Landkynningin heldur áfram

Ísland heldur áfram að vera athlægi í útlöndum. Le petit Journal er franskur grínfréttaþáttur í anda Daily Show. Áhorfendatölur hans í Desember í fyrra voru ein milljón og sexhundruðþúsund manns. Árinu þar á undan horfðu yfir tvær milljónir Frakka á útsendingu kvöldþáttarins.
Með öðrum orðum þá er þetta gríðarlega mikilvægur fréttaþáttur. Hann er sýndur í Frakklandi, Belgíu og Lúxemborg, og ég efast reyndar ekki um að margir í Sviss horfi á hann í gegnum netið.
Frakkarnir hérna undrast að Bjarni sé enn ekki búið að segja af sér.
Það er eins og þeir hafi ekki skilið útskýringar sjálfstæðismanna á því að eðlismunur sé á stöðu Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs.
Það er líka pínu flókið að skilja þennan eðlismun. Sigmundur átti vissulega í beinum hagsmunaárekstri þar sem konan hans var kröfuhafi í bankana, en þýðir það að fjármálaráðherra geti átt eignir í skattaskjóli? (Og vitum við hvort faðir Bjarna eða frændur hans séu kröfuhafar líka?)
Það sem Frakkar skilja ekki, skil ég ekki heldur. Hvernig getur Bjarni ætlast til þess að hann sitji áfram? Hann er æðsti maður ríkisfjármála, hann er „Skattmann“.
Og hann verður að segja af sér.
P.S.
ef þið viljið vita af hverju íslenskir blaðamenn spyrja aldrei jafn erfiðra spurninga og: „Hvernig dettur þér í hug að sitja áfram?“ þá er það af því þeir njóta ekki sama stuðnings og almenningur veitir blaðamönnum í útlöndum.
Athugasemdir