Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Enginn er ómissandi

Nýverið hugðist ég skoða þáttaröðina Medici, með Richard nokkrum Madden í aðalhlutverki, en sá er kominn framarlega í röð uppáhalds leikara minna eftir glæsta frammistöðu í Game of Thrones og síðar í The Bodyguard. Ekki skemmdi heldur fyrir að hafa þarna Dustin Hoffman í hlutverki föður hans  leikara sem ég hef haldið upp á í áraraðir.

Eða... jú. Reyndar skemmdi það fyrir. Það skemmdi satt að segja svo mikið fyrir að ég kláraði ekki fyrsta þáttinn.

Dustin gamla er ekkert farið að förlast. Hann býr yfir þeim hæfileika að gera persónur sínar að ljóslifandi manneskjum sem úða frá sér persónutöfrum og halda athygli áhorfandans allt frá fyrstu mínútu. Samt slökkti ég í miðjum þætti af því að eitthvað við hann hafði breyst. Það er ekki satt. Eitthvað í mér hafði breyst. Ég var nefnilega nýbúinn að lesa frásögn Önnu Graham Hunter af því þegar hann áreitti hana ítrekað við tökur á sjónvarpsmyndinni Death of a Salesman. Árið var 1985 og hún var sautján ára.

List er óræð skepna sem lætur ekki tjóðra sig við einn eða annan staur. 

Ég skil það að þetta hitti fólk á ólíkan hátt. Að sumir geti notið snilldar Hoffman án þess að hugsa um þessa svæsnu hlið á honum. Anna Graham Hunter segist sjálf enn njóta þess að horfa á Tootsie og All the President’s Men og ég hlusta enn stundum á tónlist John Lennon þrátt fyrir að hann hafi fúslega viðurkennt að hafa slegið konur.

Hvað listsköpun varðar þarf maður hreinlega að láta þetta ráðast. Fær maður óhug eða ekki? Heillar lagið/ljóðið/sagan mann enn eða rofnuðu tengslin við uppgötvunina? List er óræð skepna sem lætur ekki tjóðra sig við einn eða annan staur. Þess vegna er það hjarta manns sem velur hana eða hafnar henni og ekki er hægt að segja þeim hluta af sér fyrir verkum. Svo er líka breytilegt að hversu miklu leyti aðdáun manns á list einhvers er bundin við persónuna. Takmark skapandi einstaklings er jú að gefast skáldagyðjunni svo algjörlega að eigin persóna hans hverfur og hann breytist í flautu sem andadráttur guðanna rennur í gegnum.

Alls konar fólk finnur sér leið inn í lendur listarinnar og engin ástæða er til að reyna að standa í vegi fyrir því. Aftur á móti ættu þeir sem eru ófærir um að hafa stjórn á óæðri hvötum sínum aldrei að vera í áhrifastöðu. Þessu tvennu er oft grautað saman en ætti að vera tekið fyrir sitt í hvoru lagi. Þegar maður horfir á sjónvarpsþátt eða hlustar á plötu þá situr maður neytendamegin við framleiðsluferli, sem þýðir að maður er í raun óvirkur áheyrandi sem þarf ekki að taka afstöðu til neins annars en þess hvaða tilfinningar vakna – hreyfði þetta við manni eða ekki?

Við gerum sjálfum okkur mikinn greiða með því að hætta að flækja persónudýrkun inn í listræna upplifun. Það sem nær manni er ekki persónan sem flutti/samdi lagið eða skrifaði/lék í kvikmyndinni heldur listrænt framlag hennar. Hversu vel hún náði að leggja sjálfa sig til hliðar og láta músurnar pumpa dýrðinni í gegnum sig.

Þannig að það er í raun hægt að vera „Lennon-aðdáandi“ án þess að dást beinlínis að Englendingnum John Winston Lennon eða framkomu hans við fólk. Það sem maður tengir við er orðlaust, semíótískt og ekki bundið við þá ytri pakkningu sem við köllum persónuleika. Auðvitað hjálpar til að vera sammála viðkomandi í pólitík eða finnast hann viðkunnanlegur en það er ekki alltaf ómissandi fyrir upplifunina.

Persónudýrkun bætir engu við ferlið að njóta listar. Og hún á enn minna erindi í pólitík. Vera má að hin rómantíska hugmynd um snillinginn sé ekkert sérstaklega skaðleg í tengslum við leiklist, tónlist, myndlist eða annað slíkt. En í stjórnmálum er hún andlýðræðisleg. Auðvitað er eðlilegt að maður kunni betur við suma stjórnmálamenn en aðra, að manni finnist sumir einlægari en aðrir, hjartahlýrri en aðrir, fyndnari en aðrir, o.s.frv. En ef maður gerir einhvern einstakling að hornsteini pólitískrar heimsmyndar sinnar þá hefur maður engan skilning á orðinu lýðræði.

Við eigum ekki að treysta þeim sem fela peninga í skattaskjólum fyrir ríkispyngjunni. Við eigum ekki að treysta þeim sem tala um vissa hópa útlendinga sem meindýr til að marka innflytjendastefnu. Og við eigum ekki að treysta þeim sem koma fram við konur af fullkomnu virðingarleysi til að vinna að jafnrétti.

Ekkert okkar er ómissandi í áhrifastöðu. Það eru stefnumálin sem gilda og þau á samfélagið sem heild að móta, ekki einhverjir óskeikulir Ólympsbúar sem hafa vit fyrir okkur. Þeir sem leiða þjóðina eiga að vera fánaberar þeirra gilda sem samfélagið hefur í heiðri. Þess vegna verða þeir að endurspegla þessi gildi í verki. Við eigum ekki að treysta þeim sem fela peninga í skattaskjólum fyrir ríkispyngjunni. Við eigum ekki að treysta þeim sem tala um vissa hópa útlendinga sem meindýr til að marka innflytjendastefnu. Og við eigum ekki að treysta þeim sem koma fram við konur af fullkomnu virðingarleysi til að vinna að jafnrétti.

Það er ábyrgðarhlutverk að vera fulltrúi þjóðarinnar á þingi. Þegar einstaklingur er kosinn á þing og verður síðar uppvís að fáránlegri og niðurlægjandi hegðun þá sýnir sá hinn sami ábyrgð í verki með því að segja af sér. Nú er ljóst að sumir eru ófærir um að gera það en þeim ætti þá jafnframt að vera ljóst að öll gagnrýni þeirra á bogið siðferði pólitískra andstæðinga sinna er álíka marktæk og húsaleigusamningur með undirskrift alikálfs. Og sá flokkur sem hýsir Hinn Íslenska Þrásetuþingmann og kóar með honum í stað þess að standa vörð um jafnréttisgildi kastar trúverðugleika sínum í klósettið.

Enginn er ómissandi á Alþingi. Það er ekki staður fyrir stjörnur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni