Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Framboðstilkynning

Margir Íslendingar hafa verið pólitískir alla ævi án þess að finna sig inn í neinni fylkingu. Ég er einn þeirra. Eftir bjórkvöld í menntaskóla vaknaði ég meðlimur í Samfylkingunni en það tók ekki nema einn fund til að finna úr því að ég átti ekki heima þar. Síðan þá hefur mér litist á marga flokka. Mér hugnast áherslan sem VG leggur á velferðarkerfið og náttúruvernd. Mér hugnast hvernig Björt Framtíð talar af virðingu um aðra og virðist opin fyrir ólíkum hugmyndum en er, eins og Samfylkingin, alþjóðlega þenkjandi. Ég taldi mig þó vera hægrimann í menntaskóla, gekk jafnvel um tíma í frjálshyggjufélagið, já, það er margt sem höfðar til mín þar, enda á móti mannanafnanefndum og eiginlega flestum tilraunum til að stýra lífi fólks. Mér hugnaðist samt aldrei Sjálfstæðisflokkurinn, mér hugnast það eiginlega sjaldan þegar fólk marserar í of miklum takt þótt þar inni sé sjálfsagt gott fólk að finna eins og allstaðar annars staðar. Tengdamóðir mín var í Framsókn og þegar ég vann um hríð á elliheimili á Hornafirði kynntist ég mörgu góðu fólki sem hefur trú á samvinnuhugsjóninni, en í Framsókn rétt eins og hinum hægri flokknum fannst mér fólk ganga í of stífum takt, og sýna bæði frekju og spillingu fullmikið umburðarlyndi.

Ég kaus Borgarahreyfinguna og sá aldrei eftir því þótt sú hreyfing tætti sig sundur. Og ég kaus Pírata eftir það, eiginlega til að mótmæla öllum hinum en þar var fræi sáð að einhverju sem mér sýnist vera að blómstra.
Það sem ég kann að meta við Pírata er að þar er opið fyrir skoðunum og heilbrigðum skoðanaskiptum. Á sama tíma veit fólk að þar er ekki hægt að halda endalaust áfram með það sama gamla, við þurfum að endurbæta stjórnkerfið og við þurfum að dreifa valdinu betur. Ég er fæddur 1984 og er barn Davíðstímans og Ólafs Ragnars tímans og hef því séð hvað gerist þegar ein manneskja fær of mikil völd í hendurn. Valdamiklum manneskjum er vorkunn, því völdin eru áfeng og mannskemmandi. Það sorglega er að þau lenda oft í höndunum á hugsjónafólki sem vill bæta heiminn, en kann svo ekki að láta þau frá sér aftur þegar komið er tími á næsta mann. Þessvegna fíla ég að Píratar vilja aðskilja ráðherra og þingmenn svo það sé ekki sama fólkið með löggjafarvald og framkvæmdarvald, þessvegna fíla ég að Píratar vilji takmarka fjölda kjörtímabila sem fólk getur setið í embætti.

Í komandi kosningum eru þrjú mál sem ég tel afar mikilvæg og krefjast þess að alþingi afgreiði. Ég tel okkur á ákveðnum tímamótum. Við vitum núna þökk sé Panamalekanum að sömu pottar eru brotnir í dag og voru brotnir í búsáhaldabyltingunni. Og þeir brotnuðu ekki í mótmælunum, þeir brotnuðu einhvern tímann fyrir langa löngu. Hvenær? Kannski þegar eimreiðarhópurinn ákvað að planta vinum sínum í allar æðstu stöður landsins, kannski þegar Jónas frá Hriflu gerði samkomulag um helmingaskipti við Ólaf Thors, kannski einhvern tímann þegar maður var hýddur fyrir að stela snæri á átjándu öld. Ég veit ekki hvenær, en ég veit að það er kominn tími á að við gerum eitthvað í því.


Ég tók þátt í búsáhaldabyltingunni og hef áður sagt frá því. Ég batt miklar vonir við hana. Þjóðfundurinn gerði mig bjartsýnann, en átökin sem tóku við voru erfið. Raunveruleikinn gerði mig á endanum þunglyndan og daprann. Það er erfitt að fylgjast með pólitík. Hún getur verið skítleg. Svo ég reyndi að gera eitthvað annað.
Í dag hef ég gefið út þrjár bækur, skrifað leikrit, skrifað blaðagreinar, búið í Japan, Svíþjóð, Belgíu og Frakklandi, og í þrjú ár túrað um heiminn með alþjóðlegum leikhópi. Nú í Ágúst sýni ég í fyrsta sinn mitt eigið leikverk á alþjóðlegri leiklistahátíð (utan Íslands). Ég er listamaður, ekki pólitíkus, en ég tel að listnám mitt og starf muni nýtast vel á þingi. Ég hef skrifað nærri því fjórar skáldsögur í samstarfi við annan höfund og held satt að segja að sú list að geta samið söguþráð, lesið yfir og ákvarðað kommusetningu og stíl í samstarfi sé góð reynsla fyrir löggjafann. Maður lærir að stundum skiptir ein komma ótrúlega miklu máli fyrir heildarmerkingu texta og stundum er bara manns eigið stolt að flækjast fyrir manni. Að þekkja muninn á þessu getur varðað hvort mikilvæg lagaákvæði komist í gegn eða ekki. Það getur skipt sköpum fyrir framtíð landsins.
Ég held líka að leiklistarreynsla mín skipti máli. Ég hef leikstýrt áhugaleikhópum og atvinnuleikhópum, komið nakinn fram (en ekki stokkið heljarstökk aftur á bak) og unnið með fólki frá Japan, Frakklandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og öllum norðurlöndunum. Það verður heldur ekki leiðinlegt að hlusta á mig tala, og ef það verður einhvern tímann leiðinlegt þá hringi ég í Elísabetu Jökulsdóttur, bekkjarsystur mína úr leiklistinni, til að þiggja nokkur ráð.
Já, ég er að sækja um að fara inn á lista Pírata eins og hver annar lukkuriddari. Þið sem lesið bloggið mitt þekkið skoðanir mínar og vitið hvað ég hef fram að færa. Ég tala fimm tungumál, hef reynslu af alls kyns störfum og er almennt jákvæður og gott að vinna með mér. Og held að Alþingi hefði gott af þannig týpu. Samt er ég engin lydda og stend ávallt fyrir mínu, og segi það sem mér finnst.

Ég ætla ekki að gera pólitík að ævistarfi mínu en ég vil taka þátt í að móta Ísland. Eftir að hafa búið í útlöndum í fimm ár sakna ég landsins míns og mig langar til að gera það að góðum stað að búa á í framtíðinni. Það er ástæða til að vera bjartsýnn, en ekki ástæða til að vera ógagnrýnin. Það þarf að kjósa fólk sem stendur utan gömlu valdaklíkunnar og utan hinna hefðbundnu flokka. Búsáhaldabyltingin kallaði eftir nýju Íslandi og ég vil nýtt Ísland sem notar það besta frá hinu gamla en losar sig óhikað við það sem gerir ekki sama gagn.

Hvað legg ég áherslur á? Þrjú mál:



1.
Ný stjórnarskrá.
Frá því lýðveldið Ísland var stofnað hefur uppfærð stjórnarskrá verið á dagskrá. Ýmsir aðilar gagnrýndu alþingi hart fyrir að koma ekki nútímalegri stjórnarskrá í gegn, m.a. Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands. Stjórnarskráin er eitt af þeim málum sem ekki er hægt að fresta lengur, sérstaklega eftir hrunið.

Bíddu, hrunið? Hafði það eitthvað að gera með stjórnarskrána? Voru það ekki bankarnir?

Jú, en bíðum nú við. Gamla stjórnarskráin býr til ákveðna hvata og kerfi. Framkvæmdavald og löggjafarvald er illa aðskilið og það ýtir undir að vald færist á fáar hendur. Tveir menn gátu ákveðið að Ísland styddi Íraksstríðið, sömu tveir menn gátu sem ráðherrar og þingmenn ákveðið að reisa Kárahnjúkavirkjun og einkavæða banka og gefa vinum sínum. Hefði sjálfstæðara þing, þar sem minnihluti gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni, komist að annarri niðurstöðu? Margir telja svo vera. Í augnablikinu byggir allt á einföldu meirihlutaræði og maður er annað hvort með eða á móti.
Það þarf að styrkja þingræðið, tryggja grundvallarmannréttindi og skýra vald forsetans. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki fullkomnar, en þær eru samt besta leiðin sem við höfum núna til að taka ákvörðun sem samfélag. Um hvernig þær fara fram og hvernig má kalla eftir þeim er eitthvað sem við þurfum skýrar reglur um, og rétt eins og mér finnst rangt að tveir menn geti beygt undir sig heilt þing til að styðja stríð og selja banka, þá finnst mér rangt að valdið til að kalla eftir þjóðaratkvæði liggi í höndum eins manns.

Það verður ekki auðvelt að klára stjórnarskrármálið, annars væri löngu búið að því. Sterk hagsmunaöfl vilja alls ekki ákvæði sem kveða á um að greiða verði gjöld af fiskveiði til eigenda fisksins, þjóðarinnar, og aðrir sem eru einfaldlega vanir því að fá alltaf sínum vilja framgengt vilja ekki neitt sem hamlar völdum „freka mannsins“. Frumvarp stjórnlagaráðs ætti helst að samþykkja eins nærri þeim texta og stjórnlagaráð lagði fram, en vafalaust mun þurfa að semja til að koma stjórnarskránni í gegn (hér er bara pólitískt raunsæi á ferð). Hvernig Alþingi mun öðlast nógu mikið traust almennings til að klára það verkefni sem fyrsti forseti landsins lagði fyrir það veit ég ekki, en ég veit að það verður að gera það. Þjóðin kaus ekki bara stjórnlagaráð heldur samþykkti hún líka þær tillögur sem henni var boðið að kjósa um.

2.

Og talandi um skýran þjóðarvilja. Nærri allir Íslendingar vilja öflugra heilbrigðiskerfi, og því lengur sem við geymum að styrkja það, því dýrara verður það. Hugsið um þetta eins og þakleka, því fyrr sem hringt er í viðgerðarmenn því ódýrari verður viðgerðin. Hringi maður of seint skemmist allt húsið og þá verður viðgerðin enn dýrari (ef maður hreinlega neyðist ekki til að flytja).
Það er langt síðan það byrjaði að leka. Bókstaflega, því stundum er beinlínis verið að kvarta undan myglu og skordýrum í því húsnæði sem heilbrigðisþjónustan fer fram í. Það verður ekki ódýrara að byggja nýjan landspítala með því að fresta því, og við björgum ekki fleiri mannslífum með því að endurnýja tækjabúnað spítalans síðar.
Um þetta er skýr þjóðarvilji.

3.

Það hefur eiginlega alltaf verið húsnæðiskrísa á Íslandi frá því ég man eftir mér. Séreignarstefnan getur ekki gengið upp í öllum tekjuflokkum og það þarf að hugsa út fyrir kassann. Að hluta til er vandamálið það að fólk á erfitt með að spara til ellinnar. Fasteignir eru tryggari en krónur, en til þess að tryggja góða ávöxtun hefur þurft að fórna hagsmunum skuldara. Fjármagnseigendur eru tryggðir á meðan aðrir bera alla áhættuna. Við virðumst alltaf hugsa í skyndilausnum og núna vantar okkur skyndilausn til að skapa langtímalausn, til að fólk af minni kynslóð geti eignast hús.
Hvernig lækkum við lánakostnað?
Hvernig styrkjum við leigumarkað þannig að fólk byrji að líta á það sem langtímakost?
Það er ekki hægt að hugsa dæmið einvörðungu út frá hagsmunum fjármagns-og fasteignaeigenda. Þingmaður er fulltrúi allra Íslendinga en ekki ákveðinna hagsmuna, en sem ungur og eignalaus maður er nokkuð ljóst hvorum megin jöfnunnar ég stend þessa stundina. Mér hugnast það frelsi sem felst í því að leigja en ég vil ekki vera jafnsnauður um sextugt og ég er núna. Saman held ég að ef við leitum langvarandi lausna getum við tryggt fólki ekki bara val milli verðtryggðrar ánauðar eða grimmúðlegs leigumarkaðar. Það er nefnilega sanngjarnt að hafa bæði: frelsi og stöðugleika, valkosti og öryggi.


Það eru ótal önnur málefni sem ég álít mikilvæg.

Nútímalegt menntakerfi. Ég tel menntamálaráðherra á villigötum þegar hann hlustar ekki á raddir kennara og reynir að auka miðstýringu í stað þess að efla nýsköpun.

Borgaralaun. Við verðum að skoða hvort að grunnframfærsla gæti orðið til þess að við getum lagt niður milliliði eins og styrkja- og bótakerfi.

Höfundaréttarlög. Ég er rithöfundur og það sem upprunalega dró mig til Pírata var að þeir hafa skynsama afstöðu til upplýsinga. Það er ekki hægt að loka menningarverðmæti og upplýsingar að eilífu bara í þágu þess að græða. Lista-og vísindamenn verðskulda að uppskera einhverjar tekjur, en fyrr eða síðar verður hugmynd að fá að verða frjáls hvort sem hún er góð saga, fallegt lag eða lyfjakokteill sem getur læknað alnæmi. Það er ekki umdeilt að höfundaréttur og einkaréttur renni fyrr eða síðar út, spurningin er bara hvernig og hvenær og ég tel Pírata hafa á réttu að standa þegar þeir benda á að fjölföldun upplýsinga af netinu skaðar engan en bætir líf margra.

Listinn gæti haldið áfram. Við þurfum að hafa áhyggjur af spekileka (brain-drain) og ójöfnuði innan samfélagsins og sem betur fer eru Píratar með marga innan sinna raða sem hafa áhuga á öllum regnboganum. Stefna flokksins er lögð í gegnsæu ferli, ef maður skráir sig inn er auðvelt að hafa áhrif á hana. Ég vill leggja þeim lið með orðum mínum, hugmyndum mínum og framkomu minni. Ég er baráttumaður og vil bæði berjast og semja, en umfram allt skapa. Ég vil taka þátt í að skapa betra Ísland þar sem ekki allt er í höndum örfárra.


Ísland getur verið land þar sem allir fá að taka þátt í að móta stefnuna. Ísland getur verið fáránlega gott land að byggja.
Þessvegna er ég á leiðinni aftur heim þar sem sól slær silfri á voga og ætla svo sannarlega að sjá jökulinn loga.



Höfundur býður sig fram í suðvesturkjördæmi. Hann sækist ekki eftir efsta sæti en telur það vera verk kjósenda að velja hvort hann sé í 2. eða 16.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni