Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Kynslóðin sem kýs ekki

Skopmyndir Halldórs í Fréttablaðinu hitta oft í mark en að þessu sinni sýnist mér hann hafa verið eitthvað illa fyrir kallaður. Hér veltir kona því fyrir sér hvers vegna hún má þola atvinnuleysi, skuldir, himinháa leigu og námslán, svo að fátt eitt sé talið, en svarið er gefið í skýringartexta (sem er sjaldan hafður með í teikningum Halldórs sem betur fer). Konan tilheyrir nefnilega „kynslóðinni sem kýs ekki af því að allir stjórnmálamenn eru hálfvitar.“

Ég held það sé ekki ósanngjarnt hjá mér að staldra aðeins við þann beiskjufnyk sem leggur af þessari ádeilu. Ekki misskilja samt. Að vissu leyti tengi ég við beiskjuna yfir kosningum. Að fólk skuli enn þann dag í dag kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og svipað þenkjandi flokka eins og 2008 hafi aldrei gerst er mér hulin ráðgáta. En fingri Halldórs er hér ekki beint að þeim kjósendum heldur hinum sem sjá enga ástæðu til að kjósa af því að ekkert muni hvort eð er breytast.

Ég er sammála þeirri augljósu undirliggjandi forsendu Halldórs að skárra væri ef gömlu auðvaldsflokkunum væri komið frá en hversu langt myndi sú breyting ná? Þá sem vildu óska þess að aðrir flokkar kæmust til valda vil ég spyrja einnar spurningar: Hvað hafið þið að segja við þá kjósendur sem greiddu VG atkvæði árið 2017; atkvæði sem voru notuð til að koma blágræna íhaldssamsuðunni aftur til valda? Hvað gerðu þau atkvæði til þess að létta byrðinni af teiknuðu konunni?

Með öðrum orðum; hvað á að kjósa til að hlutirnir breytist til hins betra?

Hér er tilvitnun í The Who viðeigandi:

 

I tip my hat to the new constitution

Take a bow for the new revolution

Smile and grin at the change all around

Pick up my guitar and play

Just like yesterday

Then I get on my knees and pray

We don't get fooled again

 

Lagið endar á orðunum frægu: Meet the new boss – Same as the old boss. Gömul saga og ný. Ég tek það þó fram að ég er ekki að öllu leyti ósammála Halldóri hér. Ég hef ímugust á þeirri ódýru bölsýni sem gerir illa upplýstu fólki kleift að skríða inn í púpu og láta sem engar aðgerðir í þágu samfélagslegs réttlætis séu neins virði vegna þess að „á endanum fari allt til andskotans hvort eð er.“

Sjálfur hef ég alltaf kosið en eins og aðrir á Íslandi treysti ég Alþingi minna og minna með hverju kjörtímabilinu sem líður.

En róttækar aðgerðir eiga ekki að byrja og enda við kjörkassann. Ég ber virðingu fyrir þeirri afstöðu margra Íslendinga að atkvæði í þingkosningum séu gagnslaus í samanburði við aðrar, róttækari aðgerðir. Sjálfur hef ég alltaf kosið en eins og aðrir á Íslandi treysti ég Alþingi minna og minna með hverju kjörtímabilinu sem líður.

Skoðum endilega eitt frægasta dæmi um það þegar bölsýnisprédikararnir höfðu rétt fyrir sér.

 

„Við getum það víst!“

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, verpti eftirfarandi gulleggi á mánudaginn 8. apríl í heimsókn sinni til Berlínar:

"Eitt af því sem ég hef stundum áhyggjur af varðandi framfarasinna [það sem fólk til vinstri við Demókrataflokkinn er kallað - mitt innskot] í Bandaríkjunum, kannski er það tilfellið hér líka, er tiltekin tegund af stífni þar sem við segjum: „Ja, sorrý, en við munum hafa þetta svona.“ Og þá búum við stundum til það sem kalla mætti „hringlaga aftökusveit“ þar sem byrjað er að skjóta á bandamenn sína vegna þess að einn þeirra víkur sér undan hreinleika í málefnunum.“

Þetta er orðin bragðlaus tugga í orðræðu stjórnmálanna: að vinstri menn séu vinstri mönnum verstir. Að ekki megi vera ósveigjanlegur í sambandi við málefni. Þeir sem sáu myndina Vice fengu innsýn í það hversu annt hægri mönnum er um málefni þegar Dick Cheney spurði Donald Rumsfeld í stjórnartíð Nixons hverjar hugsjónir Repúblikanaflokksins væru og uppskar háværan hlátur. Obama er af sama skóla í pólitík og Cheney og Rumsfeld. Hljómar það ósanngjarnt? Skoðum þá aðra tilvitnun úr sömu ræðu hjá honum:

"Maður verður að átta sig á því að sú formgerð sem við höfum valið fyrir lýðræðið gerir það að verkum að taka verður með í reikninginn fólk sem er ekki sammála manni og að af því leiðir að maður mun ekki fá 100 prósent af því sem maður vill.“

Enginn heldur að hægt sé að fá 100% af stefnumálum sínum í gegn. Það er augljós strámaður. En hér er Obama að vísa í umbætur í heilbrigðiskerfinu í landi hinna frjálsu og heimili hinna kokhraustu; umbætur sem myndu ganga mun lengra en sú löggjöf sem er kennd við hann, þ.e.a.s. gera heilbrigðisþjónustu að grundvallarréttindum landsmanna eins og í öllum öðrum iðnríkjum.

Þess vegna er óheiðarlegt af honum að tala um skoðanaágreining. „Fólkið sem er ekki sammála“ Bernie Sanders, Alexandria Ocasio-Cortez og fleiri framfarasinnum í bandarískum stjórnmálum um það að gera eigi fólki kleift að njóta heilbrigðisaðstoðar án þess að fara á hausinn er ekki almennir kjósendur. Ekki einu sinni kjósendur Trumps. 70% landsmanna þar í landi vilja þessar umbætur.

Hverjir vilja þær ekki?

Þeir sem hafa makað krókinn á kerfinu sem er til staðar í dag.

Bankamennirnir sem völdu mannskapinn í ríkisstjórn Obama og borguðu vel í kosningasjóði hans, meðal annarra.

Það var fólkið sem hann vann fyrir.

Hann bauð sig fram sem baráttumaður fyrir launafólk og fékk aðalslagorð sitt, “Yes, we can” að láni frá sósíalistanum Dolores Huerta (“¡Si, se puede!”) en þegar að samningaborðinu kom var „Við getum það víst!“ búið að breytast í „Við gerum það sem fjármálaöflin leyfa okkur.“ 

Kerfisbreytingarnar sem Obama innleiddi í heilbrigðismálum (e. the Affordable Care Act) voru mótaðar hér um bil nákvæmlega eftir áratugargamalli forskrift Repúblíkana og komu lítið niður á hagnaði lyfjafyrirtækja og tryggingarisa. Tugir milljóna landsmanna áttu enn ekki efni á lyfjum sínum eða læknaheimsóknum eftir að löggjöfin var samþykkt. Forsetinn kvaðst helst hafa viljað að ríkið bæri kostnað allrar heilbrigðisþjónustu en hann lagði þá tillögu aldrei einu sinni á borðið í samningaviðræðum.

Hann bauð sig fram sem baráttumaður fyrir launafólk og fékk aðalslagorð sitt, “Yes, we can” að láni frá sósíalistanum Dolores Huerta (“¡Si, se puede!”) en þegar að samningaborðinu kom var „Við getum það víst!“ búið að breytast í „Við gerum það sem fjármálaöflin leyfa okkur.“

Finnst einhverjum enn ósanngjarnt að kalla Obama hægrimann? Í alvöru? Hvað með eftir að ég bendi á að þrátt fyrir að meirihluti almennings í Bandaríkjunum hafi, samkvæmt könnunum, í rúma þrjá áratugi viljað að auðmenn og fyrirtæki borguðu hærri skatta þá framlengdi Obama skattalækkanir forvera síns í þágu efnamestu Bandaríkjamannanna árið 2010?

Dugir það?

Ekki?

Hvað með hans eigin orð?

„Sannleikurinn er sá að stefna mín rímar svo mikið við ríkjandi stefnu að ef ég hefði lagt fram sömu stefnumálin á níunda áratuginum þá hefði ég verið kallaður hófsamur Repúblíkani.“

Hann þurfti stuðning hugsjónafólks á vinstri vængnum og minnihlutahópa til að vinna forsetakosningarnar árið 2008. Hann fékk þann stuðning með því að tala um breytingar og háleitar vonir. Eftir það hafði hann ekkert til þess fólks að sækja og stýrði því landinu eins og „hófsamur Repúblíkani.“ Hernaðarumsvif jukust í stjórnartíð hans, fólk sem ljóstraði upp um persónunjósnir og stríðsglæpi var sakfellt og loforð hans um lokun Guantanamo Bay pyntingarbúðanna var einnig svikið.

Auðvitað má færa rök fyrir því að hann hafi verið betri kostur en John McCain eða Mitt Romney og sem fyrirmynd fyrir unga menn í Bandaríkjunum varðandi háttvísi og yfirvegun var hann vitaskuld ljósárum fremri núverandi forseta. En hann er skólabókardæmi um það sem gerist þegar kjósendur treysta málamiðlunarsinnum fyrir róttækum breytingum.

Ekki neitt.

 

Svo í Vesturheimi sem á Íslandi

Já, það er ömurlegt að svo fáir Bandaríkjamenn hafi fengist til að kjósa í nóvember 2016 að stórhættulegur vanviti hafi sest að völdum í Hvíta húsinu. Ég ber ekki á borð neinar afsakanir fyrir þá sem kusu apaköttinn Trump. Þeir verða að eiga það við eigin samvisku. En þeir sem fengu ekki af sér að kjósa Hillary Clinton? Hver ber ábyrgð á heimasetu þeirra? Sumir vilja meina að niðurstaðan sé þeim að kenna. Því er ég hjartanlega ósammála.

Fyrir hvern lukkuriddara eins og Sigmund Davíð er mótframbjóðandi sem vann sér ekki inn traust kjósenda með raunverulegum aðgerðum í þágu almennings.

Kosningabarátta er atvinnuviðtal við þjóðina. Ef stjórnmálamanneskja eyðir megninu af forkosningabaráttunni í að skjóta allar róttækar umbótahugmyndir niður sem óraunsæjar og bróðurparti meginkosningabaráttunnar í að ata auri á mótframbjóðanda sem er of illa gefinn til að skammast sín, í stað þess að leggja fram einhverjar almennilegar umbótatillögur, hverjum er þá að kenna að hún fékk ekki starfið? Hver skapaði tómarúmið sem hálmhausinn með rauða bindið smeygði sér inn í? Hið sama gildir á Íslandi. Fyrir hvern lukkuriddara eins og Sigmund Davíð er mótframbjóðandi sem vann sér ekki inn traust kjósenda með raunverulegum aðgerðum í þágu almennings.

Þeir sem vilja láta hugsjónafólk kjósa sig þurfa að tala tæpitungulaust um raunverulegar aðgerðir í þágu betra samfélags. Svo þurfa þeir að standa við stóru orðin. Nýja verkalýðsforystan er sönnun þess að þetta sé hægt. Á endanum gæti maður þurft að gera einhverjar málamiðlanir. Enginn fullyrðir að hægt sé að ná öllu í gegn sem maður vill, hvað sem Obama heldur. En maður leggur strax á borðið það sem maður vill og berst svo eins og ljón til að ná sem mestu af því í gegn.

Ef stjórnmálaflokkur gerir það þá mun bölsýniskynslóðin kjósa hann. En ef það eina sem sá flokkur hefur fram að færa er óljóst þvaður um bætta hagsæld og loforðapakki sem verður svikinn um leið og íhaldið vill fara í stjórn með honum þá getur hann ekki kennt kjósendum um lélega kosningaþátttöku. Hann finnur sanna sökudólginn í speglinum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni