Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Ekki bara kurteisi heldur réttlæti

Ekki bara kurteisi heldur réttlæti

Á Austurvelli á laugardeginum sextánda mars voru bumbur barðar, regnbogum var flaggað og saman var sungið og dansað til stuðnings þeim sem urðu að ósekju fyrir fantabrögðum lögreglunnar á mánudeginum ellefta mars. Hittingurinn snerist um að finna fyrir nærveru annarra sem bera sömu von í hjartanu og maður sjálfur; um náungakærleik, mannskilning og réttlæti og svoleiðis hippadót. Já, og auðvitað líka um að neita þjóðernissinnum um tækifærið til að ota hræðslublaðri sínu að erlendum Frónargestum okkar.

Þeir komu. Fáeinar hræður með Þjóðfylkingarskilti. Eitthvað bull á skiltum um Schengen og efnahags-flóttamenn en líka FO og „höfnum ofbeldi.” Bjartsýnn er ég með eindæmum og hafði ekki lesið fundarlýsingu hópsins á netinu og hélt því að þjóðernissinnarnir væru þar með að fordæma árásina frá deginum áður í Nýja Sjálandi, eins og einhverjir þeirra höfðu jú gert í vikunni. Í kvöldfréttum sá ég þó að þau skilti áttu að vísa til árásar mótmælenda á lögregluna á mánudeginum. Árásar sem átti sér ekki stað.

Þetta fæ ég fyrir að trúa í smástund á sómatilfinningu fólks sem byggir heimsmynd sína á flokkun manneskja í gæðahópa. Skammstöfunin FO, sem fundin var upp til að sýna samstöðu með þolendum kynbundins ofbeldis, var sem sagt notuð til að breiða út lygar og fyrirlitningu. Hvað er hægt að segja við svona hegðun...

...annað en oj?

Saga og siðmenningarstríðið

Skipuleggjendur samstöðumótmælanna hvöttu okkur til að veita þjóðernissinnunum ekki athygli og ég brást því ekki við frammígjammi einnar konu úr hræðsluhópnum nema með því að hvetja hana til að taka undir með okkur í laginu We Shall Overcome. Hún þáði ekki boðið. Var barnalegt af mér að halda að hún myndi syngja með? Kannski.

Aðeins með hugmyndafræðilegum dilkadráttum er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að ISIS-hryðjuverk kalli á morð saklausra múslima.

Kvöldið áður hafði ég jú séð hversu „einlæg“ ofbeldisfordæming þjóðernispopúlista á hryðjuverkunum á Nýja Sjálandi var í raun og veru. Í Vikunni hjá Gísla Marteini sagði starfsmaður Útvarps Sögu nefnilega:

Allt ofbeldi virkar í báðar áttir. Og hvort sem það birtist á prenti eða í töluðum orðum eða þá í einhverjum verknaði. Við erum bara að horfa á það núna í morgun, þessi hryðjuverk, þau kalla á viðbrögð. Og við erum búin að vera að horfast í augu við hryðjuverk frá ISIS-liðum núna árum saman og þetta kallar á alltaf einhver viðbrögð á móti.

Hér liggur einmitt hundurinn grafinn. Í því hvernig stríðsaðilar eru skilgreindir. Rétt eins og morðinginn á Nýja Sjálandi skilgreinir gestur Gísla Marteins alla múslima sem stríðsaðila. Undir þessa skilgreiningu taka meðlimir ISIS heilshugar og líta á alla aðra en múslima sem stríðsaðila. Öfgamennirnir báðum megin línunnar eru sammála um þetta atriði, hvort sem þeir vilja berjast með orðum eða gjörðum. Aðeins með hugmyndafræðilegum dilkadráttum er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að ISIS-hryðjuverk kalli á morð saklausra múslima.

Það getur verið freistandi að leika þennan leik. Aðgerðasinninn Ward Churchill uppskar fordæmingu velflestra bandamanna sinna á vinstri vængnum í september árið 2001 þegar hann réttlætti hryðjuverkin sem áttu sér stað í þeim mánuði á svipaðan hátt og áðurnefndur Vikugestur:

Ef til var betri, áhrifaríkari, eða bara einhver önnur leið til að refsa litlu Eichmönnunum sem unnu í dauflega griðarstaðnum sem nefndist tvíburaturnarnir þá þætti mér áhugavert að fræðast um hana.  

Sem andstæðingur bandaríska heimsveldisins leit Churchill á fjármálamiðstöðina World Trade Center sem réttmætt hernaðarskotmark og gaf sér að fólkið sem ynni þar væri að ganga erinda heimsvaldasinna á sama hátt og Adolf Eichmann gekk erinda Þriðja ríkisins. (Eichmann var dæmdur til dauða árið 1961 fyrir að skipuleggja lestarferðirnar sem smöluðu gyðingum í útrýmingarbúðir í síðari heimsstyrjöldinni.) Þar gerir Churchill sömu mistök og margir hægrimenn gerðu í kjölfar árásarinnar í Christchurch; að flokka óbreytta borgara sem útsendara tiltekinnar hugmyndafræði.

Fólkið í moskunni á Nýja Sjálandi var saklaust. Það var ekki handbendi ISIS eða íslamisma frekar en fólkið í tvíburaturnunum var herlið Bandaríkjanna eða heimskapítalismans. En ef þetta siðmenningarstríð er „við öll” á móti „þeim öllum” þá er hægt að yppa öxlum yfir fjöldamorði í mosku og í háhýsum og segja: sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Slíkt er fasísk hugsun.

Já, hún er fasísk.

Og nei, það er ekki „stimpill” heldur staðreynd.

Sært fólk særir fólk

Í pistli sem heitir því fallega nafni „Austurvöllur okkar allra” hvetur Katrín Oddsdóttir til þess að Íslendingar leitist við að skilja viðhorf andstæðinga sinna frekar en að fordæma þá. Hún gengur út frá þeirri alþýðuvisku að skoðanir þjóðernissinna séu ekki ígrundaðar ályktanir heldur vanhugsað tilfinningaviðbragð. Þessu er ég sammála. Hún lítur svo á að skammaryrði og persónuárásir séu síður til þess fallnar að vinna hugmyndum sínum brautargengi en opin og einlæg umræða. Þessu er ég líka sammála og þess vegna hvatti ég frammígjammarann á Austurvelli til að koma og syngja með okkur. Katrín kveðst taka hatursorðræðu alvarlega en mælist því til þess að við hættum að kalla hópa eins og Þjóðfylkinguna fasista af því að „það að tromp­ast yfir auð­mýk­ingu á til­teknum gildum eða ótta við miklar breyt­ingar er ekki það sama og að vera fas­isti.”

Þar er ég ósammála.

Þetta er einmitt skólabókartæk lýsing á fasisma í praxis.

Að kalla manneskju „fasista” er ekki það sama og að kalla hana „fávita.” Hið fyrrnefnda er hugmyndafræðileg greining á meðan hið síðarnefnda er gildisdómur. Okkur finnst lítill munur á þessu vegna þess að við erum (flest) sammála um að það sé fávitaskapur að aðhyllast fasisma; að fasismi laði aðallega að sér fávita. Fasistar hafa í áranna rás unnið sér inn þetta orðspor alveg hjálparlaust. Þess vegna hljómar orðið „fasisti” eins og uppnefni. En að hætta að kalla fasismann fasisma af því að það særir tilfinningar fasistanna mun ekki færa okkur hænufet nær því að ná þeim út úr eitraðri hugmyndafræði þeirra. Það gerir þeim bara kleift að halda áfram að vera í afneitun með það hversu lasinn hugsunarháttur þeirra er.

En vandinn varð ekki til vegna ókurteisi eða uppnefna. Fasistar verða ekki fasistar af því að and-fasistar eru alltaf að kalla þá fasista.

Skilgreining Katrínar á fasisma er líka byggð á þeim hughrifum sem orðið framkallar, ekki á raunmerkingu orðsins: „Sam­kvæmt mínum skiln­ingi þýðir fas­isti sá sem vill nota ofbeldi til þess að binda enda á lýð­ræð­is­legt stjórn­ar­fyr­ir­komu­lag.” Fasismi er hugmyndafræði. Ofbeldi er aðferðarfræði. Sumir fasistar vilja vissulega binda enda á lýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag með ofbeldi en aðrir vilja vinna gegn lýðræðinu og þeirri jafnræðishugsun sem lýðræðið byggir á með hatursorðræðu og lygum. Forsendurnar eru þær sömu; að til séu æskilegir og óæskilegir hópar fólks og að fjölga beri hinum æskilegu en fækka hinum óæskilegu.

Frjálslyndi eða afstöðuleysi?

Fólk sem byggir frjálslyndi sitt á hughyggju frekar en efnishyggju á það til að stíga í þessa gryfju; að halda að ef allir gætu bara „verið góðir” þá myndu fánaberar fordóma upplifa nægilega mikið tilfinningaöryggi til að sleppa takinu af hræðsluáróðri sínum. Katrín vill að reist sé „samtalshús” þar sem „við reynum að koma saman skilja hvert annað og tengj­ast frekar en að öskra á hvert annað á net­inu.” Sú umgjörð væri vissulega betri en spjallrásirnar. Það er erfiðara að vera með skæting við fólk augliti til auglitis. En vandinn varð ekki til vegna ókurteisi eða uppnefna. Fasistar verða ekki fasistar af því að and-fasistar eru alltaf að kalla þá fasista. Nýr samtalsvettvangur myndi því mögulega lækka hita umræðunnar um stund en hún er heit af gildri ástæðu: Annar hópurinn vill að komið sé fram við allt fólk eins og fólk. Hinn hópurinn er ósammála.

Austurvöllur á að vera Austurvöllur okkar allra. Það þýðir að við bjóðum allt fólk velkomið þangað en við klöppum ekki illa upplýstu og tilfinningalega óstöðugu fólki á bakið þar með því að kalla fasismann sem það breiðir út eitthvað annað og mildara en „fasisma.” Að komast hjá því að horfast í augu við það hversu alvarlegt það er að draga fólk í dilka hjálpar engum. Sem mannfólk skuldum við öðru mannfólki virðingu en hugmyndir verðskulda ekki virðingu nema þær séu virðingarverðar.

Sagan kennir okkur að þegar kapítalisminn étur undan sér fæturna með stjórnlausri aukningu ójöfnuðar þá spretta öfgahreyfingar upp eins og gorkúlur.

Raunverulegar lausnir

Hvernig útrýmum við þá fasisma, ef það er á annað borð mögulegt? Til að svara þeirri spurningu þarf fyrst að komast að því hvaðan hann kemur. Úr hvernig jarðvegi sprettur hann? Sagan kennir okkur að þegar kapítalisminn étur undan sér fæturna með stjórnlausri aukningu ójöfnuðar þá spretta öfgahreyfingar upp eins og gorkúlur. Þetta afsakar ekki hugsanagang eða hegðun fasista en útskýrir það upp að vissu marki. Það er mikilvægt að rugla aldrei útskýringu saman við afsökun.

Kapítalisminn elur af sér fasisma. Einhverjum kann að finnast þessi fullyrðing ögrandi en ef við göngumst við þeirri undirliggjandi forsendu kapítalismans að allir í samfélaginu fái það sem þeir eigi skilið -- að ríkt fólk verðskuldi auðæfi sín og að efnaminna fólk geti sjálfu sér um þröngan kost sinn kennt -- þá hlýtur það að vera fullkomlega eðlilegt að ríkasta prósent jarðarbúa (sem tilheyrir að mestu leyti hvíta kynstofninum) eigi meira af auði veraldarinnar en fátækari helmingur jarðarinnar (sem tilheyrir að mestu leyti öðrum kynþáttum). 

Það er til lækning við fasisma.

Ekki bara kurteisi, heldur réttlæti. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni