Kalli Birgis og Stóri, Ljóti Sósíalisminn
Ég vil bera upp spurningu við Karl Th. Birgisson:
Ef ég segði þér að það væri kviknað í borðdúknum, myndirðu vilja klára úr kaffibollanum þínum áður en þú næðir í slökkvitækið?
Þetta kann að hljóma eins og undarleg spurning en hún vaknar hjá mér í hvert sinn sem menn sem kenna sig við vinstrihugsjónir fá hland fyrir hjartað yfir tilfinningahita andkapítalista. Eins og ójöfnuður sé óæskilegur en samt ekkert til að missa sig yfir. Slíka menn kann ég ekki alveg að ávarpa af því að ég veit ekki hvar ég á að staðsetja þá. Ef Karl er sósíalisti þá hefur hann ekkert fylgst með fréttum af loftslaginu eða hlutskipti láglaunafólks ef honum þykir æsingurinn í orðræðu sósíalista vera orðinn of mikill. Nei, hann er Samfylkingarmaður og því hlýtur að teljast líklegra að hann sé krati.
Það er þó ekki sama krati og krati. Ég hef alltaf streist á móti tilhneigingunni að gera lítið úr vinstrikrötum af því að þeir eru náttúrulegir bandamenn okkar róttæklinga. En við hægrikrata, sem nær væri að kalla nýfrjálshyggjukrata, hef ég ekkert að segja. Þeir eru hugmyndafræðilega óaðgreinanlegir frá Sjálfstæðismönnum og meira að segja aðeins verri. Þegar maður með fálkanælu segir þér að það sé óþarfi að æsa sig yfir neyð láglaunafólks þá þykist hann ekki vera neitt annað en trúfífl í hinum alþjóðlega sértrúarsöfnuði Miltons Friedman. En þegar hann reynir að bera slíka drullu á borð flíkandi kratarós eða rauðu essi þá er hann að reyna að gera tvennt í senn; að láta eins og hann búi yfir samkennd með verkalýðnum á meðan hann réttlætir kúgun hans.
Að reka eldhúshníf í bakið á alþýðunni og hvísla um leið í eyrað á henni: „Fyrirgefðu elskan mín, en ég er að gera þetta fyrir þig.“
Ég veit. Þetta er einmitt það sem Karl er að tala um. Við tölum öll í líkingum en sumir nota grófari líkingar en aðrir. Orðalag getur farið fyrir brjóstið á fólki og ekki er alltaf nauðsynlegt að skrúfa á hæsta styrk. Ég get tekið undir þetta með Karli í tilfelli orðsins nauðgun. Og ég skal leyfa honum að njóta vafans til að byrja með og gefa mér að hann sé vinstrikrati (eins og hann gefur sjálfan sig út fyrir að vera í pistlinum sínum). Tökum því punkta hans fyrir, einn í einu.
Í pistlinum sínum leikur Karl nefnilega einn leik sem margir hafa leikið til varnar óbreyttri samfélagsmynd; fölsk jafnaðarmerki. Hvað heitir það annað en óheiðarleiki að leggja að jöfnu lýðhyggju sósíalista og lýðskrum hægriöfgamanna?
Ég læt það eiga sig, plássins vegna, að elta ólar við það hvort Gunnar Smári Egilsson hafi rétt fyrir sér varðandi bakgrunn eða hugmyndafræði manna eins og Ásgeirs Jónssonar eða Breka Karlssonar. En að gera að því skóna að ekki megi benda á það að menn sem sækist eftir áhrifastöðum gangi út frá forsendum nýfrjálshyggjunnar, eða hafi einhvern tímann gert það, er út í hött. Þarna komum við að vissri blindni (eða viljandi heimsku) — þeirri firru að engu máli skipti hvort þankagangur seðlabankastjóra eða formanns Neytendasamtakanna sé kapítalískur eður ei.
Og ég geng ekki svo langt að fullyrða að stéttarvinkilinn vanti algjörlega í bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, en eftir að hafa lesið hana (spjaldanna á milli, ekki bara í bókabúðinni) er mér morgunljóst að ekkert af þeim annars góðu lausnum sem höfundurinn leggur til muni ná fram að ganga nema lýðræðið fái að ná inn á hið efnahagslega svið. Það þýðir ekkert minna en endalok auðvaldsins. Dauði kapítalismans.
Er Karl Th. Birgisson reiðubúinn að taka þátt í baráttunni fyrir því?
Ef ekki þá er hann í besta falli máttlaus bandamaður og í versta falli andstæðingur.
Eða hvað kallar maður manneskju sem vill ekki að maður nái í slökkvitækið þegar borðdúkurinn stendur í ljósum logum?
Í pistlinum sínum leikur Karl nefnilega einn leik sem margir hafa leikið til varnar óbreyttri samfélagsmynd; fölsk jafnaðarmerki. Hvað heitir það annað en óheiðarleiki að leggja að jöfnu lýðhyggju sósíalista og lýðskrum hægriöfgamanna? Þess ber reyndar að geta að Karl talar sjálfur um þessa greiningu sína sem „mjög einfaldaða“ áður en hann gleymir þeim varnagla sínum og gefst bjöguðum samjöfnuði sínum á vald. Það að skilgreina óvin „jafnan hina svokölluðu elítu, sem fer með völdin í samfélaginu og kúgar hina valdalausu” er í frásögn Karls eðlislíkt því að vara við útlendingum „einkum af annarri trú, sem ógna þannig menningu hinna kúguðu.“
Yfirborðsleg greining Karls tekur bara mið af orðanna hljóðan. Af því sem augað eygir. Af háværum manni í pontu og æstum mannfjölda.
Er Karli virkilega fyrirmunað að sjá nokkurn eðlismun á þessu tvennu? Eða er hann kannski af hreinum óheiðarleika að reyna að smyrja skít rasismans framan í sósíalista? Leyfum honum enn að njóta vafans, þó ekki væri nema til að fara efnislega í gegnum rökvilluna. Óvinur alþýðunnar í huga sósíalista er ekki einhver tiltekin manngerð heldur kerfið sem viðheldur ójöfnuði og óréttlæti. Að tilheyra elítunni er hvorki meðfætt né óhjákvæmilegt heldur stofnanahlutverk sem sumir ganga inn í sökum forréttindablindu, græðgi eða samviskuleysis.
Maður fæðist ekki kapítalisti þótt pabbi manns sé það. Að vera elítumanneskja er ekki eins og að vera svartur eða samkynhneigður eða kvenkyns. Og í samfélagi þar sem raunverulegt lýðræði væri til staðar væri engin elíta til og menn eins og Bjarni Ben myndu vera heilsteyptari manneskjur og líða betur í sálinni. Hatur á útlendingum er aftur á móti hatur á manneskjunum sjálfum; á öllum eiginleikum þeirra, meðfæddum jafnt sem lærðum, sem aðgreina þá frá hinum innfæddu.
Þennan greinarmun ætti ekki að þurfa að útskýra fyrir fullorðnu fólki.
Yfirborðsleg greining Karls tekur bara mið af orðanna hljóðan. Af því sem augað eygir. Af háværum manni í pontu og æstum mannfjölda. Samkvæmt þessum þankagangi eru allir hættulegir sem koma einhverju á framfæri sem einhver hópur er svo hjartanlega sammála að hann æsist við að heyra það. Gildir einu í huga Karls hvort þar er um að ræða boðskap samfélagslegrar samkenndar og félagslegs réttlætis eða ofbeldisdýrkunar og hatursorðræðu í garð minnihlutahópa. Og þegar Gunnar Smári talar um uppreisn almennings gegn þeim fjölmiðlum sem draga taum auðvaldsins spyr Karl hvort þetta þýði að hertaka eigi þá miðla, já „eða jafnvel útvarpshúsið?“
Það er á þessum tímapunkti sem við stöndum frammi fyrir ákvörðun. Eigum við að halda áfram að leyfa Karli að njóta vafans og álykta sem svo að hann viti ekki betur? Að hann haldi í alvöru að Gunnar Smári sjái fyrir sér almenning á Íslandi með kalasnikov-riffla fyrir utan Efstaleitið? Að Karl sé svo nývígður inn í íslenska tungu að hann hafi aldrei kynnst myndmáli hennar, sem er smekkfull af sturlungaorðalagi um hversdagslega hluti eins og kappsemi í fótbolta (að ganga milli bols og höfuðs á KR), persónulegar móðganir (þau tíðkast nú breiðu spjótin) og meira að segja fjárglæfrastarfsemi (útrásarvíkingar).
Þetta ber vott um annað hvort fáfræði á stjarnfræðilegum skala eða retórískan óheiðarleika.
Ef maður hefur hlotið alla uppfræðslu sína um sósíalisma í gegnum poppmenningu áttunda og níunda áratugarins í stað þess að kynna sér sjálfur hugmyndafræðilega sögu hans og þróun þá er kannski ekkert skrítið að maður sjái engan mun á stéttleysishugsjón og þriðja ríkinu.
Borgaralegt samfélag elur af sér einstaklingshyggju og visst ofnæmi fyrir stórum hugmyndum. En á umrótatímum, þar sem ríkjandi kerfi hefur brugðist algjörlega og stefnir með mannkynið fram af klettabrún er þörf á stórum hugmyndum. Eins og Bertrand Russell benti á þá liggur spennan milli varfærni og ákefðar eins og þráður í gegnum mannkynssöguna og enginn ætti nokkurn tíma að velja annað hvort þeirra alfarið fram yfir hitt.
Sósíalismi er ekki eitthvað sem Karl Marx fann upp. Hann er jafngamall mannlegu samfélagi og hugsjón hans gengur einfaldlega út á að yfirfæra persónulegan kærleika yfir á hið pólitíska og efnahagslega svið. En ef maður hefur hlotið alla uppfræðslu sína um sósíalisma í gegnum poppmenningu áttunda og níunda áratugarins í stað þess að kynna sér sjálfur hugmyndafræðilega sögu hans og þróun þá er kannski ekkert skrítið að maður sjái engan mun á stéttleysishugsjón og þriðja ríkinu.
Karl segir um Gunnar Smára: „Hann hefur nefnilega skilgreint íslenzka elítu sem ógnina og sinn eigin flokk og stefnu sem eina svarið við ógninni og valdaleysi alþýðunnar.“ En GSE og aðrir fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands hafa ítrekað talað um þennan flokk sem aðeins eitt skref af mörgum í alhliða valdeflingu almennings. Ólíkt Karli hafa sósíalistar lært það af sögunni að sósíalisma verður aldrei komið á í gegnum eitthvað miðstýringarbatterí. Byltingin verður annað hvort raunveruleg uppreisn alþýðunnar gegn kapítalismanum eða prump í vatnsglasi.
Ni Dieu ni maître!
Engir guðir, engir húsbændur!
Karli er guðvelkomið að slást í hópinn. Engra hollustueiða er krafist. Bara raunverulegrar lýðræðisástar og baráttuanda.
Athugasemdir