Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Nýja kommagrýlan í suðri

Nýja kommagrýlan í suðri

Þeir sem aðhyllast nýfrjálshyggju hafa áratugum saman komist upp með að láta eins og markaðssinnuð hugmyndafræði sé ekki í raun hugmyndafræði heldur einfaldlega óumdeilanleg hagfræði. Þessi forréttindi hægrimanna eru nú að víkja og fólk er farið að átta sig á því að kapítalismi er ekkert náttúrulögmál. Að þjónkun við hina auðugu muni ekki endilega leiða af sér almenna velsæld. En hægrimenn komust svo lengi undan því að þurfa að færa rök fyrir skoðunum sínum að þegar umræðan opnaðist aftur við algjört skipbrot nýfrjálshyggjunnar fyrir áratug þá höfðu þeir engin svör við kröfum um róttækar breytingar.

Og enn þann dag í dag...

...ekkert.

Ein sneið af ekkertinu var álitsgrein Jónu Sólveigar Elínardóttur, fyrrverandi varaformanns Viðreisnar, í maí síðastliðnum. Hann heitir „Sósíalistar ala á sundrungu.” Ég svaraði pistlinum skömmu eftir birtingu hans og ætla ekki að rekja innihald þeirra skoðanaskipta nánar hér. Ég skrifaði þar, og stend við það, að í grein Jónu sé „lesandinn ávarpaður sem einfeldningur sem hefur bara lesið um kommúnisma í John Clancy sögum eða heyrt um hann i kennslustundum hjá Hannesi Hólmstein.“ Þar er ekki við hana sjálfa að sakast. Hún hefur ósköp einfaldlega ekki fengið neina æfingu í að verja kapítalismann og öldungarnir á hægri vængnum hefðu ekki getað ráðlagt henni öðruvísi en að segja: „Notaðu sósíalisma sem skammaryrði og talaðu um brauð-biðraðir í Sovétríkjunum.ׅ“

En Sovétríkin heyra sögunni til og orðið sósíalismi er löngu hætt að hræða almenning.

Hvað gera bændur þá?

Aaa... hvað með Venezuela?

Já, Venezuela er nýja kommagrýlan þannig að nú er full ástæða til að afflækja kjaftæðið frá staðreyndunum varðandi sögu og samtíma þess lands.

Norður-amerísk ögrun af gamla skólanum

Um daginn hélt John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, á skrifblokk þar sem á stóð m.a. “5000 troops to Columbia.“ Í ljósi þess að Trump-stjórnin hefur nýlega orðið herskárri en áður í andstöðu sinni við Maduro-stjórnina í Venezuela er eðlilegt að taka þessu sem hótun um innrás í landið yfir landamærin frá Kólumbíu. Hvort eitthvað verður af því er svo önnur saga. Vera má að Bandaríkjastjórn hugnist betur að halda sig við kostnaðarminni leiðir til að grafa undan stjórninni í Caracas. Olíuviðskiptabann Bandaríkjanna á Venezuela, sem beinist að ríkisfyrirtækinu PDVSA en undanskilur útibú Chevron og Haliburton í landinu, er bein stríðsyfirlýsing og mun auka enn við uslann og eymdina þar í landi. Allt til þess að koma Nicolás Maduro og hans mönnum frá völdum.

Margt hefur unnið gegn framgöngu sósíalísks draums Bólívarista og einfeldningslegt væri að setja vanhæfni Maduro fram sem einu breytuna í því dæmi. 

Nú hefur löngum verið svo í umræðu um átök af stjórnmálalegum toga að álitsgjöfum sé uppálagt að velja sér annan hvorn aðilann í slagnum og styðja hann eins og fótboltabulla allt til enda. Við þurfum ekki að kyngja slíkri tvíhyggju. Þegar við mótmæltum innrásinni í Írak árið 2003 reyndu sumir að útmála okkur sem stuðningsmenn Saddams Hussein og við létum það sem vind um eyru þjóta. Sömuleiðis skellum við skollaeyrum við þeim sem gera að því skóna að andstaða við þátttöku vestrænna ríkja í eyðileggingu Sýrlands jafngildi stuðningi við Bashar Al-Assad eða að andóf gegn hernámi Ísraela hljóti að byggja á fordómum gegn gyðingum eða stuðningi við íslamískar hreyfingar á meðal Palestínumanna.

Það er ekki alltaf annað hvort eða.

Ég get því sagt það hreint út að í Venezuela er hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan „góði kallinn.“ Óánægjan með störf haltrandi stjórnar Nicolás Maduro er vel skiljanleg og margir í röðum þeirra sem vilja að hann víki eygja ósköp einfaldlega von um að með stjórnarskiptum batni ástandið. En saga ýmissa afla innan stjórnarandstöðunnar er í meira lagi fyrirlitleg og nær yfir valdaránstilraunir, skipulagningu ofbeldishópa og efnahagslegar þvingunaraðgerðir gegn samborgurum sínum. Og ekki má gleyma því að Maduro-stjórnin hefur lýðræðislegt umboð og stuðning almennings vegna þess árangurs sem stjórn forvera hans náði í að bæta hag hinna verst settu.

Bólivaríska byltingin sem hófst í lok tuttugustu aldar, með Hugo Chávez í fararbroddi, hafði í för með sér stórkostlegar lífskjarabætur fyrir þjóðfélagshópa sem höfðu fram að því verið algjörlega vanræktir af stjórnvöldum. En því ber ekki að neita að arftaka Chávez hefur mistekist herfilega að halda þeirri þróun áfram. Margt hefur unnið gegn framgöngu sósíalísks draums Bólívarista og einfeldningslegt væri að setja vanhæfni Maduro fram sem einu breytuna í því dæmi. En vissulega spilar hún inn í.

Sagan í stuttu máli

Segja má að þessi saga hefjist þegar gegnumrotið tveggja flokka stjórnkerfi Venezuela hrundi við kosningu sósíalistans Hugo Chávez í forsetaembættið. Ástandið í fjár- og spillingarmálum fram að þeim kosningum hafði verið fyrir neðan allar hellur. Chávez vann sér inn reiði eignastéttarinnar, meðal annars með umfangsmikilli þjóðnýtingu, og með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar reyndi stjórnarandstaðan í landinu að fremja valdarán árið 2002 en almenningur stóð við bakið á forsetanum og tilraunin mistókst. Bandarísk stjórnvöld hafa ætíð talað um Chávez sem einræðisherra sem má teljast nokkuð undarlegt í ljósi þess að hann var lýðræðislega kjörinn, ólíkt valdaránsöflunum sem Bandaríkin vildu koma til valda.

Carter-miðstöðin, sem fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn Jimmy Carter var í forsvari fyrir, fylgdist grannt með framkvæmd kosninga í Venezuela og gaf þá umsögn að kjördagsframkvæmdir þar væru með þeim bestu í heimi. Til samanburðar mætti spyrja: Hver man eftir klúðrinu í Florida árið 2000? En staðreyndir þvælast ekki mikið fyrir bandarískum hægri mönnum. Sjónvarpsprédikarinn Pat Robertson lagði meira að segja til hliðar öll kærleiksboð frelsarans og lét hafa það eftir sér árið 2005 að Bandaríkin ættu að myrða forseta Venezuela til að greiða fyrir olíuviðskiptum milli landanna og segir það meira en mörg orð um stöðu kristindómsins á meðal hægri manna í Vesturheimi.

Jesús er góður.

En peningar eru betri.

Á árunum frá 2003-2007 dróst fátækt heimila saman um helming og sárasta fátæktin um 70%.

Ef lýðræðisást væri hvati bandaríska heimsveldisins væri það ekki með Venezuela í sigtinu heldur bandamenn sína í Sádí-Arabíu sem stofnunin National Democratic Institute kallar eitt ólýðræðislegasta ríki í veröldinni. Þá myndi Trump-stjórnin krefja Mohammad bin-Salman um umbætur í stað þess að selja Sádum metfjölda vopna til að murka lífið úr almenningi í Jemen. Nei, það voru ekki gerræðistilhneigingar Maduro sem komu honum í vond mál gagnvart Bandaríkjamönnum heldur árangur fyrirrennara hans í útrýmingu fátæktar. Á árunum frá 2003-2007 dróst fátækt heimila saman um helming og sárasta fátæktin um 70%. Sósíalískar umbætur Chávez höfðu líka í för með sér tólf-falda fjölgun heimilislækna í landinu, auk stórfelldra umbóta í menntun barna og aukningar í matargjöfum til nauðstaddra.

Það að deila auði í trássi við boðorð markaðshyggjunnar er hegðun sem Bandaríkin líta á sem hættulegt fordæmi; veiru sem getur breiðst út og smitað fleiri þjóðir. Hugo Chávez á því heiður skilinn að hafa staðið við loforð sín til þeirra sem minna máttu sín þrátt fyrir heift herveldisins í norðri. En hann var vitaskuld ekki dýrlingur. Áður en hann hóf lýðræðislega þátttöku í stjórnmálum hafði hann sjálfur reynt að fremja valdarán, árið 1992, og honum entist ekki heldur aldur til að gera umbætur sínar fyllilega að veruleika eða koma í gagnið varúðarráðstöfunum ef olíuverð skyldi hrynja.

Ein sjónvarpsstöð andstæðinga forsetans – sem fagnaði valdaráninu árið 2002 og hvatti til fleiri slíkra – fékk ekki að endurnýja sjónvarpsleyfi sitt árið 2007 sem hafði í för með sér viss kælingaráhrif á aðra gagnrýna miðla. En þeir sem halda því fram að allir starfandi fjölmiðlar í landinu hafi verið á bandi stjórnvalda hafa ekki kynnt sér stöðu mála þar í landi. Þannig var hvorki ástandið á þeim tíma né í stjórnartíð arftaka hans.

Hvað veldur eymdinni?

Árið 2017 fór fréttakonan Abby Martin til Caracas og bar þess vitni að frásagnir um að fjölmiðlaumfjöllun í landinu væri öll hliðholl Maduro væru einfaldlega ósannar. Einnig rannsakaði hún stöðu stórmarkaða og komst að þeirri niðurstöðu að vöruskortur í landinu væri ekki almennur heldur vantaði stakar vörutegundir inn á milli, sem stafaði af því að viss fyrirtæki í landinu ýmist hægðu á framleiðslu sinni, tækju sumar vörur alfarið úr framleiðslu eða smygluðu varningi til nágrannalanda til að komast framhjá verðstýringu ríkisstjórnarinnar í þágu fátækra. Þessi fyrirtæki hafa horn í síðu stjórnvalda fyrir að takmarka gróða þeirra. Einnig sagði Abby Martin að viss skekkja fælist í því að fjölmiðlar í Bandaríkjunum og Evrópu gerðu mótmælum andstæðinga stjórnarinnar góð skil á meðan enn fjölmennari göngur til stuðnings Maduro birtust ekki í fjölmiðlum í þeim löndum.

Í skjalaleka frá árinu 2006 kom fram að OTI, hluti af opinberu bandarísku stofnuninni USAID (United States Agency for International Development), hafði það meðal annars í verkahring sínum að koma sínu fólki fyrir á meðal stuðningsmanna Chávez, koma þar deilum af stað og einangra forsetann á alþjóðavísu. Þannig að þegar því er haldið fram að Bandaríkin hafi unnið gegn Venezuela árum saman er einfaldlega verið að benda á skrásetta staðreynd, alveg sama hvernig hverjum líst á að kyngja þeim sannleika.

Rómanska Ameríka man hvernig ástandið var fyrir tíma bleiku bylgjunnar. Hún man hvernig var þegar hér um bil hverju einasta ríki sunnan við Tijuana var stjórnað úr bandaríska sendiráðinu.

Það myndi reynast háþróuðu iðnríki erfitt að bæta kjör íbúa sinna með stærsta heimsveldi veraldarsögunnar á bakinu og teljast má merkilegt að þróunarríkið Venezuela skuli hafa staðið undir þeim þunga eins lengi og það gerði. En nú er það komið að niðurlotum og hafa orsakir þess verið raktar hér; einsleitur útflutningsgeiri sem féll saman með svimandi lækkun olíuverðs, efnahagslegar skemmdaraðgerðir og ofbeldisfull mótmæli skipulögð af innlendum eignamönnum með beinum fjárstuðningi Bandaríkjanna, auk vanhæfni og siðferðilegs ístöðuleysis Nicolás Maduro og stjórnar hans. Einnig má bæta því við að þurrkar af völdum El Niño hafa haft hrikaleg áhrif á vatnsaflsvirkjanir í Venezuela, sem framleiða um 70% af öllu rafmagni í landinu.

Hefðu Bandaríkin og bandamenn þeirra haft áhuga á því að leggja ríkinu lið við þessar erfiðu aðstæður hefði aðferðafræðin verið allt önnur. Nú er ekki orðið of seint að rétta hjálparhönd en það er ekki gert með einhliða stuðningsyfirlýsingum við hinn nánast óþekkta forseta þjóðþingsins í stað þess forseta sem venezuelska þjóðin kaus, og þaðan af síður með hótunum um innrás. Rómanska Ameríka man hvernig ástandið var fyrir tíma bleiku bylgjunnar. Hún man hvernig var þegar hér um bil hverju einasta ríki sunnan við Tijuana var stjórnað úr bandaríska sendiráðinu.

Fólkið í Venezuela mun aldrei fagna bandarísku innrásarliði, sama hversu illa forseti þeirra stendur sig. Í landinu gæti borgarastyrjöld verið að hefjast og ef það gerist er hið eina rétta í stöðunni að hætta viðskiptaþvingunum og reyna að stuðla að því að aðilarnir í átökunum komi að samningaborðinu með einhvern trúverðugan þriðja aðila sem sáttasemjara. Og þegar ég segi trúverðugan þriðja aðila meina ég vitaskuld ekki Bandaríkin.

Við verðum að þroskast upp úr Rambó-hugarfarinu og hætta að reyna að leysa allar heimsins krísur með heimsvaldaofbeldi. Venezuela tilheyrir alþýðu landsins, ekki hinum mistæka Maduro, ekki köflóttri stjórnarandstöðunni eða samviskulausri eignastettinni og þaðan af síður herveldinu i norðri.

Óskalandið

Ég hef oft vitnað í orð írska leikritaskáldsins Oscars Wilde þess efnis að heimskort sem innihaldi ekki Útópíu sé ekki þess vert að líta á. Þessa tilhneigingu vinstri manna grípa hægri menn stundum á lofti sem sönnun þess að við séum annað hvort með höfuðið í skýjunum eða að við höfum einhverja tiltekna fyrirmynd að þjóðfélagsskipulagi í huga. Þetta er arfur þess tíma þegar íslenskir kommúnistar horfðu með stjörnur í augum til roðans í austri. Og eins og fram kom í upphafi þessa pistils halda hægri menn í dag að opinberanirnar um Stalínismann hafi ekki kennt vinstri mönnum neitt. Þess vegna nota þeir Venezuela sem nýja kommagrýlu og segja að allir sem vilji sósíalisma sækist eftir að Ísland falli í hendur leiðtoga eins og Nicolás Maduro.

„Venezuela, óskalandið, hvenær kemur þú?“

Réttið upp hönd, sósíalistar sem lesið þetta, ef þið viljið að Ísland verði að Venezuela!

Ég get sagt með nokkurri fullvissu að enginn þeirra hafi lyft svo mikið sem litlafingri.

Sósíalisminn knésetti ekki Venezuela. Heimsvaldastefnan og vanhugsuð viðbrögð þarlendra stjórnvalda við henni samverkuðu til að koma því í kring. Og nú eru Trump og félagar ólmir í að gera þetta Suður-Ameríkuland að nýju Víetnam.

Sósíalistar vilja auðvitað gera vissa hluti eins og Venezuela; auka fjárveitingar til velferðamála, valdefna launafólk og bótaþega og draga úr ójöfnuði. En það voru ekki þær aðgerðir sem færðu okkur skálmöldina í Caracas. Sósíalisminn knésetti ekki Venezuela. Heimsvaldastefnan og vanhugsuð viðbrögð þarlendra stjórnvalda við henni samverkuðu til að koma því í kring. Og nú eru Trump og félagar ólmir í að gera þetta Suður-Ameríkuland að nýju Víetnam. Ef lesandinn er hrifinn af þeirri hugmynd er ég voða hræddur um að hann þurfi að leggjast í alvarlega sálarskoðun. Eða í það minnsta að líta í sagnfræðirit.

Nei, Venezuela er ekki lokatakmark sósíalista. Skandinavía kemst nær því en er líka ófullkomin fyrirmynd. Draumar almennings um betri framtíð takmarkast ekki við þá valkosti sem fólk eins og áðurnefnd Jóna Sólveig vill tjóðra þá við – annars vegar velsæld sumra í skjóli eigna- og valdaleysis annarra eða eymd allra í vanþróuðu ríki með óðaverðbólgu og unga lýðræðishefð í heimsálfu sem hefur ríka sögu af herforingjastjórnum.

Við látum ekki bjóða okkur svona falska kosti. Við getum gert kröfur um betri hluti. Og við getum komið þeim í kring með samtakamættinum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni