Ég er ekki kröfuhafi
Ég er ekki kröfuhafi í íslensku bankana.
Meirihluti okkar eru ekki kröfuhafa í íslensku bankana. Hvort sem við eigum lífeyrissparnað eða ekki.
99% íslensku þjóðarinnar eiga ekki kröfur í íslensku bankana.
Það er eitt prósentið sem á væna sjóði á skattfrjálsum eyjum langt í burtu.
Þeir sem reyna að sannfæra þig um annað eru í stríði gegn almennri skynsemi.
Og eðlilegum skilningi á íslenskri tungu.
Strax þýðir samstundis. Teygjanleiki hugtaksins er lítill, samstundis er núna, nú þegar í stað.
Þegar maður hefur illan málstað að verja snýr maður hlutum oft á hvolf. Svart verður hvítt. Upp verður niður.
Nýverið átti ég í rökræðum við dyggan stuðningsmann ríkisstjórnarinnar sem færði rök fyrir því að hjónaband væru ekki persónuleg tengsl.
Þetta er komið gott.
Sigmundur Davíð þarf að segja af sér. Ekki mín vegna. Ég fagna hverri stundu sem hann situr enn því það rífur sennilega í tætlur fylgi framsóknar og mun á endanum eyðileggja fyrir sjálfstæðisflokknum líka. Í raun tryggir áframhaldandi seta hans að aðalfókus næstu kosninga verði hegðun og eignir stjórnmálamanna.
Efast um að Bjarna Ben langi til að ræða það að hann skyldi hafa átt íbúð í Dubai t.d.
Ekki af því það er ólöglegt. Heldur einfaldlega af því venjulegir Íslendingar eiga erfitt með að samsama sig fólki sem á íbúðir úti um allan heim, bankareikninga í mismunandi löndum. Það mun einfaldlega vera erfitt að selja ímyndina af sjálfum sér sem fjölskylduföður í Garðabæ (sem er auðvitað ein hlið á manninum líka), ef Tortóla-mál Sigmundar er í deiglunni.
Það er þess vegna sem að Bjarni mun á endanum losa sig við Sigmund. Til að bjarga eigin pólitíska skinni.
P.S.
Ég er ekki að segja að fólk í pólitík megi ekki eiga pening.
En ég er að segja að fyrir hvern milljarðamæring sem við losnum við af alþingi fáum við pláss fyrir hjúkrunarfræðing, smið, slökkviliðsmann, lækni, kennara, skáld, sjómann, bónda eða öryrkja. Það eru hlutfallslega of margir milljarðamæringar inn á þingi.
Athugasemdir