Þessi færsla er meira en 10 ára gömul.

Verðskulduð mannréttindaverðlaun

Verðskulduð mannréttindaverðlaun

Í dag var haldinn hátíðlegur mannréttindadagur Reykjavíkurborgar og af því tilefni var mannréttindaverðlaunum borgarinnar úthlutað. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum eða hópum fólks sem hafa staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa.

Að þessu sinni hlutu aðstandendur verkefnisins Frú Ragnheiðar verðlaunin. Það þykir mér sérlega ánægjulegt þar sem hugmyndafræðin sem þetta verkefni Rauða krossins er byggt á er mér mjög hugleikin. Þessi hugmyndafræði heitir skaðaminnkun og hún hefur rutt sér til rúms víða um heim og á marga vegu þrátt fyrir að hún sé ekki alveg óumdeild. Skaðaminnkun byggist á því að draga úr skaðlegum áhrifum ákveðins lífernis í stað þess að reyna endilega að breyta því líferni. Þannig veitir fólkið sem vinnur fyrir Frú Ragnheiði til dæmis sprautufíklum aðhlynningu og hreinar nálar í stað þess að reynt sé að halda þeim frá neyslu og refsa þeim fyrir hana. 

Segja má að með þessu sé verið að styðja við fíknina en mótrökin eru þau að þetta er líferni sem viðkomandi fólk stundar hvort eð er og þá sé betra að létta byrðarnar og draga úr skaðanum sem er líferninu samhliða en að grípa inn í með aðgerðum á borð við glæpavæðingu neyslunnar sem jafnvel gera bara illt verra. Það er auðvitað töluverð jafnvægislist að átta sig á hvenær er rétt að grípa inn í og hvenær er rétt að draga bara frekar úr skaðanum - en það er jafnvægislist sem meðferðarbransinn þekkir ágætlega í gegnum æðruleysisbænina frægu og góðu. Sumu(m) getur maður breytt en öðru(m) ekki og vits er þörf til að greina þar á milli.

Það er hins vegar hrein vitleysa að telja að öllum sé hægt að breyta strax eða að það sé einhver skömm í því að hjálpa stundum fólki í neyslu frekar en úr neyslu. Hvað þá að refsa þurfi þeim sem ekki vilja breytast. Þannig stöndum við ekki vörð um mannréttindi fólks.

Um mannréttindi fíkla verður aðeins staðið vörð með þeirri mjúku list að bera virðingu fyrir manneskjunni og aðstæðum hennar. Þá list hafa þau sem vinna sitt óeigingjarna starf fyrir Frú Ragnheiði iðkað af stakri prýði og eru þau mjög vel að Mannréttindaverðlaunum Reykjavíkurborgar komin.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Innflytjendur á Íslandi
Samtal við samfélagið#15

Inn­flytj­end­ur á Ís­landi

Ís­land hef­ur tek­ið um­tals­verð­um breyt­ing­um und­an­farna ára­tugi. Eft­ir að hafa löng­um ver­ið eitt eins­leit­asta sam­fé­lag í heimi er nú svo kom­ið að nær fimmti hver lands­mað­ur er af er­lendu bergi brot­inn. Inn­flytj­end­ur hafa auðg­að ís­lenskt sam­fé­lag á marg­vís­leg­an hátt og mik­il­vægt er að búa þannig um hnút­ana að all­ir sem hing­að flytja geti ver­ið virk­ir þátt­tak­end­ur á öll­um svið­um mann­lífs­ins. Til að fræð­ast nán­ar um inn­flytj­enda hér­lend­is er í þess­um þætti rætt við Dr. Löru Wil­helm­ine Hoff­mann, nýdoktor við Menntavís­inda­svið Há­skóla Ís­lands, þar sem hún tek­ur þátt í verk­efn­inu “Sam­an eða sundr­uð? Mennt­un og fé­lags­leg þátt­taka flótta­barna og -ung­menna á Ís­landi.” Hún starfar einnig sem stunda­kenn­ari við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og Há­skól­ann á Bif­röst. Sjálf er Lara þýsk en rann­sókn­ir henn­ar hverf­ast um fólks­flutn­inga, dreif­býli, tungu­mál og list­ir en hún varði doktors­rit­gerð sína í fé­lags­vís­ind­um við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri ár­ið 2022. Tit­ill doktors­rit­gerð­ar­inn­ar er „Að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi: Hug­læg­ar vís­bend­ing­ar um að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi byggð­ar á tungu­máli, fjöl­miðla­notk­un og skap­andi iðk­un.“ Guð­mund­ur Odds­son pró­fess­or í fé­lags­fræði við HA ræddi við Löru en í spjalli þeirra var kom­ið inn á upp­lif­un inn­flytj­enda af inn­gild­ingu, hlut­verk tungu­máls­ins, stærð mál­sam­fé­laga, sam­an­burð á Ís­landi og Fær­eyj­um og börn flótta­fólks.