Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Listamannalaun: Hark

Það er leiðinlegt að vera listamaður í janúar. Umræða um list í janúar er eins og slæm þynnka eftir langt jóla-fyllerí þar sem endalausu lofi hefur rignt yfir listamennina. „Þú ert frábær, gef mér fimmu, gef mér fimm stjörnur,“ hefur listamaðurinn vanist að lesa um sjálfan sig og vaknar viku eftir nýársdag við: „Afæta, elítusnobb, sjálftökufól!“

Íslensk þjóðarsál er eins og tvíklofinn þurs. Allt er frábært og síðan er allt ömurlegt. Það er auðvelt að taka það nærri sér ef maður á annað borð er svo hégómlegur að líta á árás á listina sem árás á sjálfan sig en þá er hollt að muna að það er ekki alltaf alveg rökrétt það sem Íslendingar hatast við, samanber:

„Bókvit verður ekki í askana látið.“

Einungis eitt íslenskt orðatiltæki er heimskulegra en þetta. Að lepja dauðann úr skel. Því ef eitthvað er heimskara en að fyrirlíta menntun þá er það að fúlsa við skelfisk. Í dag erum við smám saman að komast upp á bragðið með humarinn og hvítvínið, þótt við séum ekki alveg búin að taka menntun í sátt. Ef Íslendingar vantreysta einhverju almennt þá er það sérfræðingurinn. En orðtækið um bókvitið og askanna er úrelt, það vita allir að hægt er að nota viðskipta- og lögfræðigráður til að mokgræða. Ef ég ætti að uppfæra málsháttinn og nútímavæða myndi ég hafa hann nokkurn veginn svona:

Enginn verður saddur af listinni einni saman.

Að vera listamaður á 300 þúsund manna málsvæði er hark. Það ætti ekki að koma ýkja mikið út á Íslandi af bókum, sér í lagi í ljósi þess að hér séu hæstu bókaskattar í Evrópu. Í raun er það kraftaverk að svona mikið komi út.

En það er aðallega af því að samfélagið styður við listsköpunina. Það er umdeilt. Umdeildara en nærri öll önnur fjárútlát. Og ég hef margoft tekið það nærri mér. Ekki að ég hafi nokkurn tímann fengið svokölluð „listamannalaun“ (þau heita starfslaun í raun og veru . . . ) heldur þykir mér leitt að lesa og heyra að fólk almennt misskilur eðli styrkjanna og/eða hatast við list almennt.

Listin á að standa undir sér, standa undir sér, er hrópað, eins og Mozart, Shakespeare eða höfundur Njálu hafi nokkurn tímann staðið undir sér. List sem er ríkisstyrkt verður steingeld, steingeld! er hrópað líkt og Broadway-söngleikir og rómantískar gamanmyndir séu einhvers konar ferskt pönk. Það er auðvitað til alls kyns ögrandi framúrstefna sem sprottið hefur fram sem andóf, Beat-nik skáld, pönk hreyfingin og impressjónistarnir áttu ekki upp á pallborðið hjá neinni ímyndaðri valnefnd þess tíma. Og flestir spennandi höfundar á Íslandi þurfa að sanna sig í áratug áður en þeir fá sinn fyrsta þriggja mánaða styrk. Er viðurkenning það sama og gelding? Kannski, en ég hef ekki orðið var við gagnrýnendur starfslaunanna mæta á ögrandi gjörninga, ræða um nýútgefnar ljóðabækur ungskálda, rökræða list á neinu öðru plani heldur en peningalegu.

En svo ég leyfi mér að vera plebbalegur þá skal ég gangast við að vera listamaður. Og játa að ég sé að mestu leyti óarðbær listamaður upp á náð franska ríkisins kominn og örlátra styrkja þeirra til sviðslista. Eins og stendur hafa skrif mín á íslensku hlotið verðlaun, góða rýni, ágætis sölu en skilað mér litlu öðru en harki, harki, harki og svo ásökunum um að vera afæta.

Það hefur verið mikil umfjöllun um styrki til íslenskra listamanna og sér í lagi rithöfunda inn á vísi síðustu viku. Það er gott að skoða menningarstyrki reglulega, en fátt er jafn grandskoðað og þeir, minnir nánast á hjólaskúra sem rísa nærri kjarnorkuverum í samhengi við önnur fjárútlát. Ef þeir hétu verkefnastyrkir til skapandi iðnaðar, myndi enginn fetta fingur út í þá, en starfslaun listamanna hljómar eins og eitthvað sem allir halda að þeir skilji (en átta sig ekki á að séu verkefnastyrkir til mismunandi verkefna). 

Engin óbrjáluð nefnd myndi taka Sjón, Kristínu Steinsdóttur, Gyrði Elíasson eða Braga Ólafsson af starfslaunum. Megi þau vera tíu ár til viðbótar á þeim. Margt sem hefur verið gagnrýnt er samt mikilvægt að skoða. Það er léleg endurnýjun og það er alvarlegt mál. Íslenskur bókmenntaheimur mun óhjákvæmilega skreppa saman ef ungum höfundum er ekki gefinn sjéns. En það er því miður ekki nóg af peningum í pottinum til að tryggja bæði þeim höfundum sem hafa sannað sig og þeim sem eiga eftir að sanna sig sanngjarna meðferð. Það er vandamál sem þarf að laga. (Fyrir utan hvað greiðslurnar sjálfar eru lágar). Sjóðurinn hefur ekki stækkað í hlutfalli við breyttan fólksfjölda og það þýðir að margir af þeim sem ættu að fá styrki eru ekki að fá þá.

Það er leiðinlegt að vera listamaður í Janúar. Manni finnst eins og maður hafi lagt eitthvað fram sem er einhvers virði, en kemst svo annað hvort að því að engin valnefnd vill gefa manni fé til að bæta list sína, eða þá að maður sé afæta og þjófur.

En svo koma jólin á ný.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni