Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Flóttinn til skýjanna- vel smíðuð hjásaga

Flóttinn til skýjanna- vel smíðuð hjásaga

Lauk um daginn lestri á Flóttanum til skýjanna en það hafði staðið lengi til að lesa þá bók frá því hún kom upprunalega út hjá útgáfunni Rúnatý. Kannski var af hinu góða að ég beið þar til hún var gefinn aftur út hjá útgáfunni Óðinsauga, ég þykist vita að textinn hafi eitthvað verið slípaður til í millitíðinni. Að minnsta kosti er bókin vel heppnuð hvað varðar strúktúr á plottinu og þeim heimi sem skapaður er.

 

En hvað er hjásaga? Það hafa ekki margar slíkar verið skrifaðar á íslensku, mun fleiri sögur geta flokkast undir vísindasagnir eða furðusögur. Hjásagan fjallar ekki um hið yfirnáttúrulega né fjallar hún um framtíðina (eða jú, í undantekningatilvikum), hjásagan gengur út á sagnfræðilegar vangaveltur, eitt þekktasta dæmið sem ég veit um er reyfarinn Föðurland eftir Robert Harris. Í Föðurlandi sigrar Þýskaland nasista seinni heimsstyrjöld, bókin gerist í tuttugu árum síðar þegar Kennedy, nýkjörinn Bandaríkjaforseti kemur í opinbera heimsókn til Berlínar til að draga úr spennu milli stórveldanna tveggja. Hitler er aldraður landsfaðir evrópsks ríkjasambands þar sem fasískir flokkar ráða ríkjum en notast við þýskt mark enda dyggir meðlimir efnahagssambands og bandalags sem Þjóðverjar hafa komið upp til að verjast Bandaríkjamönnum og Japönum. Í Rússlandi geysar ennþá stríð en lítið er talað um hvað gerist á austurvígstöðunum, eða hvað varð um alla gyðinga í Evrópu.

Sá ágætlega skrifaði reyfari endar reyndar á að ráðgátan um helförina verður opinber sem skemmir algjörlega fyrir plönum um "detente" gagnvart Bandaríkjunum, (ég leyfi mér að skemma plottið því það ætti ekki að koma mörgum á óvart), aðalsöguhetjan er nokkuð dæmigerður einkaspæjari en Robert Harris er fínn penni og bókin er svipuð öðrum sagnfræðilegum bókum eftir hann.

Sigur nasista er vinsælt efni í "hvað ef" sögum kemur t.d. fyrir í verki Philip K. Dick "The man in the high castle" þar sem segir frá Bandaríkjum í hernámi þar sem dularfull skáldsaga gengur manna á milli sem segir frá sigri Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á þriðja ríkinu. (Svona nokkurs konar Meta-Hjásaga). En annað, sem mætti segja að væri ekki síður vinsælt þema er Rómaveldi og áframhaldandi líf þess. Harry Turtledove, guðfaðir hjásögunnar, hefur skrifað tvær slíkar skáldsögur, en af öðrum mætti nefna t.d. Romanitas eftir Sophie McDougall. 

Gallinn við margar af þeim bókum, sem hrjáir alls ekki sögusvið Kristján Más er að höfundum skortir ímyndunarafl til að skilja að samfélög þróast. Róm ekki bara lifir af sem keisaraveldi í bókum McDougall, tíska, siðir og trúarbrögð standa í stað. Gufuskip sigla um, byssur eru notaðar og fólk er krossfest á rafknúnum krossum, og allir ganga um í tóga. En sagan virkar ekki beinlínis þannig. Hugsum bara út í hvað siðir og tíska hafa breyst mikið í Evrópu og Bandaríkjunum á fjögur hundruð árum án þess að samfélögin hrynji eða kollvarpist. Rómarveldi sem lifir af árásir barbara og hernemur hálfan hnöttinn er ekki sama Rómarveldi og það var áður. Það tekur inn fleiri þjóðir, efnahagurinn breytist, hið sögulega Rómarveldi var öðruvísi árið 200 e.kr heldur en það hafði verið 200 f.kr.

Rómarveldi Kristjáns sem hefur lifað til ársins 1407 eftir kristburð, og tekið upp nýja trúarsiði, lifað af hremmingar eins og borgarastyrjaldir og miklar pólitískar umbreytingar er sannfærandi. Við kynnumst heim gufuknúinna skipa og járnbrauta, þar sem greinileg hugmyndafræðileg átök eru á milli vísindaráðsins og kirkjunnar manna. Rómarveldi hefur tekið upp kristna trú en lagað að sér, keisarinn er höfuð trúarinnar og virðist halda því fram að hann sé afkomandi krists. Guðfræðin er ekki eins ítarlega útskýrð og vísindin og efnahagurinn og er það vel. Sumt ætti að vera ráðgáta. Og það er gaman að velta vöngum yfir hvað nákvæmlega gerðist. En hvernig er söguþráður, persónusköpun og stíll?

Ráðgátur knýja áfram söguþráð bókarinnar sem hefst í borginni Bushehr í persaflóanum. Hópur Rómverja leitar skjóls í borginni á flótta undan her veldisins en þeir hafa uppgötvað leyndarmál sem gæti breytt valdajafnvægi heimsins í hag kirkjunnar, keisarans eða vísindaráðsins. Þeir hafa uppgötvað forna og horfna borg frá tímum styrjaldar tvö hundruð árum áður en virðast ekki vera sammála um hvað eigi að gera við upplýsingarnar. Svik valda því að aðalsöguhetjan Trinius verður eftir í borginni þegar umsátur hefst. Hann lætur þó ekki deigan síga. Verkfræðingurinn í samstarfi með sjóræningjakapteininum Júlíu leggur á ráðin um að flýja borgina með loftskipi.

Ég læt vera að rekja bókina nánar. Söguþráðurinn er grípandi og frumlegur. Reyfaralegur stíllinn virkar vel þótt sumar persónur virki klisjukenndar, það á þó alls ekki við um aðalsöguhetjurnar þrjár sem halda sögunni gangandi. Bushehr er litríkur staður sem hefur komist hjá því að lenda undir keisaraveldinu með samstarfi við hershöfðingja sem eiga leið hjá í átt að Indlandi, sem Keisarinn virðist hafa meiri áhuga á. Það er skemmtilegt að lesa um pólitíkina innan borgarmúranna, prinsessuna Sahmi sem flýr bróður sinn Mahmedin og það er líka ánægjulegt að höfundur hafi ákveðið að hafa fókusinn á þessum stað frekar en að skrifa um sjálfa höfuðborgina. (En hver veit með framhaldið, að öllum líkindum kemur framhaldsbók út).

Einu ókostir bókarinnar eru samtöl sem mér þykja ekki alltof sannfærandi. Á köflum eru fullmiklar endurtekningar, brandari um loftræningja/loftsjóræningja, og klisjukenndar lýsingar. En plottið er vel uppbyggt og manni leiðist aldrei. Það er eitthvað sem gerist á hverri síðu og sem hasarbók virkar Flóttinn til skýjanna vel. Heimurinn er sannfærandi og forvitnilegur, höfundur hefur virkilega velt fyrir sér öllu frá tækni, efnahag, trúarbrögðum og pólitík eins og sönnum sagnfræðingi sæmir. 

Linkur á bókina.

Svo er hér linkur inn á bók sem ekki telst til hefðbundinna hjásagna en er nokkuð skemmtileg, íslensk útfærsla á svipaðri hugmynd en með allt öðrum áherslum. Rómúlía hin eilífa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni