Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Svo fokking andlegur

Í jólamánuðinum erum við oft áminnt um að gleyma okkur ekki svo mjög í „efnishyggju“ ljósumhátíðarinnar að við gleymum að hlúa að „andlegu“ hliðinni. Þá staldra ég við og örlítill pirringshrollur hríslast um mig.

Ég veit ekki hvað kemur þér til hugar þegar málefni eru kölluð „andleg“ en þetta er mögulega eitthvað loðnasta orð sem til er. Stundum er verið að vísa til tilfinninga eða geðheilsu, stundum til trúarbragða eða einhvers konar sjálfshjálpar. Þar er hinu „andlega“ teflt fram andspænis hinu „veraldlega“ eða „efnislega“; arfur frá heimsmynd kristninnar. Í þessari tvíhyggju eru ást og lotning og hatur og fyrirlitning „andleg“ fyrirbæri en hlutir eins og granít, vatn, hungurverkir og peningar tilheyra „efnisheiminum“. Það er andlegt að vera ósérhlífinn en efnislegt að vera gráðugur. Þessi tvískipting hefur einkennt andstöðuna gegn kapítalismanum en einnig að vissu leyti greitt götu hans.

 Bókmenntafræðingurinn Terry Eagleton bendir á að því uppteknari sem samfélög eru af frægð, auðsöfnun og valdasamþjöppun, því ginkeyptari eru þau fyrir vel markaðssettum andlegheitum eins og vísindakirkjunni, kaballah og núvitund. Eagleton er með mjög skýrt afmörkuð viðhorf til trúarbragða þannig að hann gerir ekki að því skóna að allir trúarsiðir séu rakinn þvættingur frá rótum (þótt hann líti reyndar vísindakirkjuna hornauga) heldur segir hann að þeir séu flattir út og þeim miðlað eins og hverri annarri söluvöru og þannig glati þeir hvaða gildi sem þeir kunni að hafa haft til að byrja með. 

Trúarbrögð eru í besta falli leikur að táknum til að vingast við alheiminn, í versta falli óskammfeilin svikamylla. En trú er önnur saga.

Sumir félagar mínir á vinstri vængnum draga brattari ályktanir en ég í þessum efnum og tala sér í lagi um núvitund sem kapítalíska lyfleysu til að gera almenning afhuga róttækum aðgerðum til samfélagsbreytinga. Að vissu leyti er ég sammála. Það var jú Marx sem talaði um trúarbrögð sem „ópíum fólksins“ og kristin kirkja hefur í aldanna rás leyft yfirvaldinu (ríkisvaldi jafnt sem auðvaldi) að nota kennivald trúarrita sinna til að treysta valdastoðir sínar. En það er mikilvægt að skoða þessa tilvitnun í heildarsamhenginu. Marx sagði: „Trúarbrögðin eru andvarp hinnar kúguðu veru, hjarta hjartalausrar veraldar og sál sálarlausra aðstæðna. Þau eru ópíum fólksins.“

Trúarbrögð eru í besta falli leikur að táknum til að vingast við alheiminn, í versta falli óskammfeilin svikamylla. En trú er önnur saga. Þessi botnlausa þrá okkar eftir kosmískri tengingu er notuð sem leið til að hafa af okkur peninga, sjálfstæði og samvisku en hún er okkur engu að síður meðfædd og eðlileg. Í henni felst einhver sannleikur sem ekki er hægt að skilja nema með því að þagna algjörlega - jafnt munnur sem hugur - og láta hann streyma inn.

Ég veit. 

Ég er svo fokking andlegur.

[Pása til að klappa sjálfum mér á bakið].

Ef sú núvitund sem við iðkum gerir okkur að passífum gírum í neyslumaskínunni þá er hún ekkert annað en enn ein ópíumafurðin sem við höfum innbyrt til að fylla hið ímyndaða tóm innra með okkur.

En ég er ekki einn þeirra sem vilja meina að maður þurfi að líta á hið andlega og hið efnislega sem ósamrýmanlegar andstæður. Bæði orðin, andi og efni, eru einfaldlega skilti sem við notum til að vísa í áttina að einhverri upplifun. Trésmiðurinn frá Galíleu er kannski talinn skýrasta dæmið um andlega manneskju en boðskapur hans um að hlúa að ekkjum og munaðarlausum og að hinir auðugu ættu erfitt með að öðlast guðsríkið er hreinasta efnishyggja. Við gerum sjálfum okkur stóran greiða ef við hættum að búta veruleikann niður í andstæðupör. Eitt slíkt andstæðupar er ástæðan fyrir því að við gátum lagt heilu vistkerfin í rúst; siðmenning/náttúra.

Lífsspeki á einfaldlega að meta út frá gagnsemi hennar, hvort sem um er að ræða kristni, íslam eða eitthvað sem maður myndi síður kalla trúarbrögð, til dæmis zen eða hin margumtalaða núvitund. 

Ef sú núvitund sem við iðkum gerir okkur að passífum gírum í neyslumaskínunni þá er hún ekkert annað en enn ein ópíumafurðin sem við höfum innbyrt til að fylla hið ímyndaða tóm innra með okkur. Það er fátt eins pirrandi og fólk sem lætur eins og það sé voða fokking andlegt að nota orð á sanskrít sem afsökun fyrir því að skorta samkennd með þeim sem auðvaldið treður undir fótum sér. En ef maður lifir raunverulega í núinu þá mun sú samkennd brjótast fram eðlilega og gera allar aðgerðir í þágu réttlætis og jöfnuðar mikið áhrifaríkari. Ché Guevara er fígúra með köflótta sögu en hann hitti naglann beint á höfuðið þegar hann sagði að sá eiginleiki sem sósíalískur byltingarmaður þyrfti fyrst og fremst að hafa til brunns að bera væri kærleikur. Það er ekki hatur manns út í valdastéttina sem gerir mann að sósíalista heldur kærleikur manns í garð þeirra sem líða skort vegna græðgi annarra.

Það skiptir máli að gera hluti af réttum ástæðum af því að orkan á bak við aðgerðirnar mun alltaf lita útkomuna.

Þegar ég segi að þú sért nákvæmlega eins og þú átt að vera býr hugur þinn eflaust til ýmis mótrök gegn því sem eru góð og gild eins langt og þau ná. En eitthvað annað innra með þér skynjar sannleikann í fullyrðingu minni.

Það er enginn karl í skýjunum að krefja okkur um undirgefni og fylgispekt við ævaforna helgisiði og hegðunarnorm. Allar slíkar kröfur koma frá afturhaldssömum og/eða drottnunargjörnum einstaklingum og stofnunum sem ráða ekki yfir okkur nema við leyfum þeim það. Við getum alltaf tekið ákvörðun sem samfélag — sem lífræn heild — um að hætta að fóðra egó okkar með fantasíum einstaklingshyggjunnar og endurheimta sess okkar í faðmi náttúrunnar. Þegar ég segi svoleiðis hluti hljóma ég örugglega eins og ég sé að reyna að vera voða andlegur. Kannski er ég að því en ég verð bara að hætta á það. Því að það er einungis með heildarhugsun af þessu tagi sem við getum losnað undan þeirri aðskilnaðartálsýn sem gerir okkur að örlaganeytendum og erkifjendum jarðarinnar sem ól okkur.

Þegar ég segi að þú sért nákvæmlega eins og þú átt að vera býr hugur þinn eflaust til ýmis mótrök gegn því sem eru góð og gild eins langt og þau ná. En eitthvað annað innra með þér skynjar sannleikann í fullyrðingu minni. Finnur samhljóminn. Ef svo er þá þarf ekki að segja neitt meira. Hver sá sem hvílir í þeirri innri vitneskju að engu raunverulegu sé hægt að ógna og ekkert óraunverulegt sé til hvort eð er verður að ósigrandi byltingarmanneskju.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni