Ríkinu sé lof
Ég vil tala um hugsjón. Draum sem ég vil að verði að veruleika. Og ég vil ekki stela línum af John Lennon en... ég er ekki sá eini. Takmarkið er kannski ekki á næsta leiti en við getum byrjað strax í dag að sigla í áttina að því. Fyrst þarf þó að skaffa smá samhengi.
Ég er að hugsa um bók.
Nú er stolið úr mér hvað bókin heitir. Ég var með hana í kennaranáminu. Bandarísk bók, man ég þó. Dæmigerð kanakápa á henni; kennari í stofu með furuskóg af uppréttum höndum fyrir framan sig og gott ef blessaður randa- og stjörnufáninn hefur ekki líka verið í mynd. En það var eitthvað við þetta sem angraði mig.
Uppréttar hendur út um allt geta þýtt „áhugasamir nemendur“. Alla vega áhugasamir um að svara spurningunni sem kennarinn var að varpa til þeirra. En kannski var það meinið; algjört vald kennarans. Uppréttar hendur geta líka þýtt Nürnberg-mannhafið, svo ég noti örlítið ýkta samlíkingu. Myndin gefur til kynna hlýðni bandarísku nemendanna. Er þessi fylgispekt líka til staðar á Íslandi?
Ég hef heyrt marga (aðallega kristna) kunningja tala um að Íslendingar séu agalausir og beri enga virðingu fyrir yfirvaldi. Þetta er kannski rétt í samanburði við Bandaríkin þar sem hollustueiður er svarinn á hverjum morgni í skugga blaktandi gunnfána. En skólakerfið okkar er þó nokkuð dæmigert á alþjóðavísu í þessum efnum. Börnum er kennt að hlýða og lúta yfirvaldi og þegar þau losna úr skóla situr þetta í þeim.
Sú hugmynd að lög búi yfir einhverjum innbyggðum heilagleika er kölluð legalismi.
Yfirvald og legalismi
Ef mamma þín segir þér að taka til þá tekur þú til. Ef kennarinn segir þér að skila verkefni þá skilar þú verkefni. Til að kerfið gangi upp. Þetta verður svo til þess að ef yfirmaðurinn segir þér að vinna meira þá vinnur þú meira. Og ef lögreglan segir þér að hætta að mómæla og sýna að þú hafir ekkert dóp í nærbuxunum þá leggur þú frá þér skiltið og ferð úr.
Af því að það eru landslög.
Sú hugmynd að lög búi yfir einhverjum innbyggðum heilagleika er kölluð legalismi. Og það eru ekki bara fasistar eða trúrofstækismenn sem hneigjast til legalisma. Frelsissinnum finnst þeir oft neyðast til að lúta honum líka. Mannréttindahreyfing sjöunda áratugarins í Bandaríkjunum kom oft með vísanir í stjórnarskrá landsins og þeir sem berjast fyrir lítilmagnanum eiga það til að týna sér í kröfum um að alþjóðafyrirtæki „hlýði lögum“ eða séu „meðvituð um skyldu sína“ gagnvart samfélaginu.
Hið löglega dylur hið siðlausa
Lög, skyldur og svo auðvitað... viðurlög. Hver var vörn útrásar-bankamannanna á Kvíabryggju sem veittu viðtal á Stöð 2 í janúar 2016?
"Það er langur vegur frá því að maður hefði viljað gera eitthvað öðruvísi yfir í það að hafa gert eitthvað ólöglegt." Þetta er rétt hjá bankaöðlingnum á Kvíabryggju. Hið fyrrnefnda hefur með siðferðisvitund manns sjálfs að gera. Hið síðarnefnda með löggjöf. Hið fyrrnefnda segir manni hvers konar manneskja maður er. Hið síðarnefnda hversu góður maður er að hlýða.
Hér stendur hnífurinn í kúnni. „Við gerðum ekkert ólöglegt“ er fullkomlega gild vörn ef við göngum út frá legalisma. Þá geta andstæðingar manns bara sagt „jú víst“ og rifrildið snúist um bókstaf í greinum og viðaukum löggjafar í stað þess að snúast um samvisku. Sams konar þras spinnst upp í kringum kynferðisbrotamál og orðhengilshátt varðandi femínisma. Ef við hættum hins vegar að spyrja „er þetta löglegt“ og förum þess í stað í hreinskilnari umræðu um samvisku náum við að komast að kjarna málsins.
Það að eitthvað stríði gegn samvisku manns þýðir að maður gerir það fyrir sjálfan sig að sleppa því. Það að eitthvað sé ólöglegt þýðir að maður gerir það fyrir yfirvaldsstofnun að sleppa því.
Orðið samviska er æðislegt. Það snýst í raun ekki um rétt eða rangt enda eru þau hugtök gildishlaðin og einstaklingsbundin. Samviska nær yfir þá hluti sem við vitum innra með okkur af þeirri einföldu ástæðu að við erum manneskjur. Þeir hlutir sem við Vitum Saman. Þess vegna þarf enginn að vera hræddur við umræðu um samvisku. Hún er öllum í hag af því að við erum öll eitt.
Ég er ekki algjörlega skyni skroppinn. Ég veit alveg að fólk ber ekki fyrir sig útúrsnúningum á lagaákvæðum bara til að vinna rifrildi heldur oft til að komast undan refsingu; fjársektum, frelsissviptingu og jafnvel ofbeldi. Og þess vegna þurfum við að taka aðra breytu með í dæmið; ríkið.
Hver mundar kylfuna?
Það að eitthvað stríði gegn samvisku manns þýðir að maður gerir það fyrir sjálfan sig að sleppa því. Það að eitthvað sé ólöglegt þýðir að maður gerir það fyrir yfirvaldsstofnun að sleppa því. Þess vegna má segja að formaður Miðflokksins hafi opinberað siðblindu sína alveg óvart fyrir þremur árum með því að segjast byggja siðferði sitt á „lögum og reglu.“
Legalismi gerir mann að ábyrgðarlausu ungabarni undir forræði ríkisforeldris. Samviska er hið eina sanna persónufrelsi. Og Sigmundur Davíð er svo ólánssamur að hafa enga samvisku. Eða alla vega virkar ekki lengur usb-snúran yfir í samvisku hans.
Af sömu ástæðu var sérstaklega opinberandi að heyra forríka bankamenn segja um dóma sína: „Við gerðum þau mistök að treysta á kerfið.“ Já, það gerði líka fólkið sem missti húsið sitt út af glæfrakapítalismanum sem þeir störfuðu innan. Við treystum á kerfið. Þess vegna búum við við þann ójöfnuð og ómanneskjulegheit sem raun ber vitni í dag. Og þess vegna er öll umbótastefna sem hefur ekki milliliðalaust lýðræði að endanlegu markmiði gjörsamlega gagnslaus.
Ef Útópía er ekki í siglingakortum okkar þá munum við aldrei komast lönd né strönd. Og Útópía er ríkisvaldslaus.
Réttindabarátta innan þrepaskipts þjóðfélags er þarft verk til varnar þeim sem troðast undir í auðsöfnunarbrjálæði hinna vel stæðu. En sú barátta fer óhjákvæmilega fram í varnarstöðu og á vissum tímapunkti verðum við, sem mannlegt samfélag, að hefja sjónir okkar hærra. Það þýðir að við þurfum að líta inn á við og sjá að ekkert okkar verður raunverulega hamingjusamt með því að byggja lífsgæði sín á þöggun og skorti annarra.
Ef Útópía er ekki í siglingakortum okkar þá munum við aldrei komast lönd né strönd. Og Útópía er ríkisvaldslaus. Báknið verður ekki leyst upp á morgun og það verður ekki gert með valdi eða offorsi. Það myndi jafngilda því að berjast gegn eldi með eldi (eitt heimskulegasta orðatiltæki sem til er á engilsaxneskri tungu). Til að slökkva eld er vatn mun gagnlegra en eldur. Eina leiðin til að losna við ríkisvaldið er að láta það úreldast. Að byggja samskipti okkar á svo manneskjulegum grunni að á endanum verði engin þörf fyrir fjársektir eða fangelsi.
Einn klassískur frjálshyggjuhugsuður (stolið úr mér hvað hann hét) benti á að tré sem hefði verið heflað niður í kylfu væri ólíklegt til að bera lauf. Og þannig væri með samfélög; um leið og maður beitir einn hóp valdi, jafnvel þótt það sé til að vernda annan hóp, þá er valdbeiting komin til að vera. Valdbeiting er ofbeldi og ofbeldi hefur sína eigin innri lógík og er hverfulli en íslenskt veðurfar.
Enginn þroski án samvisku
Ég skal því taka undir það að það situr illa í mannlegri samvisku að læsa fólk inni. En það situr líka illa í mannlegri samvisku að starfa gagnrýnislaust fyrir fyrirtæki sem stuðlar að ómældum þjáningum varnarlauss fólks. Eina ástæðan fyrir því að við kyngjum því að fangelsisdómar og séreignarkúgun megi eiga sér stað er sú að við spyrjum ekki samviskuna. Við spyrjum „pabba og mömmu“ (ríkið og yfirmennina) og notum leyfið sem þau gefa okkur sem staðgengil fyrir samvisku.
Legalismi heftir andlegan þroska okkar.
„Af hverju má hann kúga fólk en ekki ég?“ „Við eigum að skiptast á að halda á kylfunni; mamma sagði það!“ Þess vegna getur allt orðið svona loðið í kynferðisbrotamálum. Við eigum aldrei eftir að semja löggjöf sem gerir það að verkum að fórnarlömb fái alltaf réttlæti og að saklausir menn séu aldrei dæmdir að ósekju.
Lög eru kassalaga og klunnaleg. Ill nauðsyn í ófullkomnu skipulagi. En samviskan er óskeikul. Ég skal segja þetta aftur; samviskan er ÓSKEIKUL. Og við búum öll yfir henni. Hún er gullkistan okkar. Við þurfum bara að vakna og opna hana. Hætta að fela okkur bak við ríkið og fullorðnast. Við þurfum ekki að vera hrædd við frelsi.
Sumir segja: „Ríkisvaldslaust samfélag er ópraktískt. Ef við leggjum niður ríkisvald þá fer fólk að stela, drepa og nauðga og dópa sig í hel.“
Þá andvarpa ég og hugsa: „Guði sé lof fyrir að slík grimmd þekkist ekki í okkar samfélagi.“
Eða öllu heldur:
„Ríkinu sé lof.“
Athugasemdir