Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Ekki núna, litli minn

Margur kannast við þá upplifun að veita unglingi tiltal. Sumir þeirra eru komnir með nægan vitsmunaþroska til að færa rök og standa fyrir sínu en búa ekki enn yfir nægri tilfinningagreind til að líta í eigin barm undir ávítum. Tilsvörin eru svo fyrirsjáanleg að maður brosir næstum; „Af hverju skammarðu bara mig en ekki Sigga?” — „Fullt af krökkum eru að gera þetta, ekki bara ég!” — „Ertu að segja að ég sé að ljúga, eða...?” Stundum reynir ungmennið jafnvel að sveigja veruleikann að sínum hentugleika. Maður sér hann gera eitthvað af sér og segir: „Ég sá þig gera þetta” og fær bara flatt „nei” og andlitssvip sem minnir á golþorsk á þurru landi eftir að sporðaköstunum er lokið.

Auðvitað er það smá pirrandi. En maður huggar sig við það að viðmælandinn muni á endanum þroskast upp úr þessu. Læra að bera ábyrgð á gjörðum sínum og hætta að benda í kringum sig þegar afleiðingarnar koma í ljós. Það er meira að segja smá krúttlegt, og sá krúttleiki vegur upp á móti geðvonskunni sem ábyrgðarleysið hefði getað valdið. En þegar maður er fjörutíu og þriggja ára gamall fyrrum forsætisráðherra þá er þetta löngu hætt að vera krúttlegt.

Sigmundur bjó til reglu í höfði sér sem allir áttu svo að lúta: Að ekki mætti spyrja kjörna ráðamenn um neitt óvænt í sjónvarpsviðtölum.

Við munum eftir þessum gaur

Barnalegur sjálfbirgingsháttur sem nær langt inn á fullorðinsár er aðalsmerki narsissista. Rétt eins og það er alltaf demókrataflokknum, New York Times eða Hillary Clinton að kenna þegar staðreyndir um Trump eru dregnar fram í dagsljósið þá er það alltaf Reykjavik Media, Kjarnanum, Sigurði Inga eða einhverjum andskotanum (George Soros?) að kenna þegar Sigmundur Davíð misstígur sig. Hann var beðinn að svara fyrir aflandseignir sínar í apríl 2016 og skammaðist yfir forsendum viðtalsins og gekk út. Eftir kosningarnar það árið mætti hann ekki í vinnuna dögum saman og var spurður um það. Hann skammaðist yfir forsendum viðtalsins og gekk út.

Sigmundur bjó til reglu í höfði sér sem allir áttu svo að lúta: Að ekki mætti spyrja kjörna ráðamenn um neitt óvænt í sjónvarpsviðtölum. Eins og barnungur strákur sem staðhæfir að brögð séu í tafli þegar einhver skorar mark hjá honum í fótbolta. „Bannað að skjóta fast!” „Bannað að sóla!” „Svindl! Þú æfir!”

Whatabout-ismi

Og eftir Klausturfokkið? Hefur hann „íhugað stöðu sína“? Mikið er það kurteislegt orðalag þegar undirliggjandi spurningin er augljóslega: Ætlarðu að segja af þér þingmennsku? Nei, hann hefur ekki „íhugað stöðu sína.“ Hann hefur auðvitað íhugað næsta leik en narsissistar íhuga aldrei að taka skref til baka. Þeir kunna ekki að skammast sín. Þess í stað benda þeir í kringum sig, eins og unglingurinn;

„Auðvitað ef sú væri raunin eins og einhver orðaði það að menn almennt stigi til hliðar eftir að hafa setið við svona umræðu þá væri orðinn þunnur bekkurinn á Alþingi, það væru fáir eftir,“

„Ég verð að viðurkenna það að mér hefur þótt merkilegt að sjá þingmenn sem hafa jafn vel sagt grófari hluti um mig en ég annað hvort tek þátt í eða fylgist með umræðum um opinberlega, fordæma það sem er spjall félaga sem þeir gera ekki ráð fyrir að nokkur maður muni heyra.“

Ekki benda á mig! Aðrir hérna hafa sagt mun verri hluti en ég! Um hverja er hann að tala? Tja…

Hvað kemur það málinu við?

Setjum svo að Sigmundur hafi rétt fyrir sér. Gefum okkur það í smá stund, bara til að rekja röksemdir hans allt til enda. Þá hafa fleiri en sex þingmenn átt gáskafull samtöl þar sem konur eru kallaðar kuntur og tíkur, útlit þeirra og/eða fötlun hefur verið höfð í flimtingum og grínast hefur verið með að ríða þeim og lemja þær. Og þeir hafa komist upp með það. Það vill bara svo til að enginn var að gera hljóðupptöku af því. Setjum svo að þetta sé sannleikur. Að í þetta sinn sé Wintris-raðlygarinn ekki að segja ósatt.

Whataboutismi vísar til þess þegar einhver reynir að verja sig fyrir ásökunum um eigin misgjörðir með því að benda á illvirki annarra, ímyndað eða raunverulegt.

Hvað kemur það málinu við?

Get ég sagt þetta við löggu sem stöðvar mig á hundrað og þrjátíu á Sæbrautinni? „Fullt af fólki keyrir svona hratt og hraðar! Af hverju gefur þú mér sekt en ekki þeim? Svindl!“ Þetta er skólabókardæmi um whatabout-isma; hugtak sem hefur farið illa út úr útflatningu samfélagsumræðunnar. Það vísar til þess þegar einhver reynir að verja sig fyrir ásökunum um eigin misgjörðir með því að benda á illvirki annarra, ímyndað eða raunverulegt. Sigmundur er jafnónýtur stjórnmálamaður eftir sem áður. Af því að honum er ekki treystandi. Ef Wintris-málið var ekki nóg til að sýna fram á það þá ætti Klausturblaðrið að sanna það endanlega.

En hann er ekki einn um að tala eins og sjálfala unglingur.

Eilífðarunglingar eru víða

Þegar forstjóri HB Granda, Guðmundur Kristjánsson, spilar á heimsins smæsta strativaríus og ætlast til þess að við vorkennum fyrirtækinu hans fyrir að þurfa að greiða fyrir afnot af auðlind íslensku þjóðarinnar – auðlind sem hefur auðgað hann og kollega hans óumræðilega – minnir fréttamanneskjan hann á þá staðreynd að um sé að ræða arð af sameign þjóðarinnar.

Hún spyr: „En gleymist nokkuð í þessu að það er náttúrulega þjóðin sem á fiskinn í sjónum?“ Hann býður upp á svar sem á ekki heima norðan megin við fermingaraldurinn: „Þjóðin á ekki fiskinn í sjónum, það er mikill misskilningur. Fiskurinn á sig sjálfur í sjónum. Af því þegar hann syndir yfir aðrar lögsögur þá á hann sig sjálfur. Þjóðin hún ræður leikreglum hvernig auðlindin er nýtt.“

Þetta minnir á samtal sem á sér stað á öllum heimilum: „Af hverju skilurðu sokkana þína eftir á miðju gólfinu?“ „Þeir eru reyndar ekki á miðju gólfinu. Eiginlega nær horninu.“ Guðmundur Kristjánsson veit alveg að Kristín Sigurðardóttir var að tala um ákvörðunarrétt þjóðarinnar í tengslum við auðlindir hafsins. Hún var ekki að hefja heimspekilega rökræðu um náttúrurétt. Hans tilsvar var útúrsnúningur hins röklausa.

Því miður eru þessir einstaklingar, og verða, fastir í bernsku. Það er afleiðing af því að hafa alltof lengi verið í óhrekjanlegri forréttindastöðu.

Hið sama á við um hjákátlegan skæting Klausturfokks-félagans Ólafs Ísleifssonar þegar hann reynir að beina athyglinni frá innihaldi fundarins örlagaríka. „Það er ekki hægt að segja burt séð frá því sem þarna fór fram,“ segir Sunna Valgerðardóttir og allir skilja að hún á við að það sé ekkert bara hægt að banda hneykslinu frá sér með því að segja „burt séð frá því.“ Hann segist bara víst geta sagt það: „Jújú, ég var sko bara að segja það rétt í þessu.“

Óóó! Sikk rúst!

Ekki núna

Nú er þessi líking ekki notuð til þess að niðra unglinga eða til að bendla þá við fávitahegðun á borð við þá sem átti sér stað á Klaustri. Unga fólkið býr yfir dásamlegum tærleika sem alltof margir glata þegar aldurinn færist yfir. Hugsunin er þvert á móti sú að okkur muni ganga betur að komast yfir þá ætandi heift sem þetta samtal vakti í hjörtum okkar með því að líta á þátttakendur þess sem vanþroskaða einstaklinga.

Eiga fullorðnir menn að búa yfir einhverri tilfinningagreind? Já. Auðvitað. En við getum ekki útvegað umræddum einstaklingum tilfinningagreind með því að krefjast hennar. Því miður eru þessir einstaklingar, og verða, fastir í bernsku. Það er afleiðing af því að hafa alltof lengi verið í óhrekjanlegri forréttindastöðu.

En hvaða svar höfum við þá þegar þessir menn vilja fá að ganga aftur í þingstörf sín eins og ekkert hafi í skorist? Sama svar og við gefum þrettán ára syni sem vill fá lánaðan bílinn hjá manni:

„Ekki núna, litli minn.“

„Hvenær þá?“

„Þegar þú ert orðinn fullorðinn.“

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni