Endurhugsum þetta
Been a while since we saw that child
Hangin’ ‘round this neighborhood
See his mother dealin’ in a doorway
See Father Christmas with a beggin’ bowl
Jesus’ sister’s eyes are a blister
The High street never looked so low
Svona kemur götumyndin í aðdraganda jólanna ljóðmælanda fyrir sjónir í laginu If God Would Send His Angels. Stórborgir eru eins og Bono raular um þær í þessu lagi — litríkar og heillandi en á sama tíma smekkfullar af þögulli (og síður en svo þögulli) örvæntingu. Ég vil þó beina athyglinni sérstaklega að jólasveininum í þessu textabroti.
Hann stendur með skál og þiggur frjáls framlög í hana eins og betlimunkur. Yfirleitt danglar hann líka bjöllu og býður gleðileg jól með hóhóhó og hahaha eins og hefðin krefur. Hann er sjálfboðaliði sem er að safna fyrir einhver góðgerðasamtök. Hann betlar sem sé fyrir hönd annarra. Við hlið hans á götunni eru svo að öllum líkindum aðrir, milliliðalausir betlarar. Sumir þeirra kunna einhverjar kúnstir, geta kastað keilum, dansað orminn eða spilað Smoke on the Water á falskan kassagítar. En sumir eiga þó ekkert annað en skálina. Eða notaða ólífukrukku. Og neyð sína.
Hvað á maður að gera?
Íslendingur er ekki eins vanur þessari sjón og íbúar erlendra stórborga sem rúma milljónir íbúa. Eðlilegt er að vilja rétta hjálparhönd en eftir nokkurt skeið myndast nokkurs konar sigg á sál fólks. Ef meðltekjumanneskja í borg eins og New York eða Berlín gæfi hverjum einasta betlara af tekjum sínum daglega þá myndi henni ekki endast mánaðarhýran út fyrstu viku mánaðarins. Þess vegna harðnar fas fólks eðlilega og það fer að finna leiðir hjá því að þurfa að eiga í samskiptum við þessa óheppnari samborgara sína. En betlararnir eru ekki aðeins úti á götu. Og þeir eru ekki einu sinni allir fátækir.
Horfum í spegil.
Við erum betlarar líka.
Allir sem eru upp á aðra komnir með afkomu sína eru settir í stöðu betlara.
Ekki vera reið(ur). Ég er ekki að segja að þú standir úti á gangstétt og hafir lifibrauð þitt af klinkgjöfum þeirra sem þvælast fram hjá þér. Ég er ekki heldur að segja þetta í einhverjum hátimbruðum hughyggjuskilningi („Erum við ekki öll á vissan hátt betlarar?” — angurvær panflaututónlist í bakgrunni). Ég er ekki einu sinni að nota orðið í niðrandi merkingu. Allir sem eru upp á aðra komnir með afkomu sína eru settir í stöðu betlara. Sem launþegi þarf ég að bjóða upp á tiltekna þjónustu og betla pening fyrir það. Ef ég sem launþegi vel að hætta að vinna þá þarf ég að sækja um (betla) atvinnuleysisbætur. Sama gildir ef ég lendi í slysi eða sjúkdómi og þarf að sækja um örorkubætur. Eignastéttin hefur gaman af því að minna okkur á þetta og núa okkur því um nasir. Sér í lagi hinir samviskulausustu á meðal þeirra.
En eignastéttin betlar líka.
Inni á sundstað í dag heyrði ég hvar fjórir slíkir föluðust eftir stuðningi almennings. Þeir hétu Hagkaup, Herragarðurinn, Smáralind og Te og Kaffi. Allir sem vilja að þú kaupir eitthvað af þeim eru að betla af þér viðskipti. Auglýsingar eru betlistarfsemi í gegnum fjölmiðla. Þegar ég segi að allir séu betlarar þá meina ég allir. Og ég á ekki bara við um efnalitla frumkvöðla sem vilja að þú kaupir uppfinninguna þeirra eða mætir á jólatónleikana þeirra heldur líka eigendur stóru verslunarkeðjanna. Já og þeir sem betluðu kvóta af ríkinu, auk annars fjárhagsstuðnings úr hirslum hins opinbera. Þeir sem fengu afskriftir upp á tugi milljóna eftir hrun eru innan þessa mengis líka.
Nú ætti tilgangur minn að vera orðinn morgunljós. Ég er að afbyggja orðið betlari. Það orð er í raun samheiti yfir alla þá sem búa innan auðvaldsskipulagsins; jafnt þræla sem þrælasala; jafnt plebeia sem patrísea; jafnt þá sem lifa á vinnuafli sínu sem þá sem lifa á kaupum og leigu á einhverjum eignum. Auðvitað er munurinn sá að hinir síðarnefndu (þrælasalarnir, patrísearnir, eignamennirnir) hafa það fram yfir hina fyrrnefndu (þrælana, plebeiana, launþegana) að hafa ríkisvaldið og lögreglu þess sín megin, þannig að forréttindastaða þeirra er oft líkari ráni en betli. En höldum okkur við upprunalega hugtakið í bili.
Við erum öll betlarar.
Hvað gerum við í því?
Við getum í raun ekki verið hundrað prósent manneskjur innan kapítalísks séreignaskipulags.
Nú þurfum við að hugsa heildstætt. Hvaða lausn kemur okkur öllum úr þessu hlutverki? Að falast eftir gjaldeyri hvert annars? Hvað getur breytt þessum viðskiptafærslum í eitthvað manneskjulegra? Eitthvað náttúrulegt og afslappað? Á meðan efnahagslegur ójöfnuður er til staðar verður alltaf skuggi yfir samfélagi mannanna. Og á meðan skiptagildi ákvarðar aðgengi okkar að nauðþurftum eins og húsaskjóli, matvælum og lyfjum mun það alltaf hafa tilhneigingu til að yfirskyggja manngildi okkar. Við getum í raun ekki verið hundrað prósent manneskjur innan kapítalísks séreignaskipulags. Því hljótum við að þurfa að gefa gaum að þessum orðum Martins Luthers King: „Raunveruleg samkennd felur í sér meira en að fleygja klinki til betlara. Hún gerir okkur það ljóst að mannvirki sem framleiðir betlara þarfnast endurbyggingar.”
Mannvirkið okkar framleiðir betlara í löngum bunum.
Við þurfum að endubyggja það.
Þegar hér er komið sögu vakna yfirleitt háværar raddir sem krefja róttæklinginn svara: „Hvernig samfélag viltu þá?” „Geturðu útlistað nákvæmlega hvernig útópían þín myndi líta út?” „Hvaða mynd væri þá á kvótakerfinu? „Já og húsnæðisvísitölunni?” Við þessu eru tvö svör sem allt hugsjónafólk ætti að læra utanbókar til að stinga upp í reiða frændann sem kýs Sjálfstæðisflokkinn (eða, guð hjálpi okkur, Miðflokkinn): „Ég veit það ekki.” Og: „Við myndum búa til þá framtíð í sameiningu.” Hús er ekki byggt án teikningar. Við erum arkítektarnir. Áður en við endurbyggjum þurfum við að endurhugsa þetta helvíti. Hið fyrsta sem við þurfum að gera er að líta inn á við og losa smám saman það tak sem neysluhyggjan hefur á okkur.
Við getum þetta.
Gleðilegar sólstöður!
Athugasemdir