Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Ef Trump kæmi til Íslands

Ef Trump kæmi til Íslands

Ef Donald J. Trump – maður sem ber titilinn Bandaríkjaforseti – kæmi í opinbera heimsókn til landsins, hvernig myndum við taka á móti honum?

Myndum við...

a) ...rúlla út rauða dreglinum fyrir hann og smjaðra fyrir honum eins og kóngafólkið í Sádí Arabíu gerði? Ferðin þangað var - nota bene - fyrsta opinbera heimsókn hans utan landssteinanna.

eða...

b) ...gefa honum skýran miðfingur eins og íbúa Lundúna gerðu, með kvartmilljón mótmælenda á götum úti, loftbelg af manndrýslinum sem ofvöxnu kornabarni og skiltum eins og “Star spangled gobshite”?

Ég er smeykur um að við myndum hvorki gera a) né b) heldur...

c) ...gera ekkert, láta ráðamenn okkar um að taka á móti honum með virktum og missa af tækifærinu til að setja ofan í við hann fyrir það kaldlyndi sem hefur verið aðalsmerki stjórnartíðar hans.

Þarf svar Íslands við kúgun og heimsvaldastefnu alltaf að vera andvaraleysi og aðgerðatregða?

Að mínu mati er valkostur a) augljóslega út í hött. Maður klappar ekki bandarískum nýfasista á appelsínugula kinnina eftir ljótasta kosningasigur þar í landi síðan George Wallace bauð sig fram í Alabama árið 1962. Kostur b) er mér meir að skapi en auðvitað þurfum við ekki að herma eftir Bretum og vert er að taka almennilega umræðu um það hvort skilaboð um vanþóknun á stefnu erlends þjóðhöfðingja verði sterkari ef þau eru sett fram af meiri yfirvegun og háttvísi.

Þurfum við nokkuð að velja valkost c)? Þarf svar Íslands við kúgun og heimsvaldastefnu alltaf að vera andvaraleysi og aðgerðatregða? Smásálarlegt viðhorf til þeirra sem láta sér annt um örlög heimsbyggðarinnar er því miður nokkuð algengt í stjórnmálasögu okkar Frónarbúa.

Þjóðfáni verður fyrir ofbeldi

Þegar hópur kommúnista sýndi andstöðu við þriðja ríkið með því að skera niður hakakrossfána við bústað þýska ræðismannsins á Siglufirði þann 6. ágúst 1933, traðka á flagginu og atyrða Hitler báru viðbrögð helstu fjölmiðla Íslendinga vott um allt frá háðslegu yfirlæti til heiftarlegrar hneykslunar.

„Auðvitað er þetta verk ósköp kjánalegt,” hrín í greinarhöfundi í Alþýðublaðinu (8. ágúst 1933), sem bendir aðgerðasinnum þessum á að hetjur þeirra í Sovétríkjunum leyfðu hakakross-fánanum örugglega að flagga frjálsum við sendiráðið í Moskvu. Hann játar að vísu: „Hins vegar mun öllum heilbrigt hugsandi og heiðarlegum mönnum þykja flaggskömmin hvumleið.” En skilaboðin þar á bæ virðast hafa verið: Nei, við fílum svo sem ekki fasisma en það er ástæðulaust að vera með einhver helvítis læti yfir því.

Í Morgunblaðinu kveður við örlítið ólíkan tón þann sama dag:

„Það er vitað. að afkoma síldarútgerðarinnar nú, sjómanna, verkamanna og útgerðarmanna, er mjög undir því komin, hvernig tekst með viðskiftin við Þjóðverja. Þetta vita kommúnistapiltarnir ekki síður en aðrir. Þá grípa þeir til þess bragðs, að sýna þýsku þjóðinni þá freklegustu og strákslegustu móðgun, sem götudrengir á annað borð geta sýnt. Þeir skera niður þýska stjórnarfánann, og viðhafa um leið ýmiskonar ókvæðisorð í garð þessarar viðskiftaþjóðar vorrar, í von um, að með því megi takast að ófrægja svo þjóðina í augum útlendinga, að miður takist um væntanleg viðskifti.”

Aumingjadómurinn sem felst í því að vera mótfallinn táknrænni mótmælaaðgerð gegn nasistastjórn Hitlers vegna þess að það gæti komið illa niður á síldarviðskiptum við Þjóðverja er nógu slæmur. En þær auðvaldsástæður voru því miður ekki eini hvatinn bak við fordæminguna. 

Moggamönnum þótti Mussolini aldeilis vera að gera Ítalíu stórkostlega aftur og voru með stjörnur í augunum yfir fasismanum.

Gæfusöm er sú þjóð!

Innan raða Morgunblaðsmanna á þessum tíma voru margir síður en svo andfasískir. Tveimur blaðsíðum framar í sama blaði er birt þýdd grein úr „einu Norðurlandablaðinu” í tilefni af fimmtugsafmæli ítalska einræðisherrans Benitos Mussolini:

„En í dag er Mussolini eflaust merkasti stjórnmálamaður í heimi, og æfistarf hans stendur nú fastar en nokkru sinni áður. Hann bjargaði þjóð sinni frá tvöföldum háska: Frá kyrkingartökum kommúnista og frá spillingu og ábyrgðarleysi þingræðisins. Hann tók sjálfur á sig ábyrgð gerða sinna, og sýndi mönnum fram á að þjóðlífið er dýrmætara en líf einstaklingsins. Fascisminn byggir á framtíð þjóðarinnar, en ekki einstaklingsins, því að þjóðin lifir, þótt einstaklingarnir falli frá.  Mussolini hefir yngt þjóð sína, hann hefir gert þessa þjóð, sem stóð báðum fótum aftur í fornöld, að æskuþjóð og skapað henni trú á mátt sinn og megin, og sýnt henni hvert hlutverk hún hefir í heiminum. Hann einn skapaði hinn nýja anda, sem nú einkennir ítölsku þjóðina og kemur í ljós í stórkostlegum framaverkum, svo sem hinu mikla flugi ítalska flugvjelaflotans heimsálfanna á milli. Gæfusöm er sú þjóð sem eignast slíkan leiðtoga á vandræðatímum!” [feitletrunin er mín - SV]

Já, Moggamönnum þótti Mussolini aldeilis vera að gera Ítalíu stórkostlega aftur og voru með stjörnur í augunum yfir fasismanum. Slík lofgjörð um harðstjóra er ekki alls kostar liðin tíð (sjá ummæli Hannesar Hólmsteins um Bolsonaro eða lofræðuna eftir ritstjórn Morgunblaðsins í vikunni um hinn ungverska Viktor Orban) en nú til dags gerast hægri menn á þingi yfirleitt ekki svo kræfir að láta hafa eftir sér þannig lagað. Þeim er þó sumum mjög annt um að vega ekki að virðingu Bandaríkjaforseta, sama hvað hann gerir sig sekan um í krafti stöðu sinnar.

Að kalla hluti réttum nöfnum

Óla Birni Kárasyni - sem þótti ekkert athugavert við að tala um að mæta með „hörðum stálhnefa” þeim innflytjendum sem hann telur líklega til að „misnota velferðarkerfið okkar” - fannst það ógurleg ókurteisi að kalla Donald Trump fasista eftir að Bandaríkjaforseti setti bann við komu fólks frá sjö ríkjum vegna trúarbakgrunns þeirra í febrúar 2017.

Er rétt að forgangsraða hlutum á þennan hátt? Að beita fullri hörku þegar rætt er um varnarlaust fólk í leit að betra lífi en vettlingatökum þegar óbilgjarnir siðblindingjar brjóta gegn öllum prinsippum mannúðar? Eigum við ekki að sýna lýðræðis- og frelsisást okkar með því að kalla hlutina réttum nöfnum (í anda Sólveigar Önnu; borð er borð - arðrán er arðrán - fasismi er fasismi) og með því að hafa hátt þegar brotið er gegn lýðræðinu og frelsinu?

Í þessari viku gefst okkur nefnilega tækifæri til að taka okkur stöðu gegn gerræðistilburðum og mannvonsku.

Föstudagurinn 15. febrúar

„Með mannúðarmiðuðum samningaviðræðum, mannúðaraðstoð og þrotlausri viðleitni til að binda endi á átök og koma í kring varanlegum lausnum fyrir ofsótt fólk víða í heiminum munum við halda áfram að rétta berskjaldaðasta flóttafólki veraldar hjálparhönd og endurspegla þannig rótgróin gildi bandarísku þjóðarinnar.”  

Þessi orð lét nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna út úr sér í janúar 2018 á sama tíma og börnum var haldið í búrum við mexíkósku landamærin. Hann heitir Mike Pompeo.

Nei, Trump er ekki að koma til Íslands. En á föstudaginn 15. febrúar mun Mike Pompeo hins vegar leggja hraun undir fót í opinberri heimsókn. Hér mun hann hitta utanríkisráðherra okkar öðru sinni – mann sem er nýbúinn að lýsa yfir opinberum stuðningi landsins við embættistöku ókjörins forseta í Venezuela án þess að spyrja hér kóng eða prest – og að öllum líkindum fundar hann hér með fleiri ráðherrum og ráðafólki.

Heittrúaður hægriöfgamaður

Þegar Pompeo tók við sem forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar fullvissaði hann Bandaríkjaþing um að pyntingar yrðu ekki framdar á hans vakt en mörgum þótti full ástæða til að efast um einlægni hans í þeim efnum. Þremur árum áður hafði hann nefnilega skammað Obama Bandaríkjaforseta fyrir að loka pyntingarstöðum (e. CIA black sites) og sagði um þá aðila sem höfðu orðið uppvísir að pyntingum að þeir væru sannir föðurlandsvinir. Einnig kallaði hann fangabúðirnar í Guantanamo Bay „gullnámu leynilegra upplýsinga varðandi hryðjuverk róttækra múslima.”

Nú er ekki alltaf hægt að gefa sér að hörkulegt viðhorf í utanríkismálum byggi á kynþáttahatri en í tilfelli Pompeo má það teljast ansi líklegt í ljósi þess að hann kallaði indversk-amerískan andstæðing sinn í þingkosningum árið 2010 túrbanahaus (e. turban-topper) sem gæti reynst vera „múslimi, hindúi, búddisti eða eitthvað, hver veit?“ Sjálfur er Pompeo strangtrúaður kristinn maður sem trúir ekki á hnatthlýnun af manna völdum og lítur á stríðið gegn hryðjuverkum sem heilagan hildarleik.

Þessi afstaða er nokkuð dæmigerð á meðal bandarískra repúblikana þessa dagana; eldheitt hatur í garð múslima sem ekkert getur linað nema olía og gjöful vopnaviðskipti.

Ekki svo að skilja að hann sé alfarið mótfallinn samvinnu við múslima. Hann hefur mælt með því á alþjóðavettvangi að Sádí Arabía og Ísrael taki saman höndum og lýsi yfir stríði gegn Íran og sæmdi krónprins Sádí Arabíu, Muhammad bin Nayef, orðu fyrir störf sín í baráttunni gegn hryðjuverkum árið 2017.  Þessi afstaða er nokkuð dæmigerð á meðal bandarískra repúblikana þessa dagana; eldheitt hatur í garð múslima sem ekkert getur linað nema olía og gjöful vopnaviðskipti.

Og hann er að koma til Íslands á föstudaginn.

Mótmælt verður kröftuglega en staðsetning og tímasetning þeirra mótmæla verður auglýst eins fljótt og auðið er. Sláumst sem allra flest í hópinn. Allir sem mögulega geta. Sitjum ekki heima þótt það sé kalt úti. Þetta er of mikilvægt.

Nú þegar við fáum í fyrsta sinn fulltrúa Trump-stjórnarinnar hingað í heimsókn reynir á að við Íslendingar látum í okkur heyra. Við skulum ekki láta renna okkur úr greipum þetta tækifæri til að sýna það að Íslandi ofbýður sú grimmd, sú heimska og það mikilmennskubrjálæði sem þessi stjórn hefur gert sig seka um.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni