Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Óþægi rýnandinn og valnefndin góða

„Það margborgar sig einfaldlega að vera stilltur, í þessum bransa eins og öðrum - þeir sem gera fólki gramt í skapi borga pirringinn að fullu verði á endanum. Um það þarf heldur ekki að rífast,“ skrifaði Eiríkur Örn Nordahl á bloggi sínu í morgun.

Mér varð hugsað til þessara lína úr bloggi hans þegar ég komst að því að Björn Vilhjálmssyni hefði verið vikið úr nefndinni sem velur hverjir hljóta starfslaun rithöfunda. Rithöfundasamband tilnefnir meðlimi og eiga þeir að sitja í þrjú ár en Björn sat einungis eitt.

Björn hafði bakað sér gríðarlegar óvinsældir á meðal rithöfunda fyrir óvægna rýni. Gagnrýni á að sjálfsögðu að vera óvægin, og rithöfundar eins og aðrir mega (og ættu kannski) að svara henni opinberlega þegar þeim mislíkar eitthvað. Málefnalega. Viðbrögðin ættu ekki að vera persónuárásir en frekar margt ljótt skrifað um Björn meðan hann var með víðsjárpistla sína og kannski ætti enginn að vera að hissa á því þegar hann borgaði það fullu verði með því að vera vikið úr nefndinni eftir einungis árs-setu.

Sama ár og Björn sat í valnefnd ritaði ég ásamt Kjartan Yngva Björnssyni grein um það sem við töldum ómaklegar árásir á Björn. Hann hafði verið ásakaður um karlrembu, óeðlilegar fýsnir í garð skáldkonu, uppnefndur pungrotta . . . á sumu þessu fékk hann afsakanir á stuttu eftir að greinin kom út.

Í sömu grein spurðum við:

Er óþol við gagnrýni landlægt mein? Endurspeglar umræðan í bókmenntum kannski stærra vandamál?

Við töldum til ólög sem bönnuðu gagnrýni á störf embættismanna, svívirðilega framkomu borgarleikhússins gagnvart atvinnu-gagnrýnanda og minntum á að vitaskuld eru rithöfundar og bókaforlög kröftugur hagsmunahópur. Jólabókaflóðið veltir miklu og þar eru peningar í húfi sem jafnast vel á við þær fjárhæðir sem útgerðarmenn telja sig missa út af viðskiptabanni við Rússland. (Þeir eru auðvitað talsvert öflugri hagsmunahópur).

Mér þótti hins vegar leitt að stress okkar út af þeim peningum sem voru í húfi skyldi leiða fólk til persónuárása. Það ætti að vera heilög skylda rithöfunda að fagna skoðanaágreiningi, eða a.m.k. að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. 

Ég tel að með því að bola Birni úr stöðu sinni sé verið að setja hættulegt fordæmi. Og að í þessu samhengi sé hollt að muna að ásýnd spillingar sé jafnslæm og raunveruleg spilling, því í báðum tilvikum er fræjum vantrausts og efa sáð. Sjáið til dæmis þessa grein í vísi í dag þar sem Gunnar Helgi Kristinsson talar um afleiðingar „ímyndaðrar spillingar.“ 

Fólk sem trúir því að spilling grasseri er líklegra til að taka þátt í spillingu. Þess vegna getur grunur um að ákveðin klíka stýri öllu leitt til þess að raunverulegar klíkur verði til. Tökum eftir því að þeir sem mest eru sannfærðir um að spilling ríki á Íslandi eru kjósendur sjálfstæðisflokksins, það kannski útskýrir allt. (Hver hefur ekki svindlað sér fram fyrir í röð með röksemdarfærslunni: Allir gera þetta?)

Ég vil ekki trúa öðru en að þeir sem annast úthlutun verkefnastyrkja í skapandi greinum (sjáið hvað ég er að gera núna, ekkert nettröll nennir að nota þennan frasa í kommentakerfinu) geri það með mikilli ábyrgðartilfinningu og heiðarleika. Ef ég fer að trúa öðru þá mundi hegðun mín vafalaust breytast til hins verra. Ég myndi til dæmis ekki birta svona pistla þar sem ég gagnrýni Rithöfundasamband Íslands opinberlega. Ég vil ekki trúa því að slík skrif hamli mér þegar ég sæki um verkefnastyrki, en þess vegna verður ferlið að vera gegnsætt. Þegar úthlutanir eru tilkynntar þá þarf að gera það með rökstuðningi, það verða að liggja fyrir opinberar skýrslur og skýrir verkferlar. (Svo hvet ég alla höfunda til að skrá sig í RSÍ, það eru of mikilvæg samtök til að við getum leyft okkur það ábyrgðarleysi að standa utan þeirra).

Að lokum hvet ég RSÍ til að biðja Björn Vilhjálmsson afsökunar eða koma með útskýringu á því hvers vegna hann var tekinn úr valnefndinni.



Viðbót
Þennan pistil tók ég úr birtingu þegar ég heyrði að Björn Vilhjálmsson hefði ekki einn verið tekinn úr nefndinni að ári liðnu heldur einnig Steinunn Inga Óttarsdóttir. Ég var í vafa svo ég tók pistilinn út. En eftir að hafa skoðað lista yfir nefndarmeðlimi síðustu ár sé ég að Steinunn Inga var búin að sitja þrjú ár og gat því ekki setið lengur. Björn var því einn um að vera tekinn úr nefndinni án þess að hafa klárað setu í þrjú ár. (Að undanskildum Þresti Helgasyni, en það gæti tengst viðamiklu nýju starfi sem hann tók við þegar hann átti að sitja þriðja árið).
 

Mig langar ekki að ásaka neinn. Þetta er ekkert J´accuse í anda Émile Zola. Hálfpartinn líður mér eins og svikara, eins og ég sé að fóðra „reiða hægrið“ og þá sem vilja afnema alla styrki til listarinnar. En ég tel að nefndin þurfi aukið gagnsæi, og að við þurfum frekari útskýringar á máli Björns. 
 

Ef við skoðum þennan lista yfir meðlimi í nefndum sjáum við að reglan er að formaður nefndar sé sá sem setið hafi í þrjú ár. Stöðug rótering er í gangi, einn nýliði bætist við árlega og enginn situr fjögur ár. Björn er greinilega frávik á þessari reglu.

2016

Brynja Baldursdóttir, formaður, Auður Aðalsteinsdóttir, Davíð Kjartan Gestsson.

2015

Steinunn Inga Óttarsdóttir formaður, Björn Þór Vilhjálmsson, Brynja Baldursdóttir

2014


Ingi Björn Guðnason formaður, Brynja Baldursdóttir, Þröstur Helgason
2013

Steinunn Inga Óttarsdóttir formaður, Ingi Björn Guðnason og Þröstur Helgason 

2012

Bergljót Kristjánsdóttir formaður, Ingi Björn Guðnason og Steinunn Inga Óttarsdóttir.

2011

Hólmkell Hreinsson formaður, Bergljót Kristjánsdóttir og Þröstur Helgason

2010

Hólmkell Hreinsson formaður, Bergljót Kristjánsdóttir og Ingunn Ásdísardóttir

2009

Gottskálk Jensson, formaður, Hólmkell Hreinsson og Ingunn Ásdísardóttir

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni