Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hættum að sprengja, byrjum að hugsa

Hættum að sprengja, byrjum að hugsa

Geðveiki er að gera sama hlutinn aftur og aftur og búast við annarri niðurstöðu.

Í gær las ég tvær hrikalegar fréttir. Annars vegar eina á Stundinni um líffæraþjófnað á flóttamönnum. Hvernig flóttamenn sem reyndu að komast yfir miðjarðarhafið en áttu ekki fyrir skuldinni þegar þeir komu að landi voru drepnir svo selja mætti líffærin. Með greininni fylgdu hrikalegar myndir af börnum sem höfðu verið skorin upp og gátu ekki annað en fengið mann til að kúgast.

Síðan rétt áður en ég fór að sofa í gær heyrði ég skyndilega mikil læti hjá nágrannanum sem bölvaði yfir einhverju í sjónvarpinu. Það var skrítið því það var enginn fótboltaleikur í gangi og Frakkland löngu búið að tapa fyrir Portúgal, en það skýrðist þegar ég opnaði fréttasíður og sá hvað hafði gerst í Nice.

Rétt áður en ég sofnaði höfðu 60 manns látið lífið, þegar ég vaknaði var talan komin upp í 80. Það er þá þriðja stóra hryðjuverkaárásin síðan ég ákvað að flytja til Frakklands. Maður verður einhvern veginn uppgefinn við að heyra slíkar fréttir, og hversu fljótt allir bregðast við með #prayforNice og eflaust fánum ... það er orðin rútína og tilfinningaleg viðbrögð manns við þessum hrikalegu fréttum nánast æfð. Kunnuglegur ótti, kunnugleg sorg, kunnuglegur vanmáttur.

Það komu allir saman þegar Charlie Hebdo átti sér stað. Fólk grét saman, faðmaði hvort annað, samstaðan var mikil. Forseti Frakklands talaði af yfirvegun. En árásin í Nóvember kallaði fram önnur viðbrögð. Það fyrsta sem forsetinn sagði var að þetta væri stríð og að nú þyrfti að henda fleiri sprengjum yfir Sýrland. Á sama tíma fór Front National yfir um í áróðri gegn frönskum borgurum og ótta við flóttamenn. Það skilaði þeim næstum því stjórn fjölmargra franskra fylkja í kosningum í desember ... en sem betur fer eru tvær umferðir í Frakklandi þannig að síðasti „skynsami“ valmöguleikinn varð fyrir valinu.

Viðbrögð forsetans við þessari árás voru fyrirsjáanleg. Herlögin, svokallað neyðarástand, sem átti að ljúka 26. júlí verður framlengt um þrjá mánuði. (Og hver veit hvort það verði lagt niður þá miðað við að herinn hefur verið út á götu síðan í nóvember í fyrra). Síðan á að bomba Sýrland meira ... af því það hefur virkað svo vel hingað til og dregið úr bæði flóttamannastraum og slegið á vaxandi styrk þjóðernishyggjunnar.

Hvorki fleiri hermenn út á götum né fleiri sprengjur yfir Sýrlandi munu virka gagnvart félagslegu vandamáli. Öfgahreyfingar vaxa í lélegu efnahagsástandi, þær þrífast eins og myglusveppir í myrkri og einangrun, en tapa þegar samfélög koma saman. Stríðið í Sýrlandi og Írak er afleiðing vanhugsaðrar innrásar sem átti að laga vandamál sem nýlendustefna drifin áfram af hagsmunum olíufyrirtækja skapaði. (Og aftur voru það hagsmunir olíufyrirtækja sem ýttu þessari vanhugsuðu innrás af stað).

Sprengjur breytast ekki í blóm á leiðinni niður. Sprengjur sá engum fræjum. Frekar ýta þær fleiri flóttamönnum á stað sem margir drukkna í hafinu ef þeir eru ekki skornir upp af viðurstyggilegum glæpaklíkum sem selja það svo til spítala. Þannig að ríkari helmingur heimsins keyri ekki bara um á bílum með stolinni olíu heldur mögulega líka stolnu hjarta.

En ég vil enda þennan pistil á öðrum nótum en að væla yfir skammsýni Hollande, og sjálfseyðingu flokks hans, og frekar skrifa til þeirra sem eiga um sárt að binda í Nice. Maðurinn er sjálfhverf skepna og ég byrja á því að sjá fyrir mér sjálfan mig standa þarna í mannhafinu. Á þessari fallegu strönd, Promenade des Anglais, sem er svo falleg að Englendingar voru þegar farnir koma þangað til að njóta hennar á átjándu öld. Allt Frakkland er fallegt, en þessi hluti suðursins er einstakur og fólkið þar gott, menningin þessi miðjarðarhafsmenning sem allir elska sem komið hafa til Grikklands eða Marseille, eða Líbanon og Tyrklands, þar sem afkomendur Rómverja og Karþagóbúa, krossfara og kalífa, hafa háð stríð og sáð fræjum í jörð. Séð úr fjarska veit maður að Tyrkir og Grikkir eiga meira sameiginlegt en ætti að sundra þá, rétt eins og kaþólskan Íra og mótmælenda Íra væri ómögulegt að greina í sundur ef annar þeirra væri ekki í appelsínugulu. 

Þessu stríði rétt eins og hinum stríðunum mun einnig ljúka. Við þurfum að fara að ímynda okkur hvernig þeim mun ljúka og taka þau skref sem þarf að taka til að þeim ljúki. Það verður ekki með einni sprengju í viðbót.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni