Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Listflakk: sofið á sýningum í París og Brussel

Listflakk: sofið á sýningum í París og Brussel

Hvernig list myndu listamenn skapa ef þeir hefðu óendanlegan tíma til að þróa sig áfram? Þetta er spurningin sem Halory Goerger reynir að svara í Corps diplomatique sem ég sá í Nanterre-Amandiers í París í síðustu viku. Sýningin á sér stað um borð í geimfari sem franska ríkið sendir út í geiminn, í upphafssenunni er menningarblaðamaður frá franska ríkisútvarpinu að spyrja geimfarana út í tilgang ferðarinnar og glæsilegt leikhúsið sem er fyrir miðju geimfarsins.

Jú, það er búið öllum tólum og tækjum 20. aldar leikhússins, með ljóskastara og hljóðkerfi, en markmiðið er að senda geimfarana sem fulltrúa franskrar menningar á fund geimvera. (Ef þær fyrirfinnast).

Áætlað er að ferðin muni taka nokkur þúsund ár, en það er lítið vandamál því því farið er sjálfbært, endurnýtir allt vatn og næringu og þegar áhafnarmeðlimir deyja úr elli klónar vélin einfaldlega sama einstakling aftur. (En allir eru leikararnir getulausir).

Með öðrum orðum þetta er ídeal umhverfi til að framleiða list, og metnaðarfullt markmið hópsins að kommúníkera til framandi lífvera 20. aldar samtímaleiklist er fyndið og skemmtilegt konsept.

En því miður er hópurinn ekki nógu frumlegur að öðru leyti. Reynt er að kreista aulabrandara úr aðstæðum, og þótt verkið sá á köflum ádeila á stofnanaleikhús, þá nær það ekki að verða sérlega beitt. (Má vera að ég sé að ergja mig af því ég næ ekki frönskum húmor alltaf). Undir lokin, skapar hópurinn nýtt tungumál og algerlega nýja menningu, því þrátt fyrir allt þá er ekki hægt að viðhalda sömu sýningunni. Kynslóðir gera uppreisn gegn hefðum og skapa sér nýjar hefðir, og þannig verður lokasenan sem á að gera 10 þúsund árum síðar falleg í framandleika sínum (en það hefði mátt gera miklu meira af slíkum tilraunum).

Mun eftirminnilegri sýning var sú sem ég sá aðfaranótt sunnudags. Leikhópurinn Schwalbe sem samanstendur af ungum flæmskum leikkonum setti á svið fimm tíma verk frá miðnætti fram til sex um morguninn. (Fimm tímar af því klukkan breyttist 1:59 og við stukkum beint í 3:00).

Frá miðnætti byggði hópurinn og reif niður sviðsmyndir, áhorfendum var boðið að ganga inn og úr leikhússalnum, fá sér hressingu eða leggja sig á sófanum frammi. Fyrstu tveir tímarnir voru frekar leiðinlegir enda sviðsmyndirnar klassískari og fyrirsjáanlegri, en undir lokin tók framúrstefnan við og í stað veggja, stóla og borða sem hæfðu stofudrama, fengum við skopparabolta, bjórdósir og slatta af reyk. Það getur verið að mig hafi verið að dreyma mestalla sýninguna upp úr 3:00 en það var þó eftirminnilegt.

Það virðist vera svolítið trend að setja upp langa gjörninga sem fást við svefn. Á Kunstens í fyrra sá ég verk þar sem áhorfendur voru hvattir til að sofa helminginn af tímanum, og sjálfur er ég að taka þátt í svipuðum gjörningi í Galerie Planete Rouge sem listakonan Mio Hanaoka setur upp í Maí. Þá mun lítið kollektív útlendinga í París bjóða upp á gistingu í listagalleríinu, svæfa áhorfendur og dansa í myrkrinu á meðan gestir sofa . . . en það er önnur saga sem ég mun eflaust blogga um síðar.

Sjá síðasta listflakk hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni