Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hungurleikarnir

Hungurleikarnir

Í Hungurleikunum eftir Suzanne Collings segir frá ríkinu Panem þar sem ungmenni í lægri stéttum samfélagsins eru látin berjast á móti hvort öðru til dauða í beinni sjónvarpsútsendingu. Í bókaflokknum er þetta gert í tvennum tilgangi, til að sundra samstöðu almennings og til að minna á vald efri stéttarinnar í höfuðborginni.

Almennt er ég Tolkien-megin í lestri mínum á fantasíum og vísindaskáldskap og forðast að sjá líkingasögur eftir megni. En í tilfelli hungurleikanna er það bara of auðvelt. Börn námuverkamanna tólfta fylkisins falla fyrir börnum sjómanna úr fjórða fylki eða eru drepin af landbúnaðarverkamönnum frá ellefta fylki, og þannig tryggir höfuðborgin að íbúar fylkjanna tólf hati hvor aðra. Sum fylki eins og þriðja og fyrsta sem sérhæfa sig í raftækni og skartgripagerð, vinna hlutfallslega oftar, hafa ýmis fríðindi og vilja því halda í kerfið eins og er (þótt það valdi þeim einnig skaða).

Þannig getur vísdómur unglingabókmenntana, eða snemm-fullorðinsáranna (smá rant fyrir neðan um YA í P.S.) komið á óvart. Fáar sögur hafa fangað á jafn-einfaldan máta stærsta vandamáli okkar tíma: misskiptinguna.

Misskiptingin er lúmskt skrímsli. Hún hvíslar í eyrað á þér að óttast þann sem á minna en þú, og hata þann sem þú grunar um að svindli einhvern veginn á kerfinu. Það stíar öryrkjum gegn listamönnum, skrifstofufólki gegn verkamönnum, okkur öllum gegn flóttamönnum, og einhvers staðar í þrepakerfinu sitja millistjórnendur sem telja sér trú um að þeir hafi það fínt. Sem þeir hafa ekki. Meira að segja þeir ríkustu í kerfi misskiptingar hafa það ekki gott því þeir óttast að óstöðug bræði almennings muni fyrr eða síðar beinast gegn þeim.

62 ríkustu einstaklingarnir eru komnir með meiri eigur en helmingur mannkyns. Ríkasta 1% hefur orðið 40% ríkara á síðustu árum á meðan aðrir stóðu í stað. Stór hluti af peningum heimsins eru faldir í skattaskjólum og huldureikningum, í stað þess að vera í umferð, í stað þess að skapa verðmæti . . . og ekki verðmæti eins og dautt plast, heldur verðmæti sem fela í sér tækifæri til framkvæmda, til að bjarga mannslífum, til að skapa menningu og til að dreifa gleði. Sama hversu rík við erum, í heimi misskiptingar erum við öll fátækari.

Það mun koma sá dagur að fólk mun hrista höfuðið yfir því að fólk hafi þurft að sækja um grunn-framfærslu til að geta skapað eitthvað jafn þjóðhagslega hagkvæmt og listasýningu, nýja vöruhönnun eða skáldsögu. Og undrast hversu lítið af peningum ríkustu þjóðir heims eyddu í menntun, önnun aldraðra og örorkubætur. Hvers vegna peningar voru faldir í Sviss, Cayman og Lúxemborg í stað þess að dreifast út um allt samfélagið og gera fólki kleift að gera drauma að veruleika.

Að snúa okkur út úr arðráni síðustu áratuga, bjarga velferðarkerfinu og halda áfram á þeirri framfarabraut sem heimurinn var á þar til afturhaldsöfl náðu aftur vopnum sínum á sjöunda áratugnum verður erfitt. Á heimsvísu er aftur kominn tími á stórar hugsjónir og mikla drauma. Samt ætla ég að víkja nokkrum orðum að grámyglulegum, baunatalningar-veruleika skort-hagkerfisins og nefna listamannalaun. (Sem ég í raun hef ekki meira gaman af að nefna frekar en persónur Harry Potter sjö-leiksins hafa ánægju af að tala um Voldemort, en tíðrætt um líkt og söguhetjurnar í þeim heimi).

Listamannalaun eiga við mörg vandamál að etja, og það minnst alvarlegasta þeirra er val nefndarmanna og úthlutanir.  Ég skrifa núna um ritlaunin, sem hafa verið mest í deiglunni. (Aðallega kannski af því rithöfundar eru þjóð-þekktari heldur en myndlistamenn, hönnuðir og tónskáld og því meiri vinna fyrir fjölmiðla og almenning að setja sig inn í þeirra drama). 

Fyrir það fyrsta er sjóðurinn of lítill og hefur ekki fylgt fólksfjölgunarþróun á Íslandi síðastliðin ár. Það gerir það að verkum að ungir höfundar hafa verið útundan þegar kemur að úthlutunum, sem síðan hefur þau áhrif að færri nýjar raddir bætast inn í bókmenntaflóruna. Endurnýjun er alltof lítil, og forlög þurfa að kljást við sligandi bókaskatt og erfiðar efnahagsaðstæður sem gerir þau áhættufælin. Þannig að yngri höfundar fá ekki bara lítinn stuðning við skrif sín, þeir fá líka fá tækifæri til að koma sér á framfæri, og ég hef alvarlegar áhyggjur af bókmennta-landslagi Íslands eftir rúmlega áratug ef þessi þróun heldur áfram.

Og hvaða sjéns á upprennandi 26 ára gamalt skáld sem hefur gefið út tvær ljóðabækur og þarf stuðning til að klára stóra skáldsögu ef nefndin úthlutar ekki einu sinni Mikael Torfasyni og menn eins og Stefán Máni fá bara örfáa mánuði.

Eins og staðan er í dag getur sjóðurinn ekki stutt bæði Sjón og næsta- Sjón hver sem það kann að vera. Og ég skil vel að hann velji að styðja Guðrún Evu Mínervudóttur, frekar en einhverja annað ungt skáld því hver veit hver næsta Guðrún Eva verður.

Í öðru lagi er styrkupphæðin allt of lítil. 170 þúsund eftir skatta í þrjá mánuði er djók, sem mundi ekki einu sinni vera talið til tekna ef verið væri að taka viðkomandi í lánsmat fyrir sinni fyrstu íbúð. Þjóðmenningarráðherrann hefði betur lagt hálfan milljarð í sjóðinn svo hægt væri að tvöfalda þessa upphæð heldur en að færa grjót til. (Ekki skil ég hvaða vægi grjótið í hafnargarðinum hefur nema það standi á sama stað og það var lagt).

Auðvitað myndi einungis þreföldun duga ef við eigum bæði að styðja vel við bakið á eldri höfundum og yngri, og ég veit að við ælum öll ef ég segi að það sé þjóðhagslega hagkvæmt, mér er skítsama um það. Njála, Laxdæla og Egilssaga, Heimskringla, Kjalnesingasaga, Gísla saga Súrssonar og Gunnlaugs saga Ormstungu voru allar þjóðhagslega óhagkvæmar. Íslenska lýðveldið og íslensk tunga og trampólínið sem þú hefur út í garði eru þjóðhagslega óhagkvæm (og slysagildra þar að auki) en listamannalaun eru það ekki.

En viljir þú afnema launakerfið algerlega, örorkubætur og allt heila klabbið með stjórnsýslulegri einföldun, öðru nafni „borgaralaun“ þá segi ég bara gangi þér vel. Líkt og John Stuart Mill þá hef ég trú á því að sá tími komi að iðnbyltingar leysi okkur öll af hólmi, ég veit bara ekki hvenær nákvæmlega maðurinn verður algerlega frjáls. Það gæti verið að þegar sú stund komi að við áttum okkur ekki á því að allt stritið sé til einskis og að letin verði æðsta dyggð mannkynsins. Reyndar er ég líka til í veruleika á borð við þann sem Gene Roddenberry færði okkur í Star Trek þáttunum, þar sem í stað hedonískrar orgíu einbeitir mannkynið sér frekar að því að kanna leyndardóma alheimsins. M.ö.o. er ég til í hvað sem er til langframa en til skammtíma litið þá held ég að við verðum að líta upp úr skotgröfum Hungurleikanna og átta okkur á því að af sjálfsögðu þurfi örorkubætur að vera hærri, að sjálfsögðu þurfi að margfalda verkefnastyrki til skapandi greina (því hagkerfi nánustu framtíðar mun byggjast á sköpun en ekki hráefnaúrvinnslu). Þeir einu sem hagnast á því að við berjumst innbyrðis um takmörkuð gæði eru þeir sem rændu framtíðinni af okkur og geyma hana á huldureikning einhvers staðar þar sem karabíska sólin skín.

 

P.S.

Young adult sem markaðsetningarhugtak verður eiginlega fyrst til í tengslum við Harry Potter bækurnar. Það þótti ekki smart að lesa barnabók og vera fullorðin manneskja, svo þess vegna var búið til orðskrípið YA (ung-fullorðins). Í sjálfu sér er það ágætt, því það hefur leitt til þess að margir unglingabækur, sér í lagi fantasíur á meðal þeirra, hafa verið teknar alvarlegar en áður. Hugtök eins og furðusögur, hryllingssögur og vísindaskáldskapur geta sagt okkur ýmislegt um innihald sagna (ólíkt ung-fullorðins eða snemm-fullorðins sem segir okkur eiginlega ekki neitt) en það er mikilvægt að hafa í huga að þessar skilgreiningar velta oft frekar á markaðsfræði heldur en fagurfræði.

T.d. eru flestar bókabúðir hættar að flokka Stephen King til hryllingsbókahöfund eftir að sölutölur fóru niður í þeim flokki, og nú eru einungis básar með „reyfurum“ eða „fantasíum&vísindaskáldskap“ sem innihalda hann. Að því sögðu getur verið gaman að þræta um þessar skilgreiningar. Það er ákveðin yfirlýsing fólgin í því að vera ekki að skrifa fagurbókmenntir og sér í lagi ekki „borgaralegar fagurbókmenntir.“

P.P.S.

Það er búið skrifa heilu armslengdirnar af færslum og bloggum um armslengdir. Eins og oft áður þá held ég að gagnrýni á nefndina skili umbótum, gagnrýni á bágan hlut barnabókahöfunda leiddi til þess að Gunnar Helgason og Þorgrímur Þráinsson fengu styrki í fyrsta sinn í langan tíma, umfjöllun morgunblaðsins um litla endurnýjun ungskálda sýnist mér hafa aukið framlög eitthvað til ungskálda yfir þrítugu og ungskálda um fertugt. 

Stundum finnst mér eins og við festum okkur í strámenni og nettröll í umræðunni. Listamenn eru svo hræddir við fallöxi frjálshyggjunnar að þeir þora ekki að ímynda sér öðruvísi kerfi, öðruvísi ferli, öðruvísi eitthvað, eða gagnrýna úthlutanir, af ótta við að fóðra skrímslið. En slíkt verður einungis að skoðanakúgun og sjálfsritskoðun á meðal þeirra sem gætu haft eitthvað til málanna að leggja, það er óþarfi að hefja hvern pistil og hvern blogg á því að rifja upp að list og menning sé einhvers virði. Það er sóun á tíma okkar allra. Í næstu viku verða nettröllin hvort sem er farin að agnúast aftur yfir raðnauðgandi hryðjuverkamönnum sem stunda tryggingasvindl (eða líkast til finna sig knúna til róttækra aðgerða út af nýjustu status-uppfærslu Hildar Lilliendahl).

P.P.P.S.

Andri Snær væri flottur forseti. Ef hann fær einhvern tímann leið á því að fólk væli yfir listamannalaunum hans þá getur hann skipt um grátkór. (Því hverjum finnst ekki umræðan um eftirlaunin hennar Vigdísar Finnbogadóttur skemmtileg?). Ég hins vegar er svo mikill hipster að ég er ekki farinn að styðja manninn sem gerði náttúruvernd á Íslandi kúl, heldur styð konuna sem var náttúruverndarsinni áður en það var kúl. Hún ætlar líka að opna pósthús á Bessastöðum svo krakkar úti um allan heim geti skrifað til forseta Íslands eins og jólasveinanna.

P.P.P.P.S.

Sjáið myndina sem fylgir greininni. Þetta er frekar huglaus úthlutun listamannalauna verður að segjast. Halldór Laxnes fær laun ári áður en hann fær nóbelsverðlaun. Tómas Guðmundsson og Davíð Stefánsson eru þarna orðnir gamlir menn og eiga ekki eftir að skrifa margt. Sá sem orti bókina Svartar Fjaðrir á skilið starfslaun til æviloka að mínu mati, en þarna sést samt bersýnilega hvað gerist þegar menning er undir stöðugum pólitískum árásum. Nefndin er augljóslega of hrædd til að taka einhverja sjénsa og styður einungis gamla karlmenn til góðra verka. Gamla karlmenn sem gerðu það gott og munu eflaust gera góða hluti í framtíðinni, en það er einstaklega sorglegt að þessi nefnd skildi ekki hafa verið að styðja ungu höfunda sinnar samtíðar. Jakob Thorarensen og Guðmundur G. Hagalín eru jafnvel enn eldri heldur en Laxnes. Svo má velta fyrir sér hvað Ásgrímur og Kjarval áttu enn ómálað á þessum tímapunkt. (Eflaust nokkur góð verk, en ég segi nú samt, hvar er t.d. Svavar Guðnason? Þetta er glötuð úthlutun, en aðallega af því hún gerir lítið til að láta kökuna stækka og það vafalaust út af pólitísku hugleysi þess tíma).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni