Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Trúfélög og lóðir - enn og aftur

Trúfélög og lóðir - enn og aftur

Lóðaúthlutanir til trúfélaga er töluvert hitamál sem vekur gjarnan sterkar tilfinningar - sem auðvelt er að spila inn á ef vilji er fyrir því.

Þetta sannaðist mjög eftirminnilega í síðustu borgarstjórnarkosningum þar sem framboð Framsóknar og flugvallarvina spilaði meðvitað inn á andóf gegn því að Félagi múslima hafi verið úthlutað lóð á síðasta kjörtímabili. Tók það félag gagngert fyrir (en ekki önnur sem í gegnum árin hafa fengið ókeypis lóðir hjá borginni) og ýjaði með ýmsum hætti að því að úthlutunin hafi verið óeðlileg eða ólögmæt og að fulltrúar framboðsins myndu beita sér fyrir því með einhverjum hætti að úthlutunin yrði afturkölluð. Ekki þarf að deila mikið um það að það var þetta útspil sem skilaði framboðinu tveimur fulltrúum í borgarstjórn.

Fáeinum mánuðum eftir kosningar birti oddviti framoðsins grein á vefsíðu Framsóknarflokksins þar sem útlistað var að málið snerist í raun um að ókeypis lóðaúthlutanir til trúfélaga væru almennt ólögmætar - og vísaði í skoðanakannanir sem sýna að þorri almennings er mótfallinn þessari tilhögun.

Inn í þessa umræðu blandaði ég mér og átti meðal annars í ritdeilum við Gústaf Níelsson (sem Framsókn og flugvallarvinir skipuðu stuttu síðar tímabundið sem varamann í mannréttindaráði borgarinnar og er núna oddviti á lista hjá öðru framboði, Íslensku þjóðfylkingunni). Mín afstaða hefur ekki beinlínis verið einföld enda málið ekki einfalt - nema fólk freistist til þess að einfalda það og rugla með það. Þó er ljóst að ég tel að lagaumhverfið þurfi að endurskoða til þess að gera það skýrt að trúfélög eigi ekki rétt á ókeypis lóðum frá sveitarfélögum. Það er eina leiðin til þess að taka fyrir að gagngert séu búin til pólitísk átök um einstaka úthlutanir eða beiðni um þær. Píratar hafa einmitt lagt fram lagafrumvarp í þessu skyni og með þessum rökum.

Hvað varðar þær úthlutanir sem þegar hafa farið fram vandast málin og mér finnst ég alltaf vera að slípast til í skilningi mínum á þeim - en ég fæ allavega ekki séð að þær séu beinlínis óheimilar eða auðveldlega afturkallanlegar. Ég hef t.d. mikinn skilning á ástæðum þess að á síðasta kjörtímabili hafi Félagi múslima verið úthlutað lóð eftir margra ára stífan eftirrekstur af hálfu félagsins og gagnrýni ýmissa aðila á að seinagangurinn benti til að mismunun réði för. Ég þurfti ekki að taka afstöðu til þessa á sínum tíma og verð að viðurkenna að ég veit alveg ekki hvernig ég hefði brugðist við. Sennilegast þó stutt við það í nafni jafnræðis. Ljóst er þó að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins brugðust t.d. við með því að sitja hjá og báru þar fyrir sig ýmsum rökum. Þetta má sjá hér í fundargerð undir 19. lið. Framsókn var ekki með borgarfulltrúa þá en afstaða núverandi fulltrúa flokksins til þess núna er ljós líkt og rakið var hér ofar.

Nú bregður svo við á þessu kjörtímabili að Hjálpræðisherinn, sem núna er skráð trúfélag, ákveður að selja Herkastalann og byggja sér nýtt húsnæði undir starfsemi sína í nábýli við moskulóð Félags múslima. Félaginu hefði mögulega verið stætt á því að vísa til jafnræðis og þess fordæmis sem hafði skapast til að fara fram á ókeypis lóð. Borgin hefur þó gefið út að hún vill sleppa undan þessu í framtíðinni og hefur oft farið fram á endurskoðun laganna - og því var þetta ekki leiðin sem Hjálpræðisherinn kaus að fara. Ekki heldur leiðin sem borgarráð eða nokkur fulltrúi þar lagði til enda auðvelt að færa ýmis rök gegn henni. Til dæmis þau að Hjálpræðisherinn var hreint ekki fjárþurfi eftir að hafa selt eldra húsnæðið og að borgin hefði styrkt starfsemi félagsins með ýmsum hætti í gegnum árin og myndi gera það áfram með beinni hætti en að fella niður lóðargjöld. Sátt hafði náðst milli borgar og Hjálpræðishersins og innan borgarráðs um ákveðið umsamið verð fyrir lóðina sem var undir markaðsvirði.

Þá ber svo undir að þegar ganga á frá úthlutun samkvæmt þessum skilmálum leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina fram tillögu um að félagið eigi að vera undanskilið byggingarréttargjaldi. Ekki var þar vísað í stöðu félagsins sem trúfélags heldur aðeins til eðli starfseminnar og hversu lengi félagið hafi starfað á landinu. Eðli starfseminnar er hins vegar nokkuð sem þegar hafði verið tekið tillit til þegar samið var um verð. Meirihluti borgarráðs gerði það eina eðlilega í þessari stöðu, að leita umsagnar viðeigandi embættis (skrifstofu eigna og atvinnuþróunar), sem hafði verið falið að semja við Hjálpræðisherinn um verðið. Ekki var mælt með því í umsögninni að fella niður byggingarréttargjaldið á þessum tímapunkti í ferlinu og á þessum forsendum og því var það rétt stjórnsýsla að styðja ekki við það. Halda mætti að tillagan hafi verið viljandi sett fram á þessum tímapunkti og með þessum óljósa hætti til þess að búa til frétt úr því að meirihlutinn hafi gerst svo óforskammaður að hafna henni - eins og fréttaflutningur af þessu ber vissulega með sér. Það er vissulega mjög auðvelt að búa vísvitandi til ágreining um þessi mál ef vilji til einföldunar er fyrir hendi.

Ég var ekki sáttur við þessa tillögugerð fulltrúa minnihlutaflokkana og framsetningu á henni og tjáði mig um það. Benti meðal annars á að þeir stilltu meðvitað upp Hjálpræðishernum á móti Félagi múslima en létu aðrar lóðaúthlutanir liggja milli hluta. Slíkur samanburður er ekki settur fram í tómarúmi og það er barnaskapur að láta eins og svo sé. Samhengið hefur hér verið rakið nú þegar - múslimar eru mjög gjarnan teknir þarna út fyrir sviga og slíkt höfðar mjög sterklega til þeirra sem eru fordómafullir í garð múslima. Framsókn og flugvallarvinir höfðu leikið þennan leik áður með góðum árangri. Enda sá ég vel af viðbrögðum ýmissa netverja að margir voru fljótir að stökkva á þetta og hneykslast enn og aftur á því að múslimar hefðu fengið lóð á meðan Hjálpræðishernum væri mismunað í þessum efnum. Athygli vekur auðvitað að í þessum kreðsum hefur fólk gjarnan mikið talað fyrir því að múslimum væri mismunað sérstaklega í þessum efnum (sem öðrum) - en nú þegar Hjálpræðisherinn er annars vegar horfir málið allt öðru vísi við.

Það sýnir mjög vel að þegar allt kemur til alls snúast þessi mál í augum margra bara alls ekki um einhver prinsippleg lagaatriði heldur fyrst og fremst um að mikilvægt sé að múslimar sérstaklega njóti ekki sömu réttinda og önnur trúfélög. Til þessa hóps er auðvelt að höfða með svokallaðri hundaflautupólitík, þar sem ákveðnir hlutir eru ekki sagðir alveg beint út heldur er ýjað að þeim. Ég tel að slíkt hafi verið í gangi og þá bendi ég á það. Ég held að þarna hafi enn og aftur meðvitað verið búinn til ágreiningur sem beinist fyrst og fremst að múslimum. 

Þetta er mikill hráskinnaleikur þar sem Hjálpræðishernum er gerður sá bjarnargreiði að stilla honum upp sem fórnarlambi mismununar. Tækifærismennskan og prinsippleysið sjást vel af því að oddviti Framsóknar og flugvallarvina, sem áður hefur talað um að ókeypis lóðaúthlutanir til trúfélaga séu ólögmætar, skuli leggja slíka til (reyndar í raun ekki, þar sem enn og aftur var ekki vísað í stöðu Hjálpræðishersins sem trúfélags í tillöguflutningnum) og kvarta yfir mismunun þegar ekki er orðið við því.

Enn og aftur er augljóst að raunverulega skotmarkið er alltaf Félag múslima, hvernig sem reynt er að tala í kringum það. Hundaflautan gellur skýrt og fólk sem mislíkar múslimar heyrir mjög vel í henni. Inn í þetta hafa Sjálfstæðismenn nú því miður dregist og um þetta þarf að tala skýrt.

Hundaflautupólitík er það og hundaflautupólitík skal það heita.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni