumir þá á móti?
Já, já, eða nei. Elísabet hefur sjálf sagt að það framboðið sé ekki gjörningur heldur frelsisboðskapur. Fyrir mér er það uppbrot og mótstaða. En ef fólk vill sjá það sem grín þá er það eitt glerþak brotið í baráttu fyrir kynjajafnrétti (því grínframboð hafa oft frekar mikla karlkynsslagsíðu og týpa eins og Elísabet hefði sennilega aldrei komist upp með að lofa ísbirni í húsdýragarðinn og hreppt borgarstjóraembætti að launum).
Ég vil þó að fólk taki framboðinu alvarlega, enda hef ég þekkt Elísabetu síðan við vorum bekkjarsystkini í Listaháskólanum. Ég hef ekki kynnst mörgum manneskjum sem koma nærri henni í krafti, hvorki sem listamenn eða persónur, óhræddar og óskömmustulegar. Það hljómar kannski svolítið bilað að vilja forseta sem ekki kann að skammast sín. Einhver gæti spurt:
Snæbjörn, er ekki komið nóg af pólitíkusum sem aldrei biðjast afsökunar og aldrei skammast sín?
Svar: Við höfum ekki haft nema pólitíkusa sem skammast sín á Íslandi. Þeir skammast sín allir svo mikið fyrir að hafa gert upp á bak, svikið loforð og svikið skatt, fela allskyns vandamál eins og þunglyndi, alkóhólisma og eflaust í einhverjum tilvikum geðhvörf, að baki grímu sem stundum lýsir sér í skrumskældum brosum, harðri afneitun, forherðingu eða löngum fríum (þið vitið hverja ég meina)... þeir skammast sín svo mikið að þeir geta ekki leitað sér hjálpar, beðist afsökunar, sagt frá vandamálum sínum og við hin dönsum í kring í meðvirkni. Ég held einmitt að það væri hressandi að hafa manneskju sem kunni ekki að skammast sín, og kunni bara að vera hún sjálf.
Já, ég get alveg tekið undir með Guðna um margt, þótt hjarta mitt slái nær Andra Snæ og Höllu varðandi afstöðu til stjórnarskrár. (Í óttalausum kosningum væri baráttan sennilega á milli þessara þriggja ... það er ekki of seint, hafið ekki tekið eftir því að með hverju Morgunblaði sem kemur ókeypis í hús fólks lækkar stuðningur í skoðanakönnunum við manninn sem skrifar nafnlausa róginn í því?Nánast eins og íslenska þjóðin líti ekki á þessar kosningar sem uppgjör við þorskastríðið, heldur frekar Íraksstríðið).
En Elísabet er minn forseti. Hún verður kannski ekki forseti allra í þessum kosningum ef marka má skoðanakannanir. (Sem má marka). Ég er heppinn að hafa hana að vini, og vona að við berum gæfu til þess að velja skáld og öryrkja einhvern daginn á Bessastaði. Af því ef forsetinn á að vera sameiningartákn þá á hann að standa öllum þjóðfélagshópum til boða, líka þeim sem ekki hafa alltaf efni á að kaupa í matinn og þeim sem gangast við því að hafa þjáðst af geðsjúkdómum. (Og Elísabet á þakkir skyldar fyrir að brjóta þetta tabú að tala um það þegar hún á ekki efni á matnum en samt voga sér í framboð). Besta fólkið er yfirleitt það sem þarf að yfirstíga mikil vandamál, Roosevelt í hjólastólnum og Churchill með svarta hundinn. (Bismarck Íslands vill oft bera sig saman við þá tvo, þótt hann eigi meira sameiginlegt með Hoover og Chamberlain ... áts, sagnfræði-burn).
En hver veit, kannski finnum við úr því á þessari öld að skásta stjórnarfyrirkomulagið sé ekki lýðræði heldur mæðraveldi. Kannski gerumst við anarkistar og horfum til himins. Kannski fáum við átján konur á Bessastaði sem láta sig varða andlega fátækt og veraldlega fátækt í stað þess að passa upp á fána og öryggisventla.
Takk fyrir að bjóða þig fram Elísabet. Ég kýs glimmer-regn og bjölluhljóm í þessum kosningum. Ekki gera ekki neitt! (Og þó, kannski ættirðu að gera einmitt það?)
Athugasemdir