Mesta ógnin?
Þó stutt sé liðið frá hryðjuverkunum sem framin voru í París síðastliðið föstudagskvöld hafa nú þegar komið fram margvísleg viðbrögð helstu ráðamanna, erlendis sem hérlendis. Þau þykja mér misyfirveguð.
Á meðan sumir leggja áherslu á að sefa ótta fólks eru aðrir sem ýja að því að nú þurfi aldeilis að gefa í þegar kemur að löggæslu og öðrum varúðarráðstöfunum, og það strax. Einnig er gefið í skyn að það þurfi að skrúfa fyrir eða allavega taka mun fastar á innflytjendum og flóttafólki. Allt virðast þetta vera hugmyndir sem fólk var með í kollinum fyrir en hefur ekki séð tilefni til að viðra sterklega áður. Óttinn dregur ýmsilegt fram en það er mikilvægt að tala ekki út frá honum heldur gefa sér tíma til að melta hlutina áður en ákvarðanir eru teknar. Til dæmis hafa borist fréttir af því að sýrlenskt vegabréf hafi fundist á einum árásarmanninum í París, en síðar voru þær bornar til baka og vegabréfið sagt falsað. Hér má hafa í huga að árásarmennirnir hafa mikinn hag af því að setja fram áróður sem skapar ótta og óvissu - og þeir hafa líka mikinn hag af því að gera flóttafólki frá Sýrlandi lífið leitt. Það er ömurlegt ef þeir sem eru að flýja þessa ódæðismenn verða látnir líða enn frekar fyrir ódæði þeirra með því að þeir verði gerðir óvelkomnir í Evrópu, vegna hræðslu Evrópubúa við að þeir sjálfir séu ódæðismenn. Þar væru það óttinn og fordómarnir sem væru látnir ráða för og ódæðismennirnir ynnu þannig mikinn sigur.
Það sem mér finnst hins vegar einna alvarlegast er nálgun forsetans á viðfangsefnið. Hann hefur alls ekki hikað við að setja árásina í víðara samhengi og tala í efsta stigi (eins og hann er nú gjarn á að gera almennt; sú heimsmynd og framtíðarsýn sem hann málar byggist iðulega á mjög skýrum línum og einföldum lausnum). Óvinurinn er einfaldur og sýnilegur: Hið öfgafulla íslam. Á þessum nótum hefur hann ekki talað opinberlega áður og því er þessi tímasetning nokkuð merkileg. Í stað þess að viðra þessar vangaveltur sínar á rólegri tímum hendir hann þessu sem sprengju í umræðuna á nákvæmlega þeim tíma þegar fólk er hvað óöruggast og veikast fyrir hræðsluáróðri. Enda er það segin saga að þeir sem eru fyrstir til að taka undir með honum er fólkið sem hefur lengi haft horn í síðu þessara trúarbragða eins og þau leggja sig og óttast þau mjög.
Þarna er höfðað til tilfinninga mun frekar en raka. Mikilvægum staðreyndum á borð við að íslömsk öfgaöfl eru alls ekki einn samstæður hópur er alls ekki haldið til haga. Kunnugt er til dæmis að þeir tveir hópar sem hafa staðið að mannskæðum hryðjuverkum í París á þessu ári, al-Qaeda og Íslamska ríkið/Daesh, eru alls ekki sameinaðir í markmiðum sínum og aðferðafræði. Í raun eru þeir keppinautar og andstæðingar.
Hvort sem forsetinn áttar sig á því eða ekki talar svona einföldun beint til þeirra sem gera engan greinarmun á mismunandi afbrigðum íslam eða mismunandi íslamskra hryðjuverkahópa heldur eru hræddir við þetta allt saman og líta á þetta sem persónulega ógn við sig og þjóð sína. Af slíku fólki er nóg - en við það virðist forsetinn einna helst vilja segja að í baráttunni gegn þessari gríðarlegu ógn sem hið öfgafulla íslam er þá séu ekki til öfgar. Nágrannar okkar í Noregi og Svíþjóð held ég að væru nú ósammála því. Ég er reyndar algjörlega sammála honum um það að úthrópanir gagnast engum og kynda bara undir ótta og reiði en það er nú kannski annað mál þegar forsetinn svo gott sem stimplar óttann sem mikilvægan og nauðsynlegan. Óttinn leitar ekki sannleikans af yfirvegun heldur vill skjótar lausnir sem fjarlægja það sem veldur óttanum, strax í dag.
Reyndar nefnir forsetinn þegar upp er staðið ekki margar áþreifanlegar lausnir - nema hann hafnar mjúkum lausnum sem byggjast á mannúð og skilningi. Hér er það harkan sem á að ráða, og þeir sem ekki vilja fara þá leið eru bara barnalegir sakleysingjar. Ég geri líka fastlega ráð fyrir að ýmsar og misgeðslegar lausnir komi þeim sem líkar þessi málflutningur forsetans vel til huga.
Ég get ekki tekið undir þá sýn á veruleikann sem felst í því að útmála eitthvað eitt einfalt atriði sem einhverja mestu ógn sem að okkur öllum steðjar - ég tel hana mjög skaðlega og óuppbyggilega. Ef ég væri samt sem áður neyddur til að nefna eitthvað eitt atriði myndi ég sennilegast nefna óttann. Mótefnið við honum er kærleikur, eitthvað sem hluta mannkyns hefur alltaf þótt óttalega barnalegur og sakleysislegur, og illa til þess fallinn að vinna bug á hinu illa. Slíku tali svara ég þá einfaldlega svona:
Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni. (1. Jóh. 4:18)
Athugasemdir