Freyjugata 41

Á Íslandi eru ýmis tækifæri í augnblikinu ef maður hefur rétta hugarfarið.
Það vill svo til að það vantar húsnæði undir alls kyns söfn. Náttúrugripasafnið t.d. en nú er ég með hugann við listasafn Íslands aldrei þessu vant. Það vantar aðstöðu fyrir varanlega málverkasýningu hjá listasafni Íslands sem hírist nú í fyrrum diskóteki með tæplega pláss undir skammtíma sýningar, en enga sali til að sýna til lengri tíma klassísk verk frá lokum nítjándu aldar og byrjun tuttugustu. M.ö.o. ferðamenn og skólakrakkar geta ekki gengið að því sem vísu að öðlast yfirsýn yfir listasögu Íslands. Það gerir okkur öll fátækari, við þurfum að geta séð Nínu Tryggvadóttur, Gunnlaug Scheving, Finn Jónsson og fleiri hlið við hlið, (svo væri ekki amalegt að hafa Picasso verkið sem listasafni Íslands var gefið af Vigdísi Finnbogadóttur í sama húsi).
Nú er lag.
Ekki bara er landsbankahúsið við Austurstræti 155 að losna, heldur líka listasafn ASÍ.
Ég harma það að ASÍ hafi ekki lengur metnað til að sýna list, en það sýnir kannski bara að forysta verkalýðshreyfingarinnar telur sig ekki hafa neitt að segja okkur hinum. (Veltum aðeins fyrir okkur hvort að á sínum tíma hafi verið ástæða þess að stofnað var safn til að sýna alþýðlega list, að koma á framfæri menningu handa almenningi sem væri ekki keypt af bönkum og auðkýfingum, ekki handstýrð af stjórnmálafólki ... nei, nei ég er bara að segja svona).
En þetta hús er hannað fyrir list. Það er eitt fallegasta funkíshús á Íslandi. Það er í nágrenni Hallgrímskirkju og safns Einars Jónssonar. (Þau hafa kallast skemmtilega á, Einar með sína nýrómantískt innblásna og draumkenndu táknfræði á móti nútímalegri og tilraunakenndari list á safni ASÍ).
Það er a.m.k. lágmark að þetta hús sé friðað.
En ég á mér metnaðarfyllri drauma en svo. Það þarf ekki að rísa lundabúð þarna. Það þarf ekki að enda þannig að verktaki skemmi húsið vísvitandi til að fá afsökun til að rífa það og reisa hótelturn sem skyggir á Hallgrímskirkju. Við getum komist hjá slíku. Það er ekkert mál að redda 150 milljónum úr skúffu einhvers ráðuneytis, eða jafnvel hjá Reykjavíkurborg. (Já, fjárhagsstaða hennar gæti verið betri, en þetta er fjárfesting til lengri tíma, næstu hundrað ára jafnvel).
Með þetta hús í almenningseigu væri hægt að hafa varanlega sýningu á klassískum málverkum frá 1890-1945, kallið hana íslensk list í mótun, eða eitthvað álíka. Sú sýning væri viðkomustaður allra grunnskólanema á Íslandi á einhverjum tímapunkti, með þeim afleiðingum að þeir þekktu helstu verk íslenskrar listasögu, jafnvel nöfn og stíleinkenni. Að heimsækja safn er betra en að fletta myndabók.
Þetta hús yrði líka án vafa vinsælt hjá ferðamönnum sem snúa vonsviknir til baka frá listasafni Reykjavíkur og Íslands þegar þeir finna ekki neina klassíska yfirlitssýningu. (Eins og túristar gera yfirleitt þegar þeir fara á National Gallery hvar sem er í heiminum).
Auðvitað gæti þetta hús líka þjónað tilgangi sem hönnunarmiðstöð Íslands, mögulega tónlistarsafn, leikmunasafn, (það er of lítið til að verða náttúrugripasafn). Við höfum rosa mikið af menningu á vergangi, en það þyrfti ekki að vera þannig.
P.S. Getur íslenska ríkið í leiðinni gert tilboð í Jökulsárlón sem eigendur Jökulsárlóns geta ekki hafnað.
Það er eiginlega ekki til umræðu hvort lónið eigi heima í þjóðgarði. Hér eru nóg af tækifærum, og ég sé svo sem ekki muninn á því ef stjórnin fjölgar forgangsmálum úr 75 upp í 77. Setið bara listasafn ASÍ og Jökulsárlón fremst í röðina svo við getum afgreitt það strax.
Athugasemdir