Andlitið undir hinum tveimur
[Varúð: Einlægni getur farið illa í leiðslur sumra, jafnvel valdið óbætanlegu gegnumryði. Lesandinn er á eigin ábyrgð.]
Ég á tvær grímur. Ég geng með þær á mér og set þær reglulega upp, yfirleitt án þess að hugsa um það. Á vappi um Þingholtin á Hrekkjavöku geng ég framhjá valhoppandi draugum, nornum og fjöldamorðingjum og minnist þess sem hin forna trú gengur út á; að klæða sig upp sem forynjur til að hinir dauðu þekki mann ekki frá kirkjugarðsfélögum sínum. Til þess nota ég eimitt mínar grímur. Til að geta gengið á meðal manna án þess að þeir sjái að ég er ekki einn þeirra. Kannski gerir þú það líka. Þessi aðskilnaðartilfinning er útbreiddari en margur heldur. Við skulum kalla grímurnar mínar Norður og Suður.
Norður varð til á löngum tíma. Ég man ekki hvenær ég byrjaði að vinna í henni en ég dyttaði að henni reglulega á bernskuárunum. Ég valdi mér grófan við og heflaði hann niður. Skar út höfuðstóran bút og gerði hann kúptan. Festi band í hann. Pússaði kantana í hvert sinn sem þeir þrengdu að og smám saman fór Norður að passa nákvæmlega á andlitið á mér. Á gangi um Breiðholtið á leið út í sjoppu á kvöldin eða í stórum og háværum hópi stráka við íþróttaiðkun urðu drættir ásjónunnar til. Verkinu var svo endilega lokið eftir fimm mánaða akkorðsvinnu á smíðaverkstæðinu þegar ég var rétt að verða fimmtán ára.
Með kynþroska bættust við erlendar fyrirmyndir: „Mér er drull”- svipurinn á Tupac Shakur í myndinni Juice. „Ég veit allt um myrkur veraldarinnar” - svipurinn á bárujárnshetjunum á plötuumslögunum þeirra.
Nemandi í framandi grunnskóla þar sem nokkrir viðstaddra höfðu ákveðið að hann skyldi ekki um frjálst höfuð strjúka varð að gjöra svo vel og vera með almennilega grímu. Fyrstu áhrifavaldarnir voru fjölbreytt mengi; allir karlmenn sem virtust hafa stjórn á aðstæðum. Með kynþroska bættust við erlendar fyrirmyndir: „Mér er drull”- svipurinn á Tupac Shakur í myndinni Juice. „Ég veit allt um myrkur veraldarinnar” - svipurinn á bárujárnshetjunum á plötuumslögunum þeirra. Og auðvitað óhaggandi kalasnikov-baráttufestan framan í argentínsku byltingarhetjunni á plakatinu inni í herbergi.
Norður er gríma stráks sem er ekki orðinn að manni en finnst hann þurfa að drífa sig í því. Hún er köld eins og íslenska hálendið í veðurkortunum, sem er alltaf með hæsta fjölda vindstiga (eða sekúndumetra) og einhverja túrista sem björgunarsveitin þarf að ná í úr einhverri jökulhríð. Ég þarf í raun ekki að setja hana á mig. Ef óöryggi laumast inn að hjartanu birtist Norður sjálfkrafa, eins og búningurinn á Járnmanninnum. Og það er ekki fyrr en á fullorðinsárum sem ég átta mig á því að þessi gríma veldur fólki stundum óþægindum þegar það gengur framhjá mér. Menn bera jafnvel fyrir sig hönd til að gefa til kynna að þeir hyggist ekki reyna að berjast við mig ef klukkan er orðin margt.
Suður er allt öðruvísi. Samt alveg eins. Samt ekki. Ég byrjaði síðar á smíði hennar. Það verk hófst ekki fyrr en eftir að Norður var fullkláruð. Hún er úr mýkri viði. Hana þurfti minna að pússa til en ég gerði ásýnd hennar fegurri en þeirrar fyrri. Ekki beint fallega samt. Gríma er aldrei falleg. Ekki einu sinni Suður. Ég eyddi óratíma í smáatriðin við gerð hennar en gat aldrei gert hana fagra. Bara meinlausa og gleymanlega. Þess vegna kalla ég hana Suður. Af því að hún er andstæða hinnar. Hún er hlý. Ekki hlý eins og dagur við ströndina í Barselóna heldur hlý eins og ullarsokkur í sumarbústað.
Hún er sem sagt andstæða hinnar grímunnar en þjónar sama tilgangi; að skýla heiminum fyrir mér. Eða að skýla mér fyrir heiminum. Eða bæði.
Hún varð til sem viðbragð við því að finna fyrir fyrirferð minni. Ég er eitthvað fyrir ofan meðallag í raddstyrk og frekar hár í loftinu (og í seinni tíð með nokkuð ræktarlegt alskegg og lokka niður á bak) og því ekki sá sem kona vill rekast á á gangi heim úr partíi. Meinlausari en músarindill reyndar líka en auðvitað sést það ekki strax. Sérstaklega ef mjög dimmt er úti og ef ég gleymi að taka niður Norður. Þess vegna varð Suður til. Hún er sem sagt andstæða hinnar grímunnar en þjónar sama tilgangi; að skýla heiminum fyrir mér. Eða að skýla mér fyrir heiminum. Eða bæði. Að láta hinn vegfarandann vita að ég vil ekkert blanda mér í líf hans.
Ég þarf vart að taka fram að hvorug gríman passar almennilega. Og það sem er undir henni mætti í raun sjást mikið oftar. Ég man eitt sinn þegar ég var staddur í bókabúð og fékk skilaboð frá kærustunni. Ég sendi eitthvað til baka og orðaskiptin voru hlý og falleg. Þannig að þegar einhver spurði mig varfærnislega hvort ég vissi hvað klukkan væri leit ég grímulaust upp með þvílíkt sólskin framan í mér að þessi bláókunnuga manneskja gat ekki annað en brosað á móti. Ég er ekkert að klappa sjálfum mér óþarflega á bakið ef ég segi að ég hafi gert meira en bara láta bókabúðargestinn vita hvernig tímanum liði; að ég gæti hafa beinlínis bjargað deginum hans.
Þessi bjarmi er alltaf til staðar innra með okkur. Þetta er ég að fatta meir og meir hvern dag sem líður. Og hver veit? Kannski verður það á næsta ári eða í næstu viku eða jafnvel á morgun sem ég legg Norður og Suður frá mér í hinsta sinn. Ég veit að ég hef ekkert að óttast. Og enginn þarf að óttast neitt frá mér. Og ég má alveg vera með í þessari mannkynsfjölskyldu.
Þú líka.
Ást og friður, bræður og systur.
Athugasemdir