Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fyrningarleiðin í pólitík

Fór á mjög fræðandi fyrirlestur sem haldin var í Sjóminjasafninu, og það má hrósa Samfylkingunni fyrir að fá Sjúrð Skaale frá Færeyjum til að kynna fyrir okkur áhugamönnum útboðsleiðina. Launakjör fólks í sjávarútvegi eru betri en á Íslandi, bæði í Færeyjum og Noregi og sjómenn og verkafólk fá hærri hlutdeild í afla, auk þess sem meira rennur til samfélagsins með útboðsleið. Það er því margt að gerast í Færeyjum sem vert er að skoða, en þeir eru smám saman að heimta inn gamlan kvóta og leigja út á nýtt.

Ein af útfærslunum til að koma á nýju fiskveiðikerfi þar sem arðurinn af kvóta rennur í meira mæli til eigendanna (þjóðarinnar) er fyrningarleiðin. Sú leið sem Þorkell Helgason lagði til byggir á að 10% kvóta fari útboðsleiðina árlega þar til á endanum allur kvóti er kominn í nýtt kerfi. Prósentutalan gæti verið eilítið hærri og eilítið lægri en tíundin er auðveldast að skilja.

Þess vegna ákvað ég að nota sömu tölu í mínum tillögum fyrir flokka sem eiga í vandræðum með endurnýjun. Hér um bil allir flokkar sem ekki eru nýstofnaðir eiga við það vandamál að stríða að eðlileg rótering á fólki á sér ekki alltaf stað. Ýmist er of lítil endurnýjun, kergja í mörg ár, eða mjög róttæk endurnýjun þar sem öllum er feykt í burtu.

Svo við tökum Samfylkinguna sem dæmi, sem notar núna svokallaða „barnastóla-aðferð“ til að stuðla að endurnýjun (komið var á aldurskvóta á síðasta landsfundi þar sem ungliðahreyfingin fékk samþykkt að fólk á þrítugsaldri ætti að minnsta kosti einn stól af þremur efstu í öllum kjördæmum) þá gæti það falið í sér að einn tíundi af þeim sem lengst hafa verið í pólitík myndu hætta á næsta ári til að hleypa nýjum að. (Séu 20% með jafnmikla þingreynslu má nota slembival)

Kerfið hefur marga kosti. Á tíu ára fresti yrði þingflokkur algerlega endurnýjaður, en hann yrði aldrei endurnýjaður allur í einu. Svipað og mannslíkaminn endurnýjar sig á sjö ára fresti til að viðhalda sér. Á ári hverju kæmu 10% inn til að læra á þingið og þau færu út eftir 10 ár, tvö og hálft kjörtímabil.

Hvers vegna ekki tvö kjörtímabil? Það góða við þessa útfærslu sem gerir ráð fyrir 10 árum í stað átta er að þingmenn ná með þessu móti að undirbúa staðgengil sinn vel til að taka við af sér. Enginn stekkur óundirbúinn í djúpu laugina. Hjá Pírötum reyndist vel að Jón Þór byði Ástu Guðrúnu sætið sitt eftir tvö og fjölgaði þar með Pírötum með þingreynslu um þriðjung.

Með þessu móti gæti Össur miðlað áfram stjórnvisku sinni en á sama tíma þyrfti hann ekki að standa í vegi fyrir bráðnauðsynlegri endurnýjun. Svo virðist nefnilega vera að því lengur sem menn eru í pólitík því öflugri verða þeir í prófkjörum, kosningamaskína þeirra styrkist þvert á vinsældir manna á landsvísu. (Sem yfirleitt minnka með tímanum). Kosningamaskínurnar hafa oft á tíðum póstlista og símaskrár með þúsund nöfnum, og bjóða oft óhófleg loforð, maður heyrir orðróma um persónulega greiða eins og jafnvel íslenskum ríkisborgararétt. (Fyrir þá sem vantar slíkt handa sér eða góðum vin). Stjórnmálamaðurinn getur ekki í öllum tilvikum uppfyllt slíkt, frekar en hann getur garanterað aðgang að skúffufé í ráðuneyti, en svoleiðis greiðastarfsemi smám saman styrkir hinn gamla pólitíkus og gefur honum yfirburði yfir nýjabrumið.

Stuðlum að heilbrigðri endurnýjun í stað þess að gera kjósendur svo þreytta á stöðnuninni að þeir hendi út helmingnum af alþingi á tíu ára fresti. Með þessu móti væri 40% endurnýjun í lok kjörtímabils, og nýju þingmennirnir væru enn ferskir og samt með reynslu af þingstörfum þegar þeir færu í sínar fyrstu kosningar. Fyrningarleiðin er ágæt lausn fyrir alla flokka, jafnt sjálfstæðisflokk sem Viðreisn, VG og Samfylkingu, og væri eflaust eitthvað sem við í Pírötum ættum að skoða. Hófsöm endurnýjun í stað skyndilegrar yrði reglan. Svo mætti jafnvel skoða útfærslur þar sem fólk gæti komið aftur inn eftir 10 ára hlé.

Uppboðsleiðin færeyska eykur bæði hlutdeildina sem færeyska þjóðin fær af auðlindarentunni, opnar á nýliðun og gerir verðmyndun kvóta gagnsærri. Við í pólitíkinni gætum praktíserað það sem við predikum með upptöku fyrningarleiðar á þingi og út á sjó, og stuðlað þannig að eðlilegri endurnýjun í okkar röðum. Þessi leið hentar vel til að miðla áfram reynslu á sama tíma og hún gerir nýliðum kleift að komast að á kerfisbundinn hátt.

Markmiðið í báðum tilvikum hlýtur að vera að stuðla að heilbrigðri nýliðun bæði á markaði hugmynda og sjávarútvegsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni