Að berjast fyrir því að leiða listann
Það er auðvelt að detta aftur í sama farið þegar maður notar sömu orð sífellt.
Einu sinni var pólitík bara mismunandi smákóngar og stórkóngar sem bókstaflega börðust sín á milli. Þeir leiddu heri. Það var býsna hörð barátta.
Svo komu byltingar, og aftur var barist. Lýðveldi gegn einræðum. Barist, barist, barist.
Svo það er ekki skrítið eftir þúsundir ára af því að berjast undir kóngum sé fólk ekki alveg farið að taka upp orðfæri lýðræðisins. 227 árum eftir að Franska byltingin fann upp hægrið og vinstrið erum við ennþá að berjast. Hún leiddi líka af sér býsna blóðugan baráttusöng. (Svo ég sé með pínu þjóðrembing þá finnst mér smáblómið betra).
En það er samt ánægjulegt að sjá það að þegar fjölmiðlar slá því upp sem baráttu um að vera leiðtogi þá hafna flestir frambjóðendur á meðal Pírata að nota þau orð. Því það skiptir stundum máli hvaða orð eru notuð.
Kannski væri nær að tala um að erfitt verði að velja. Nóg sé af framboði. Það verða allavega engir kóngar að leiða fólk til orrustu. Það er kominn tími á að setja annars konar gildi í forsæti. Skapandi pólitík í stað eyðandi.
Auðvitað á maður samt bara að þakka Kjarnanum fyrir að fjalla um framboðin. Fjölmiðlar hafa þá einu skyldu að segja frá og þeir frambjóðendur sem þeir listuðu upp eru þeir sem líklegastir eru til að verða í fyrstu sætum. (Sú gagnrýni að umfjöllun hafi mótandi áhrif á skoðanir á rétt á sér, en það er miklu nær því að vera hlutverk flokksins að vega á móti slíku heldur en Kjarnans. Eðlilega segir fjölmiðill frá þekktustu andlitunum fyrst, því hann er ekki að tala til Pírata heldur allra landsmanna og útskýra fyrir þeim hverjir eru líklegastir í augnablikinu).
Orðin barátta og prófkjörsslagur skapar ákveðna stemningu sem þyrfti ekki að vera. Alveg eins og þegar einhver gagnrýnir eitthvað þá þýðir það ekki endilega að maður sé að hjóla í náungann eða reiða til höggs.
Sjálfur myndi ég segja að það sé útlit fyrir býsna friðsælt forval, þar sem margar hugmyndir munu heyrast því svo virðist sem framboð Pírata hafi losað úr læðingi ýmis öfl sem ekki hafa fundið sér stað annars staðar í eldri flokkum. Að minnsta kosti er fullt af fólki í Pírötum sem maður myndi seint sjá í þeim flokkum, en finnur samt úti um allt á Íslandi.
E.S.
Þyrfti ekki líka bráðum að finna nýyrði fyrir ráðherra. Herra sem merkir yfirboðari er miklu valdsmannlegra heldur en „minister“ sem merkir upprunalega þjónn. Svo er líka „herra“ frekar karllægt sem sumum finnst ekki töff.
Heilbrigðis-nautur, velferðar-ritari, sjávarútvegs-aðili, umboðsmaður innanríkismála, utanríkis-erindreki, fjármála-verndari ... bara að máta, sendið inn ykkar eigin hugmyndir.
Athugasemdir