Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Við erum öll eitt

Við erum öll eitt

Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa. Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir.  — Róm. 12:4-5

Þó með öfugum formerkjum hafi verið þá tókst Jóni Gnarr um síðasta Valentínusardag að vekja umræðu um hina aldagömlu fullyrðingu: Guð er til.

Ég er hugsanlega aðeins of seinn í það partí en mig langar samt til að leggja smá orð í belg þessa páskahelgi.

Hugtakið, Guð, sem kastað er á milli er óneitanlega ansi margslungið og persónulegt. Fólk getur illa rætt það án þess að rekja reynsluheim sinn, hvað því finnist hugtakið þýða og jafnvel hvað því finnist að öðru fólki finnist það þýða. Það hvort eitthvað sé til hefur líka flóknari merkingu en ætla mætti í fljótu bragði. Hugsanir mínar og líkami minn eru til dæmis óvefengjanlega til á einhvern hátt en sú tilvist lýsir sér samt með mismunandi hætti. Sameiginlegrar eða uppbyggilegrar niðurstöðu úr þessari umræðu er því tæpast að vænta. Málið leysist varla endanlega á Íslandi árið 2015 frekar en það hefur gert það einhvers staðar annars staðar einhvern tímann áður. Þess vegna finnst mér fullyrðingin í raun óáhugaverð, í þeim skilningi að áhugaverðar fullyrðingar séu þær sem má kryfja sér til gagns.

Áhugaverðari finnst mér sjálfum þessi fullyrðing, sem er kannski og kannski ekki önnur leið til að segja það sama: Við erum öll eitt.

Við fyrstu sýn kann hún að virðast merkingarlaus og þversagnakennd, jafnvel væmin og froðukennd. Eitthvað sem hljómar ósköp vel en er tilgangslítið að gera að einhverju leiðarljósi í lífinu, hvað þá ræða sem merkingarríka fullyrðingu.

Í raun er þetta þó háguðfræðileg fullyrðing og ég held að í rauninni þurfi mannkynið ekki á nokkurri frekari leiðsögn að halda af því tekst að skilja þessa staðhæfingu til hlítar. Hún gengur eins og rauður þráður í gegnum trúarbrögð okkar, en á einn eða annan hátt er kveðið á um í flestum ef ekki öllum þeirra að við komum frá sameiginlegum uppruna og hverfum síðan til sameiginlegra örlaga. Það sem mér finnst þau vera að lýsa, meira og minna, hvert á sinn hátt, er að öll sjálf eru komin frá einu Sjálfi sem hefur verið til frá upphafi og verður alltaf til. Í ritum Hindúismans er þetta sagt nokkuð beint og skýrt - í upphafi var Sjálfið, sem leit í kringum sig og sagði „Þetta er ég“ og allt frá því hafa öll sjálf kallað sig ‘ég’.

Þetta get ég þó ekki fært miklar sönnur á og röklega má alveg segja að þetta hafi álíka stöðu í þekkingarfræðilegu samhengi og sú fullyrðing að ég sé heili í krukku einhvers staðar og að allt sem ég upplifi sé bara sýndarheimur. Enda hef ég sem betur fer lítinn áhuga á að sannfæra aðra um þetta en þeim mun meiri áhuga á að lifa lífinu í samræmi við að ég tel að þetta sé satt. Að allt sem maður geri sínum minnsta bróður geri maður öllum, þar með talið sjálfum sér (Kristur er einmitt í kristninni samkvæmt mínum skilningi holdgervingur þessa eina Sjálfs). Að maður eigi að koma fram við náungann eins og maður vill að hann komi fram við sig af því að í raun og veru er maður sjálfur náunginn.

Þetta er róttæk hugmynd sem hefur veruleg áhrif á hvernig maður hugsar og breytir ef maður trúir henni í raun og veru. Hún er til dæmis algjörlega ósamrýmanleg því að fólk noti trúarbrögð til að upphefja sjálft sig og telja að það sé sjálfkrafa yfir aðra hafið með því að aðhyllast einhverja tiltekna heimsmynd og siði. Sá sem er upptekinn af slíkum hugsunum og veltir sér upp úr því hversu mikið verri einhverjir sem eru öðruvísi en hann séu hefur hreinlega dæmt sig úr leik. Takk fyrir að spila, vonandi nærðu fleiri kærleikastigum í næsta leik. Trúarbrögðunum þínum var aldrei ætlað að vera tæki til að gera lítið úr öðrum heldur til að leyfa þér, þessum undursamlega einstaklingi sem þú ert, að upphefja Sjálfið á þinn einstaka hátt. Rétt eins og mismunandi tónlistarstílar eru allir tónlist eru öll trúarbrögð trú (líkingin er reyndar ónákvæm að því leyti að ég veit ekki alveg hvar trúleysi myndi passa inn í hana). Þó þú fílir bara þungarokk eru allir sem fíla kántrí ekki sjálfkrafa smekklaus fífl. Ekki heldur þeir sem bara fíla ekki tónlist yfir höfuð. Fíflin eru víða en fíflskan fer ekki eftir því hvað þú fílar heldur hvernig þú hegðar þér. Þar sem við erum öll eitt erum við líka öll fífl að einhverju leyti og þurfum að passa þetta með flísina og bjálkann. Það er líka í raun ekkert að óttast eða hafa áhyggjur af ef allt er eitt þegar allt kemur til alls og allt alltaf eins og það á að vera.

Vísindin hafa síðan á ýmsa vegu leitt í ljós hvað við höfum sameiginlegt, þó ég ætli hvorki að jafna þessu saman né halda því fram að vísindin hafi sannað nokkuð sem trúarbrögðin hafa haldið fram, enda veit ég að deilur um slíkt eru jafnan álíka uppbyggilegar og deilur um tilvist Guðs. Trúlausir aðdáendur vísindanna myndu til dæmis margir hverjir strax halda því fram að hlutirnir séu mun meira klipptir og skornir í vísindunum og að mín draumsýn um rauðan fallegan þráð í trúarbrögðunum sé bara mín túlkun en ekki endilega veruleiki. Það kann að vera rétt og um það nenni ég ekki að deila enda er áhugaverðara að horfa í hvað það er þá mögulega í þeirra heimsmynd sem talar til hugmyndarinnar um að við séum öll eitt. Staðreyndin er til dæmis sú að nútímavísindi hafa hrakið ýmsar bábiljur sem til þess eru fallnar að sundra okkur og þess í stað sýnt fram á hversu mikið við höfum sameiginlegt.

Stundum hefur verið reynt að nota vísindin til að upphefja einn á kostnað annars en þessir tilburðir hafa ekki staðið tímans tönn. Nærtækast er að nefna tilraunir til að nota þróunarkenninguna til að flokka fólk í kynþætti þar sem einn er æðri öðrum - þegar þröngt nálarauga alvöru vísinda sýnir fram á sameiginlegan þróunarlegan uppruna okkar og erfðaefni sem er að langmestu leyti nákvæmlega eins í okkur öllum, óháð hörundslit eða öðrum eiginleikum sem gera okkur ólík á yfirborðinu. Í sálfræðinni er rannsakað hvaða þættir eru sameiginlegir í hugarskotum okkar og  sýnt fram á hvernig hugsanavillur leiða okkur út í fordóma sem enginn rökrænn fótur er fyrir. Sagnfræðin sýnir mynstrin sem spretta aftur og aftur í mannlegum samfélögum. Og svo framvegis. Vísindin víkka sjónarhornið óhjákvæmilega þegar þeim er beitt rétt.

Þetta er ansi fallegt allt saman og mér finnst frábært hvað vísindin hafa auðgað sameiginlegan skilning okkar á heiminum. Skilning sem allir geta sannreynt ef þeir beita sömu aðferðum og lyftir okkur upp úr moldinni. Mér finnst það ekki tilviljun að vísindasinnar láta sig gjarnan mannréttindi í víðu samhengi varða. Sú staðreynd að við erum öll á vissan hátt eitt held ég að sé nefnilega óumdeilanleg út frá vísindalegri nálgun. Stjörnufræðingurinn Carl Sagan lýsti  á dásamlegan hátt í bók sinni Pale Blue Dot hvernig öll átök okkar mannkynsins og hroki blikna í samanburði við alheim sem er gríðarstærri en pínulitla sviðið sem allt okkar drama gerist á, Jörðin. Að þetta séu okkar einu heimkynni sem engin vitræn ástæða sé til annars en að fara vel með. Fyrir mér er þetta enn ein leiðin til að segja að í hinu stóra kosmíska samhengi eru öll okkar sjálf órjúfanlegur hluti af stærra Sjálfi og að okkur er hollast að haga okkur í samræmi við það. Virða jafnan rétt hvers annars til lífs, frelsis og reisnar og leitast við að skilja hvert annað, þessi mismunandi birtingarform hins mannlega.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni