Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Auðmýkt viskunnar og sjálfshól heimskunnar

Auðmýkt viskunnar og sjálfshól heimskunnar

Ágústmánuður í Bandaríkjunum árið 2015. Öldungardeildarþingmaður að nafni Bernie Sanders sækist eftir útnefningu sem forsetaefni demókrataflokksins og er þegar búinn að saxa ævintýralega hratt á forskot mótframbjóðandans, Hillary Clinton, sem hafði verið talin nánast örugg um útnefninguna. Sanders er staddur við ræðupúlt í Seattle þegar mótmælendur á vegum samtakanna Black Lives Matter stíga upp á svið og trufla tölu hans með háreysti.

Þetta vekur nokkra undrun þar sem Sanders er einn helsti bandamaður mannréttindasamtaka í þessum kosningum og hefur talað tæpitungulaust um ofbeldi lögreglumanna gegn svörtu fólki. En viðbrögð hans við trufluninni eru honum lík. Hann dregur sig í hlé og lætur konunum tveimur eftir sviðið. Hann hlustar af virðingu á málflutning þeirra og í kjölfarið fylgir fjögurra mínútna þögn til að minnast óvopnaðs manns sem löggan hafði skotið í Ferguson í Missouri-fylki.

Veiklyndi og styrkur

Margur hefur farið mikinn um innræti og gildismat forsetans sem tók við ári síðar en hinn Rauðguli var á þessum tíma að ryðja sér til rúms í forkosningaslag Repúblíkana. Viðbrögð hans við uppákomunni í Seattle gefa okkur skýrari innsýn inn í hugarheim hans en nokkuð annað sem hann hefur látið út úr sér. Orðið sem Trump notaði yfir þá ákvörðun Bernie Sanders að stíga til hliðar og gefa mótmælendunum orðið á þessum ágústdegi árið 2015 var weakness – í þessu samhengi er það best þýtt sem veiklyndi. Hann sagði að sterkur leiðtogi (eins og hann sjálfur) myndi ekki láta bola sér svona úr pontu. Slíkt væri skammarlegt. Hér er grundvallarmunur á skilningi tveggja manna á gildi auðmýktar.

Vinstri menn vilja alveg líka að leiðtogar séu sterkir. En sterkir í þágu almennings, ekki í eigin þágu.

Undir öllu þrasinu um gildi – lýðræði og fasisma, umburðarlyndi og öryggisáráttu, góða fólkið og… hvað sem hinir vilja láta kalla sig (vonda fólkið?) – liggur ágreiningur um hvað það þýðir að vera góður leiðtogi. Hægt væri auðvitað að gera grín að orðalaginu sem hægri menn nota í þessu samhengi; sterkur leiðtogi. Allir vita hvers konar eiginleika „sterkur leiðtogi“ hefur. Hann er ósveigjanlegur, sjálfumglaður og valdagráðugur og skammast sín ekkert fyrir að vera svoleiðis. En við getum svo sem alveg notast við þetta orðalag. Vinstri menn vilja alveg líka að leiðtogar séu sterkir. En sterkir í þágu almennings, ekki í eigin þágu.

Hver er veikgeðja?

Við höfum alltof lengi gengist við þeirri skilgreiningu á styrk að hann felist í að sýna yfirburði yfir öðrum. Styrkur leiðtoga felst í því að sýna siðferðilegt hugrekki og heilindi. Hann þarf að vera óhagganlegur í vissum grundvallaratriðum, eins og því að samþykkja aldrei að hagsmunir hinna betur settu (þar á meðal hans eigin hagsmunir) séu framar í forgangsröðinni en hagsmunir þeirra sem minna mega sín. Hann verður auðvitað að vera sveigjanlegur varðandi útfærslu þessara grundvallaratriða og reiðubúinn að hlusta eftir vilja almennings, enda er hann óhagganlega lýðræðissinnaður. En hann sveigir ekki af leið í eigin þágu.

Þessi ytri gorgeir er varnartaktík manns sem kann ekki að vera hreinskilinn við sjálfan sig eða aðra.

Þeir sem nota embætti sitt til að skara eld að eigin köku og skaffa félögum sínum og fjölskyldu hlutfallslega fáránlegan skerf af auði þjóðarinnar (eða mannkynsins) eru ekki sterkir. Þeir eru, í fyllsta skilningi orðsins, veikgeðja. Þeir láta stjórnast af óæðri hvötum sínum og monta sig af því. Þeir blammera í allar áttir og búa ekki yfir nægum styrk til að líta í eigin barm. Sjáum til dæmis viðbrögð fjármálaráðherra okkar í hvert skipti sem hann er gagnrýndur. Þessi ytri gorgeir er varnartaktík manns sem kann ekki að vera hreinskilinn við sjálfan sig eða aðra. Manns sem mun aldrei ná fullum þroska.

Vertu eins og vatnið, vinur

Orð bardagalistamannsins Bruce Lee varðandi vatn koma manni til hugar í þessu samhengi. Hver sá sem vill sigrast á andstæðingi þarf að geta meira en að berja frá sér. Sigurvegari er sá sem veit hvenær á að ganga vasklega fram og hvenær á að hörfa. Vatn sigrar með því að gefa eftir og umlykja. Góður leiðtogi veit hvenær það er við hæfi að hann marséri í brjósti fylkingar með fánastöng í vinstri hönd og hægri hnefann upp í loft. En hann veit líka hvenær hann á að sýna virðingu, halda kjafti og hlusta. Þannig lærir hann af okkur hinum og nýtir sér þann lærdóm til að verða enn betri stjórnandi. Þetta eru narsissistar eins og Donald Trump ófærir um að gera.

Okkar leiðtogar sýna það í hverju málinu á fætur öðru að í þessum skilningi eru þeir ekki sterkir. Þegar ríkisstjórnin er gagnrýnd hvæsir Bjarni Benediktsson á okkur í gegnum sjónvarpsmyndavélina eins og við séum hundur sem var að pissa á teppið og Katrín Jakobsdóttir vandar sig við að velja svo merkingarlaus orð og samhengislausa almannatenglafrasa að við gleymum því í lok samtalsins hverjar spurningarnar voru.

Og þau eru ekki ein um þetta. Óli Björn Kárason og Sigríður Á. Andersen virðast sjá fyrir sér að besta tækið til móttöku flóttafólks á Íslandi sé hnefi úr hinum eða þessum málmi. Og þegar georgíanski einræðisherrann Jósef Vissaríanóvitsj Djúgasvílí valdi sér nafnið Stalín (stálmaðurinn) var það einmitt til að gorta af þessum sama ósveigjanleika sem Óli Björn og Sigríður virðast telja aðdáunarverðan.

En góðir leiðtogar stjórna ekki með hnefanum.

Þeir stjórna með hjartanu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni