Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Airbnb krísan

Deilihagkerfið á að hjálpa einstaklingnum og ef það er gert rétt, þá er það fínt. Ef þetta er hinsvegar bara bisness, þá er þetta bisness og hann þarf að hlýða lögum um deiliskipulag, leyfisveitingar þarf til og auðvitað þarf að greiða af viðskiptunum skatta.

Þetta er hluti af lokaniðurstöðu afar skynsamlega skrifaðrar greinar Ástu Guðrúnar Helgadóttur á kvennablaðinu núna í vikunni. Hér.

Pæling inn á Kjarnanum í dag virðist styðja mál hennar ágætlega. Það eru 1800 airbnb-íbúðir í Reykjavík í dag. Og höfuðborgin virðist ekki koma vel út í samanburði við aðrar norrænar borgir hvað varðar leigu. Íbúð í Reykjavík kostar þrettánfalda árlega leigu, en í Stokkhólmi þyrfti að borga fjörutíufalt leiguverð til að kaupa. Leiguverð er einfaldlega það hátt hérlendis að mun ódýrara er að kaupa sér ... sem hljómar ekki svo slæmt fyrr en maður heyrir dæmi eins og þessi af spjallþráðum:

Ég uppfylli ekki greiðslumat fyrir mánaðarlega greiðslu upp á 120 þúsund mánaðarlega, en ódýrasta húsnæðið sem ég finn sem dugar fjölskyldu okkar er að minnsta kosti 150 þúsund.

Þetta er vandamál sem stjórnvöld hunsa enda er þeim fullkomlega sama um þá sem ekki eru fasteignaeigendur, sér í lagi þá sem ofan á það eru ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu. 

Ég nota Airbnb mikið þegar ég ferðast. Það hefur gert það að verkum að maður kynnist lókal-liðinu vel, upplifir borgirnar sem maður heimsækir í meiri nánd og er ódýrara heldur en hótel. En það gengur ekki upp að íbúðir sem ætlaðar eru til búsetu breytist í gistihús. Það er eitt að leigja íbúðina sína út í nokkrar vikur á meðan maður ferðast í fríinu sínu, það er annað að leigja hana út allan ársins hring. 

Það er erfitt fyrir venjulega leigjendur að keppa við Airbnb, því eins og er virðist gróðinn af slíkri útleigu nálgast hálfa milljón á mánuði. En jafnvel þótt einhver takmörk verði sett á Airbnb dugar það ekki til. Við þurfum að skoða leigumarkaði í Þýskalandi og sjá hvað við getum lært af þeim, (leiguverð í Þýskalandi fer lækkandi á sama tíma og hagvöxtur er mikill í landinu), er kannski hægt að nota skattlagningu til að hvetja fólk til að leigja út fasteignir frekar en að láta þær standa auðar? Það væri byrjun. Ríkið getur gert margt, ekki bara að byggja húsnæði eins og stúdentaíbúðir eða álíka heldur bara með skynsamlegri löggjöf.

 

Það eru lítil réttindi fyrir leigjendur, mikill kostnaður fyrir leigusala

Fyrir mánuði síðan var leigjendum á Reykjanessvæðinu hent út fyrir að geta ekki greitt 40% hækkun á leiguverði. Hér. Þetta er hluti af stærra trendi. Aldrei nokkurn tímann myndi slíkt henda í öðru Vestur-Evrópsku ríki, sem undirstrikar hvað íslenskir neytendur og leigjendur eru í raun illa varðir. Á sama tíma standa mörg hús auð á akkúratt sama svæði. Lausnin getur ekki verið mjög flókin. 

Það er ekki bara græðgi sem drífur húseigendur áfram. Einn ellilífeyrisþegi missti réttindi við það að leigja út húsið sitt frekar en að selja það. Á endanum ákvað hún að láta það standa autt í staðinn:

Íbúðin var að leigjast á 300 þúsund krónur. Við þurftum að greiða tuttugu prósenta fjármagnstekjuskatt. Þá eru eftir um 250 þúsund krónur. Af þessum 250 þúsundum kemur lífeyrisstofnunin og tekur krónu á móti krónu [tekjuskerðing]. Þá eru 125 þúsund krónur eftir af þessum leigupeningum. En þá á eftir að greiða fasteignagjöld sem eru í kringum 30-35 þúsund. Að því loknu á eftir að greiða brunagjöld og eftirstöðvar eru skattlagðar. Það er sem sagt ekki króna eftir af leigunni. Ég greiddi í fyrra 700 þúsund krónur með leigunni.

Sjáið grein af vísi hér.

Svona dæmi eru bara bízarr. Þingið kemur saman 8 Sept. Drífum í því að laga löggjöfina áður en þau 40% ungs fólks sem búa heima hjá foreldrum sínum ákveða að flytja frekar til Norðurlandanna heldur en að leita að húsnæði á Íslandi. Fjórir af hverjum tíu á milli 20-29 á Íslandi búa hjá foreldrum á móti einum af hverjum tíu í Danmörku. 40% á móti 10%. Og þetta er innlegg velferðarmálaráðherra Íslands í þessa umræðu:

Búið heima hjá foreldrum ykkar og kaupið strætókort. Svo skulið þið leigja íbúðina til einhvers fyrstu árin meðan þið borgið af íbúðinni. Hér.

Ok. ég skil. En ef allir gera þetta, hver á þá að leigja íbúðina?

Jájá, það er alveg rétt að íslensk ungmenni eyða almennt of miklu í bíla, bensín og bús, en þetta er svoldið eins og að kenna fólki sem keypti sér flatskjá um bankahrunið. (Eins og að fjölskylda sem keypti sér plasmaskjá á tilboði hafi neytt Landsbankann í að nota Icesave reikningana í Hollandi í fjárhættuspil). Staðreyndin er sú að löggjafinn getur notað hvata til að auka framboð á leiguhúsnæði og hefur enga afsökun fyrir að hafa ekki gert það fyrir löngu.

Má ég þá heldur biðja um píratann sem virðist vita eitthvað um hvernig það er að leigja.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni